22.01.1943
Efri deild: 39. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

118. mál, jöfnunarsjóður vinnulauna

Haraldur Guðmundsson:

Þetta er vissulega tímabært mál, og ég hygg, að það séu raunverulegar endurbætur á þessum málum, sem vakir fyrir flm. Hins vegar mun ég ekki neita, að frv. ber ekki vott um, að flm. hafi athugað nægilega þessi mál. Mér virðist, að milli mín og hans sé verulegur ágreiningur um einstök atriði frv. Það á að greiða fyrst um sinn úr sjóðnum, sem á að stofna samkv. 1. gr., mismun á því, sem atvinnurekandi vill borga, og þess, sem verkamenn telja, að sér beri. Hv. flm. sjálfum er ljóst, að þetta ákvæði er varhugavert. Hann benti á, að verkamenn gætu gert hærri kaupkröfur nú en þeir byggjust við að fá fullnægt til frambúðar. Ég játa, að þetta getur verið til. En vinnukaupendur geta boðið þeim mun lægra kaup, þannig að það beri enn meira á milli og fé sjóðsins hrökkvi enn þá skemur en flm. býst við. Í þessu tilfelli er það sérstaklega atvinnurekenda hagur, skilst mér, að bilið sé sem allra breiðast, vegna þess að því fyrr kemur að því, sem segir í 4. gr. um að forða sjóðnum frá að vera misnotaður, þannig, að gerðar yrðu háar kaupkröfur í þeim tilgangi að eyða sjóðnum á þann hátt, eins og flm. virðist ætla, að komið gæti fyrir. Þessi ráðstöfun felst í því, að þegar 1/4 sjóðsins hefur farið í greiðslur þær, sem til er ætlazt, séu hámarksgreiðslur til verkamanna færðar niður í svokölluð þurftarlaun. Síðan ætti að greiða úr sjóðnum mismun á þurftarlaunum og því, sem atvinnurekandi bauð.

Það er alveg ljóst, að ákvörðun þurftarlauna er á einskis manns meðfæri. Því að alveg eins og geta atvinnufyrirtækja er misjöfn, eins er mat á kaupi misjafnt, t.d. eftir því, hvort maður er einhleypur eða hefur stóra fjölskyldu, eða hvort um er að ræða ódýran stað eða dýrustu kaupstaði á landinu.

Þá er enn í síðari málsgr. 4. gr. verkamönnum bannað að gera verkfall, meðan sjóðurinn greiðir þennan mismun á því, sem atvinnurekandi býður, og þurftarlaunum, þó að það sé e.t.v. langt undir almennum launakjörum á sama stað og í nærliggjandi héruðum. Þessi ákvæða útiloka því, að hægt sé að samþykkja frv. í nokkuð líkri mynd og það er nú. Þetta vildi ég láta koma strax fram við 1. umr.

Auk þess er annað atriði, sem vert er að taka til athugunar. Mér skildist það vera byggt á því, að kaupgjaldi væri hagað eftir greiðslugetu hinna einstöku fyrirtækja, því að það er gert ráð fyrir, að jöfnunarsjóður fylgi hverju fyrirtæki fyrir sig. T.d., ef eitthvert fyrirtæki af sérstökum ástæðum stendur verr, skuldar máske meira en önnur sams konar fyrirtæki, er lakar stjórnað, eyðir meira í það, sem ekki er nauðsynlegt, eða býr á annan hátt við óhæga aðstöðu, þá á samkv. frv. að meta greiðslugetu þess, og l. eiga að miðast við það, sem þetta fyrirtæki getur borgað. Væri þessari reglu fylgt í heild í launamálum, sjá allir, hvert stefnir. Ef verkamenn ættu að hlíta því að færa kaup sitt til samræmis við hvert fyrirtæki, sem þeir vinna hjá, yrði kaupgjald eins mismunamli og fyrirtækin eru mörg. Með þessu væri verið að reyna að halda lífinu í fyrirtækjum, sem ekki eru lífvænleg. Að vísu er það rétt, að til langframa verður kaupgjald að miðast við greiðslugetu fyrirtækja. En það þýðir, að þau fyrirtæki, sem hafa að einhverju leyti verri aðstöðu eða er verr stjórnað en öðrum fyrirtækjum sömu tegundar, þau bara heltust úr lestinni, af því að þau eru ekki fær um að lifa. En þau fyrirtæki, sem eiga hægari aðstöðu eða er betur stjórnað, halda áfram að auka við sig. En að ætla að tryggja á þennan hátt starfsmöguleika fyrirtækja, sem ekki eiga skilið að lifa, er líka alveg rangt.

Ég held það séu ekki fleiri atriði, sem ástæða er til að benda á við 1. umr. Ég er ekki á móti því, að málið fari til n., en taldi rétt að gera grein fyrir minni afstöðu, því að þessi mál eru verð athugunar, t.d. það, að fyrirtæki greiði allt upp í 10% af vinnulaunum í slíkan sjóð. Hins vegar er nauðsynlegt að athuga, að settar yrðu skorður við, að þetta yrði notað illa. Hætt væri víð, að ýmis fyrirtæki mundu græða á því, ef þetta yrði að lögum.