05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Eins og ég gat um áðan, hefur ríkisstj. með höndum frv. til 1. um breyt. á l. um verðlag. Mundi sennilega fara bezt á því, að þetta frv., sem nú er rætt um, færi til sömu n. og það frv., svo að n. geti orðið það sem bezt ljóst, hvað fyrir ríkisstj. vakir með þessu og það hefði e.t.v. verið rétt, að þessi tvö frv. fylgdust að.

Ég skal þá skýra það atriði, sem hv. þm. Borgf. var að spyrja um, viðvíkjandi verðlagseftirlitinu. Mér skilst á honum, að hann óttaðist, að starfssvið Viðskiptaráðs gæti orðið nokkuð umfangsmikið. Ég vil því taka það fram, að í frv. um verðlag er gert ráð fyrir sérstökum verðlagsstjóra, sem hafi með allar framkvæmdir að gera og geri tillögur til Viðskiptaráðs um hámarksálögur. Það er því ætlazt til, að verðlagsstjóri hafi allmikið verksvið og vald, en Viðskiptaráð verði eins konar hæstiréttur yfir honum.

Ég mun svo ekki segja meira í svipinn, meðan frv. er ekki komið fram, en ég vil aðeins geta þess, að okkur hefur komið til hugar að skipa skömmtunarstjóra í stað skömmtunarskrifstofunnar, og er þá ætlunin, að hann heyri einnig undir Viðskiptaráð.