02.03.1943
Neðri deild: 69. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (2655)

50. mál, dragnótaveiði í landhelgi

Frsm. (Sigurður Bjarna,son):

Ég skal ekki tef ja málið mikið, en mig langar til að segja fáein orð. Mér finnst tekið of djúpt í árinni, þegar hv. þm. Borgf. segir, að það verði lesið út úr nál., að sjútvn. sé formælandi hvers konar rányrkju á grunnmiðum landsins. Mér sýnist sú staðhæfing stjórna nokkuð skoðun liðsmanna flm. þessa frv. Og þegar ég athuga áhuga flm. þessa frv. á því að friða grunnmiðin við strendur landsins, þá finnst mér margt einkennilegt koma upp. Ef tilgangur flm. er að friða grunnmiðin í heild, hvernig stendur þá á því, að þeir takmarka ákvæði þessa frv. við veiðar aðeins fyrir nokkrum hluta landsins? Er ekki sama þörf á því að varðveita miðin fyrir Suður- og Vesturlandi og koma. í veg fyrir, að rekin sé þar sú rányrkja, sem þeir tala um? Ég vil benda á, að í stað þess að láta hið sama ganga yfir öll grunnmiðin, þá lengja þessir þm. þann tíma, sem þessar veiðar má stunda annars staðar við strendur landsins. Mér finnst hér skjóta nokkuð skökku við að ætla að telja hv. þd. trú um, að við, sem viljum vísa þessu máli til mþn., viljum vera formælendur rányrkjunnar.

Þetta er gamalt og nýtt deilumál, sem þarf að athuga gaumgæfilega, áður en hv. Alþ. leggur sinn dóm á það, hvernig því skuli skipa.

Hv. 2. !þm. Skagf. benti á, að flestir þeir bátar, sem stunduðu dragnótaveiðar að jafnaði, færu á síldveiðar á sumrin og hefðu þar stórtekjur. Ég verð að játa, að ég er á öðru máli. Bátar innan 20 smál. fara yfirleitt alls ekki á síldveiðar, en dragnótabátarnir eru þetta 15–16 og upp í 30 smálestir. En þetta gefst tiltölulega illa, því að aflahlutur þeirra er stórum lægri en aflahlutur þeirra, sem stunda veiðar á stórskipum.

Ég vil rétt aðeins drepa á eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Skagf. Hann sagði ástæðulaust, að Akureyri hefði nokkuð um dragnótaveiði að segja, þar sem hún ætti land aðeins að Pollinum. En nú veit hv. 1. þm. Skagf. vel, að Akureyrarbátar stunda dragnótaveiðar í firðinum sem aðrir, ekki bara fyrir því landi, sem þeir eiga, heldur aðrir, því að miðin eru utar á firðinum, en ekki fyrir því landi, sem Akureyri á. Og það er eðlilegt, að Akureyrarkaupstaður hafi hönd í bagga, þegar ákvarðanir eru teknar um þessi mál.

Ég vil ljúka máli mínu með því að svara því, sem hv. 2. þm. N.- M. sagði, að sjútvn. hefði ekki aflað sér upplýsinga um þessi mál. Þetta mál er búið að vera það lengi á döfinni, að þeir, sem í sjútvn. sitja, telja sig færa um að stíga þetta spor, að vísa málinu til frekari undirbúnings til n., sem er sérstaklega fær um að fjalla um það, svo að það geti komið fyrir þing vel undirbúið. Þá verður tímabærara að ræða um það.

Það fer fjarri því, að ég hafi tekið þessa afstöðu vegna þess, að ég sé formælandi rányrkju og skefjalausra veiða. Það skyti nokkuð skökku við, ef ég væri að snúast gegn smábátaeigendum til hagsmuna þeim, sem stunda dragnótaveiðar á innfjörðum. Ég hef aðeins reynt að líta á sjónarmið heildarinnar og hvernig bezt fengist lausn þessa máls.