05.01.1943
Neðri deild: 25. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Ólafur Thors:

Herra forseti. — Það hefur nú verið allmikið um það rétt hér, að með þessu frv. væri mikið vald lagi í hendur einnar stofnunar. Ég skal nú fúslega viðurkenna, að eftir þeim upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. hefur nú gefið, horfir málið nokkuð öðruvísi við, og vildi ég vekja athygli hlutaðeigandi n. á því. Hæstv. fjmrh. telur, að Íslendingar verði að vera við því búnir að hafa ekki yfir meiri skipastól að ráða til að flytja inn vörur á þessu ári en sem nemur 66 þús. smál.

Ég verð að segja það, að þetta er alls ekki í samræmi við þau fyrirheit, sem okkur voru gefin í sambandi við samninga um hervernd landsins. En hæstv. ríkisstj. hefur vafalaust fengið réttar upplýsingar um þessi mál og því ekki ástæða til þess að rengja það, sem hér hefur komið fram. Hæstv. fjmrh. upplýsti einnig, að búið væri að kaupa og greiða og fá innflutningseyfi fyrir um 40500 smál. Einnig væri óhjákvæmilegt að flytja inn 17,5 þús. smál. af korni, sykri og kaffi. Af þessum 66 þús. smál. er því búið að veita innflutningsleyfi fyrir, kaupa og greiða eða verður að kaupa 58 þús. smál. og eru það því ekki nema um 8 þús. smál., sem ráðstafa þarf á þessu ári.

Eins og hv. d. er kunnugt, eru verkefni Viðskiptaráðs sem hér segir:

1) Að ákveða, hvaða vörur skuli flytja til landsins.

Af 66 þús. smál. er eftir að ráðstafa 8 þús.

2) Að ráðstafa farmrými í skipum, er annast eiga vöruflutninga til landsins og eru eign íslenzkra aðila eða á vegum þeirra.

Hér eru einnig aðeins um að ræða 8 þús. smál.

3) Að ráðstafa gjaldeyri til vörukaupa erlendis og annarra nauðsynja.

Hér er um að ræða gjaldeyri fyrir 8 þús. smál.

4) Að úthluta innflutningi á vörum til innflytjenda og setja þau skilyrði um hann, sem nauðsynleg kunna að vera eða verða vegna ófriðarástands eða viðskiptaskilyrða.

Hér er enn aðeins um að ræða 8 þús. smál.

5) Að annast innflutning brýnna nauðsynja, ef sýnilegt þykir, að innflytjendur sjái ekki þörfum þjóðarinnar borgið.

Hér er og aðeins möguleiki til að ráðstafa 8 þús. smál., þar sem búið er að ráðstafa öllu hinu.

6) Að fara með verðlagseftirlit og vöruskömmtun lögum samkvæmt, svo og önnur þau mál, er ríkisvaldið kann að fela því.

Mér hefur skilizt á öllum, að verðlagseftirlitið hafi verið mjög ófullkomið. Hv. 2. þm. S.-M. viðurkenndi, að í því hefði legið veila, sem olli því, að verðlagseftirlitið hefði ekki náð tilgangi sínum. Mönnum hefur því skilizt, að þessu þurfi að breyta. Ég vil nú beina einni spurningu til hæstv. ríkisstj. Væri ekki rétt, ef búið er að ráðstafa nær öllum verkefnum Viðskiptaráðs á árinu 1943, hvort ekki væri rétt að fella þennan 6. lið 2. gr. frv, undir verðlagseftirlitið og koma betra skipulagi á það í stað þess að skipa stóra n. til þess að annast um þessi mál.

Ef það er svo, sem ríkisstj. óttast, að ekki verði skipakostur til að flytja meira en 66 þús. smál. til landsins á þessu ári auk þeirra nauðsynja, sem fluttar eru inn frá Bretlandi, og eru einkum kol, olía og sement, þá finnst mér, að þetta bákn, sem Alþ. kvíðir fyrir, að geti orðið því ofjarl, verði, sé það athugað út frá þessu sjónarmiði, ekki fyrirferðarmeira en svo, að það borgi sig varla að koma því á fót. Ég vildi beina því til þeirrar n., sem kemur til með að athuga málið, að hún íhugi þetta sjónarmið rækilega.