18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

45. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. — Eins og hv. frsm. tók fram, höfum við þrír nm. áskilið okkur rétt til að flytja eða fylgja brtt. Ég vildi gera grein fyrir því, að ég hef ekki við þessa umr. lagt fram neina brtt., af því að málið var tekið fyrr fyrir en ég hafði búizt við, og vil ég geyma mér rétt minn til 3. umr.

Ég vil taka það fram í sambandi við þetta frv., að við í n. erum sammála um, að æskilegt sé að fá slíka tryggingu, en hins vegar er það svo um frv., að ákvæði þess eru ekki nákvæm. Þar er aðeins í aðalatriðum og mjög lauslega kveðið á um, hvernig tryggingunni skuli fyrir komið. Enda er þess varla að vænta, að Alþ. geti nú afgr. mjög nákvæma löggjöf um þetta efni. Málið hefur ekki hlotið þann undirbúning, sem venjulegt er um tryggingalöggjöf. Alþ. ætlaðist til fyrir 2 árum, að sá undirbúningur væri látinn fara fram, og gerði samþykkt hér í d, um það, en sú rannsókn hefur ekki farið fram, og hafði n. því ekki þau gögn við að styðjast, sem æskilegt hafði verið, að hún hefði.

Það er býsna margt, sem stj. þarf að ákveða í væntanlegri reglugerð. T.d. er það ekki skýrt í frv., hvað átt sé við með orðinu „hlutaráðning“.

Ekki er greinilega fram tekið, hvað telja skuli sameiginlegan kostnað. Það er ekki heldur ákveðið í frv., hvar gjaldið skuli innheimt, þar sem skipið er skrásett eða í veiðistöð.

Ég skal minna á, að það hefur á undanförnum þingum þótt álitamál, hvort tryggingin skuli vera frjáls trygging eða skyldutrygging.

Að lokum vil ég aðeins geta þess, að ég mun bera fram brtt, við 3. umr., ef mér sýnist, að það gæti orðið til bóta.