02.03.1943
Neðri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í C-deild Alþingistíðinda. (2651)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Finnur Jónsson:

Mér finnst ástæða til að benda á, að umsögnin, sem verið er að vitna til og var borin fram eins og hún væri umsögn um þetta frv. frá merkum vísindamanni í Englandi, kemur þessu máli ekkert við. Það er verið að ræða um það að takmarka rányrkju með botnvörpu utan landhelgi Íslands. Það er vitanlegt, að fiskistofninn mundi endast bezt, ef allir notuðu sem einföldust veiðarfæri, sem veiddu sem minnst, t.d. handfæri. En hvernig mundu þá fiskveiðarnar borga sig? Það er víst lítil von um, að Bretar, Þjóðverjar eða Norðmenn fengjust til að takmarka sínar veiðar svo mjög, að þeir tækju upp sem einföldust veiðarfæri til að hlífa stofninum. Ef ekkert væri hugsað um afkomu manna, væri þetta æskilegt. Umræður hafa farið fram milli ýmissa fiskifræðinga á undanförnum árum, og það hefur verið stofnað til allsherjarsamvinnu og talað um friðun í því sambandi. Það má vera, að það komi að loknu stríðinu, en það kemur ekkert við þessu frv. Í sambandi við alþjóðahafrannsóknir er farið að tala um uppeldisstöðvar, en hvorki fyrir Norðurlandi né Austurlandi eru neinar uppeldisstöðvar, enda er ekki um það að ræða hér, heldur þær slóðir, sem fiskurinn gengur á, eftir að hann er genginn af uppeldisstöðvunum.

Ég vil gera meðnm. mínum það til geðs að samþ., að þetta frv. verði athugað af milliþn., sem verður skipuð. Ég trúi því, að í milliþn. verði valdir menn, sem bera hag þjóðarheildarinnar fyrir brjósti.

Þá vil ég aðeins benda á, að í frv. er að einu leyti gengið langt út yfir öll takmörk í gildandi l. um fiskveiðasamþykktir. En flm. er blindur af offorsi.

Ég nefni þetta bara sem örlítið dæmi um það, hversu gjörsneyddur flm. er allri sanngirni og öllum möguleikum til að athuga þetta mál á óhlutdrægan hátt.