18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (27)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. meiri hl. 1. kjördeildar (Haraldur Guðmundsson):

Hv. þm. S.-Þ. og hv. þm. V.- Húnv. hafa báðir haldið því fram, að Alþ. hefði rétt til að fresta að taka kosningu gilda eða ógilda hana með öllu, jafnvel þótt ekki lægi fyrir niðurstaða rannsóknar. Þessu hefur enginn neitað. En það breytir ekki því, að í kosningal. og þingsköpum er gert ráð fyrir, að dómsmrn. sé send kæra, ef misfellur eru taldar á kosningu. Hv. þm. S.-Þ. vildi ósanna mitt mál með því að vitna í þingsköp til staðfestingar því, að þingið gæti frestað að taka kosningu gilda, en það á eingöngu við þau tilfelli, sem 1. gr. fjallar um. En ef aðeins er um það að ræða að fresta að taka kjörbréf gilt af öðrum ástæðum en þeim, sem um ræðir í 1. gr., þá tekur þingið slíkt ekki til meðferðar, nema kæra liggi fyrir. Tekið er fram, að kæruna skuli senda dómsmrn. innan 4 vikna frá því er kosningaúrslit voru auglýst, en þó áður en næsta Alþ. kemur saman. Er þetta ákveðið svo til þess, að fyrir Alþ. geti auk kærunnar legið umsögn þess, sem borinn er sökum. Er ætlazt til, að þeir, sem vefengja kosningu eða saka frambjóðanda um ólöglegt athæfi, búi málið svo vel í hendur Alþ. sem kostur er. Hv. þm. S.-Þ. spurði, hvort ég hefði greitt atkv. með því að fresta að taka kjörbréfið gilt, ef komið hefði fram kæra frá framsóknarmönnum. Ég get svarað því, að ef kæran hefði verið rökstudd á svipaðan hátt og kæra sú, sem lögð var fyrir þingið árið 1927, þá hefði ég greitt atkvæði með því. Málið hefði horft öðruvísi við, ef framsóknarmenn hefðu borið fram löglega kæru, jafnvel þótt ekki hefðu legið fyrir fyllri upplýsingar. Ég vil biðja hv. þm. að athuga, hvernig fara mundi, ef sá háttur yrði upp tekinn að fara að fresta að viðurkenna kosningaúrslit af því einu, að einhver þm. gerir slíkan ágreining sem þennan. Hv. þm. S.-Þ. spurði mig, hvort mér þætti ekki meira öryggi fyrir lítinn flokk eins og Alþfl. felast í því, ef ekki væri nú farið að gefa það fordæmi, sem þeir fara fram á, er taka vilja kjörbréfið gilt þegar í stað. Ég verð að segja, að ég teldi öryggi smáflokka sízt betur borgið með þessu. Ég tel fulla ástæðu til þeirra getsaka, að ýmsir þm. kynnu að koma fram með svona ásakanir til þess að fá frestun á viðurkenningu nýrra þm., ef farið yrði að leyfa þessi vinnubrögð. Hv. þm. drap á kosningarnar í N.- Ísaf. 1927 og sagði, að afstaða Alþfl. hefði þá verið önnur. En þá lá líka fyrir ýtarleg, rökstudd kæra ásamt skýrslu, sem staðfest var af mörgum mönnum og hafði verið send dómsmálaráðuneytinu. Alþfl. hélt því þá fram, að sjálfsagt væri að fresta að taka kosninguna gilda, þar sem svo veigamikil rök voru fyrir hendi. En hvað gerðist? Framsfl. vildi taka kosninguna gilda þegar í stað og hafði sömu afsökun í málinu og Sjálfstfl. Svo leiðir rannsókn í ljós, að um stórkostleg kosningasvik var að ræða, og mátti raunar sjá það fyrir á þinginu. Mér er því ekki grunlaust um, að þessi afstaða Framsfl. nú stafi af því, að það var framsóknarmaður, sem hafði næsthæsta atkvæðatöluna á Snæfellsnesi.

Ég man fleiri kosningar, t.d. á Ísafirði 1923 og 1919. Þær voru teknar gildar, held ég, af Framsfl. Í kosningunum 1919 sannaðist, að um var að ræða stórkostlegar mútur einstakra manna. Og Framsfl. vildi taka kosninguna gilda, þótt hann væri því raunar meðmæltur, að málið yrði rannsakað.

Að því er þetta mál snertir, leggur meiri hl. kjörbréfan. til, að rannsókn fari fram, og ég sé ekki, að það geti neinu breytt, hvort þm. sá, sem hlut á að máli, situr á þingi á meðan eða ekki. Ef rannsókn leiðir í ljós, að um sök hefur verið að ræða, er augljóst, að hann verður, hvort sem er, úrskurðaður af þingi. Og ég legg áherzlu á það, að sjálfsagt er, rannsókn fari fram meðal annars á þeim sakargiftum, sem hér hafa komið fram um síldarmjölssendingar, því að í kosningal. er tekin fram, að bannað sé að bera fé á menn í kosningum. Það er auðvitað enginn vafi á því, að Alþ. eitt hefur vald til að taka kosningu gilda, fresta henni eða ógilda hana, en það rannsakar ekki málið. Tilgangur löggjafans er, að þetta sé undirbúið fullkomlega í hendur þingsins. Hins vegar mun ég auðvitað ekki leggja neinn dóm á það, hvort hér gæti verið um sök að ræða eða ekki.

Þá vildi ég gera athugasemd við eitt atriði í skálarræðu þeirri, er hæstv. forsrh. hélt hér í gær fyrir hv. þm. Snæf. Um leið og hann taldi upp ýmsa mannkosti hv. þm., hélt hann því fram, að hann hefði verið beittur rangindum er hann hlaut ekki prófessorsembætti það við háskólann, er hann hefði að réttu lagi átt að fá. Ég var ráðh. þá og vísa þessari ásökun á bug. Vildi ég, að hæstv. ráðh. hefði eins hreinar hendur í öllum málum og ég í þessu máli.

Út af því, sem hann sagði um áætlun viðskiptan. um síldarmjölsþörf bænda, vil ég benda á það, að þegar áætlunin var gerð í júlímánuði s.l., var ekki annað vitað en verðið yrði hið sama og verið hafði. En þegar Alþ. ákvað að færa verðið niður í 32 krónur, hlaut það að hafa í för með sér allmjög aukna eftirspurn, og var þá ekki von, að áætlunin fengi staðizt.