22.03.1943
Efri deild: 78. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (2725)

118. mál, jöfnunarsjóður vinnulauna

Frsm. (Bjarni Benediktsson):

Ég skal ekki þræta við hv. þm. Barð. Það er eðlilegt, að honum sé sárt um sitt mál, þó að hann játi, að það hafi fengið heppilega afgreiðslu hjá n., en ég vil mótmæla þeim óréttmætu hnútum, sem hann fleygði til allshn. Ég vil benda á, að málinu er ekki vísað til n. fyrr en 22. jan., en þ. byrjaði snemma í nóv., svo að það er fjarri því, að n. hafi haft málið með höndum allan þingtímann. Þegar n. fekk málið, gerði hún það, sem rétt var, að leita álits hinna fróðustu aðila. Það er ekkert sérstakt, að n. hafði þessa aðferð um frv. Ég veit ekki betur en að hv. þm. Barð. hafi í öðru máli lagt til, að því yrði vísað frá með rökst. dagskrá, af því að það hafði ekki verið borið undir aðila utan þings, en hafði þó verið fyrir þrem þingum á undan þessu, sem sé frv. um jöfnunarsjóð aflahluta.

Ég veit, að hv. þm. skilur þetta, þegar hann athugar málið betur. En það er ekki hægt að una því, að ráðizt sé á allshn. með órökstuddum áskökunum.

Þá gaf hv. þm. í skyn, að vinnuveitendafélögin væru með frv., en Alþýðusambandið á móti því. Alþýðusambandið tilfærir tvær ástæður einungis og segir: „Þess vegna leggjum vér til, að frv. verði fellt.“ — Vinnuveitendafélagið kemur með langt álitsskjal, ásamt fylgiritum og segir síðan — „með tilvísun til framanritaðs leggjum vér á móti því, að frv. verði samþykkt“. Það getur verið, að sumir hafi verið með frv. og sumir á móti, bæði meðal vinnuveitenda og Alþýðusambandsmanna, en báðir aðilar leggja á móti því, að frv. sé samþykkt. En að segja, að n. hafi kastað höndum til málsins og komið með villandi álitsgerð, það hefur ekki við nein rök að styðjast. Það má ekki álykta, að n. hafi ekki athugað málið, hvort sem er þetta mál eða annað, ef hún fellst ekki á allt sem fyrir hana er lagt.

Ég vil beina því til tveggja hæstv. ráðh., sem hér eru viðstaddir, að n. leggur til, að málinu sé vísað til hæstv. ríkisstj. Ég vil þá skjóta því um leið til hæstv. ráðh., hvort ekki sé heppilegt, að málið sé falið til athugunar n. þeirri, sem fjallar um vinnuvernd og önnur verkalýðsmál, svo að frv. fái þar þann undirbúning, sem nauðsynlegur er, ef þ. á að geta tekið tillit til þess.