18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2663)

45. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

(Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. — Ég skal ekki tefja hv. d. með langri ræðu. Það var fullt samkomulag um málið í sjútvn., en ég hef áður haft tækifæri til að skýra frv. efnislega hér í d., því að það hefur verið flutt þrisvar áður. Ég vil aðeins flytja þau skilaboð frá n., að hún telur mikla þörf fyrir slíkar tryggingar, og þó að lítil reynsla sé um, hvernig bezt muni að koma þeim fyrir, mælir n. með því, að frv. verði samþ. með einni smá breyt., að í stað þess að Fiskveiðasjóður Íslands sjái um reikningshald Jöfnunarsjóðs, verði það Tryggingastofnun ríkisins. N. virtist þetta einn liður í tryggingastarfseminni og eiga eins vel þar heima.

Hv. þm. Ísaf., N.-Þ. og 6. landsk. þm. hafa áskilið sér rétt til að koma með brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma.