18.01.1943
Neðri deild: 36. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í C-deild Alþingistíðinda. (2665)

45. mál, jöfnunarsjóður aflahluta

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. — Eins og fram er tekið í nál., hef ég áskilið mér rétt til þess að flytja og styðja brtt. við þetta frv. Ástæðan hjá mér er að miklu leyti sú sama og hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég hef ekki getað athugað frv. sem skyldi, en þó sýnast mér sum ákvæði frv. þannig, að nauðsynlegt verði að gera breyt. á þeim. Í 1. gr. frv. stendur, að í lok hverrar vertíðar skuli greiða 1% af verðmæti aflans í óverkuðu ástandi eftir að sameiginlegur kostnaður hefur verið dreginn frá. En þetta kemur mjög misjafnt niður eftir því, hvað er reiknað til sameiginlegs kostnaðar og hvað ekki. Hér við Faxaflóa og víðar er t.d. olía og salt reiknað sem sameiginlegur kostnaður, en svo er ekki fyrir öllu Austurlandi og a.m.k. nokkrum hluta Norðurlands, Af þessu leiðir, að útgerðarmenn og sjómenn á Austurlandi og Norðurlandi greiða mun hærra gjald í sjóðinn en gert verður hér við Faxaflóa. Þeir sem greiða hærra gjald, fá að vísu meiri rétt til greiðslna úr sjóðnum. En allt um það efast ég um, að réttmætt sé, að þeir, sem skipta hlutunum á þann veg, sem gert er hér við Faxaflóa, greiði mun lægra gjald til sjóðsins en hinir.

Mér skilst, að helzta ætlun frv. sé. að útgerðarmenn greiði jafnt í sjóðinn og þeir. sem taka hlut, en að ríkið greiði svo jafnt og báðir þessir aðilar til samans. Verður þá útkoman sú, að útgerðarmenn greiða 1/4 hluta gjaldsins, sjómenn og ríkið 1/2. Ég hef ekkert við þetta hlutfall að athuga og álít það að öllu leyti sanngjarnt. En ég álít, að ástæða sé til þess að athuga þetta frv. nánar en við höfum ástæður til að gera í nefndinni.