02.03.1943
Neðri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2650)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Sigurður Þórðarson:

Herra forseti. Ég vil aðeins undirstrika það, sem hv. þm. Borgf. sagði, að þegar um þessi mál er rætt, verður ekki gengið framhjá því, sem helztu menn stórþjóðanna ráða til.

Ég vildi annars lýst yfir því, að ég felli mig ekki við nál. sjútvn. Það er betra, að Alþ. taki skarpa afstöðu til málsins, en svæfi það ekki. Málið hefur dregizt óhóflega lengi, og nú á samkv. nál. að þvæla því til nýrrar n. Þegar þessi mál eru athuguð, verða menn að gera sér ljóst, að dragnótaveiðar eyðileggja smábátaútgerð viðkomandi héraða. Því er í frv. farið fram á, að sýslun. og bæjarstj. sé með samþykktum heimilt að banna dragnótaveiðar á innfjörðum. Ef í viðkomandi héruðum er álitið, að hér sé rangt — stefnt, verður ekki þetta bann samþ. þar. Ef í Eyjafirði og Skagafirði verður talið heppilegra að leyfa dragnótaveiðar, yrði ekki þetta bann sett á. Það er sanngirnismál, að héruðin fái að ráða þessu sjálf. Þau eiga að hafa mest um það að segja.

Í frv. felst engin árás á dragnótaveiðar almennt. Það má stunda þær viða og á ýmsum tímum. Það er aðeins beðið um heimild til að friða nokkra innfirði fyrir dragnót, og það er álit manna á Norðurlandi, að ekki sé hægt að stunda smábátaútveg, ef dragnótaveiðar eru leyfðar. Fiskurinn hverfur af miðunum. Það er ekki til að koma meiri veiði á land, að verið er með dragnót, heldur þvert á móti. Það vita allir sjómenn, að um leið og dragnótaveiðarnar hef jast á innfjörðum, hverfur fiskurinn. Þær spilla ungfiskinum, svo að stofninn hlýtur að ganga til þurrðar. Þetta er einnig skoðun hins brezka vísindamanns. Ég vil því alvarlega skora á hv. dm. að taka afstöðu til þessa máls. Það er áreiðanlega tímabært, að tekið sé í taumana, þar sem smábátaútgerðin stendur og fellur á sumum stöðum með afgreiðslu málsins. Þess vegna er það mikill ábyrgðarhluti að synja um samþykkt frv. Samþykkt þess væri engum til skaða, en viðkomandi héruðum til mikillar blessunar.