30.03.1943
Efri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (2740)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. 2. minni hl. (Eiríkur Einarsson):

Það er eins um þetta mál eins og fleiri, sem legið hefur fyrir hæstv. Alþ.,umr. verða svo úr hófi langdregnar, að manni dettur í hug, að það geti orðið til þess, að málið dagi uppi.

Það er í raun og veru ekki deilt um það hér, hvort þetta sé mikilsvert mál, sem er til umr. Sá mikli ágreiningur með ekki litlu kappi, sem fram hefur komið í sambandi við þetta mál, sýnir, að málið þykir miklu varða.

Ég vil strax taka fram, að sú aðferð að eiga einungis að velja á milli þess tvenns, annars vegar að fella þetta frv. og lýsa þannig nokkurs konar trausti á lagasetningu þessa frá 1941 og halda henni óbreyttri, eða þá hins vegar hitt að samþ. þetta frv., sem hér liggur fyrir og nema þannig úr l. þær hömlur, sem settar voru með l. frá 1941 um þetta efni, — það að eiga aðeins að velja um þetta tvennt, það er handahófsniðurstaða, hvor þessara leiða sem valin yrði. En mér virðist, að þess beri vel að gæta að afgreiða þetta mál ekki á annan veg en þann, sem sæmilegur má teljast, og að ekki sé stigið neitt víxlspor í þessu efni. Og þá er að athuga, hvort ekki er til þriðja leiðin, þ.e. hvorki að samþ. né fella þetta frv. Ég hef bent á þá leið, sem mér þykir líkleg til að leysa þetta mál á heppilegri veg, og hef sett fram till. um hana á þskj. 590, í mínu nál., þ.e. að afgreiða þetta mál með rökstuddri dagskrá. Þessa till. hef ég ekki gert vegna þess, að ég vilji af handahófi gerast þar miðlunarmaður eða koma fram með þá till., sem sé hvorki til of mikilla sárinda fyrir þá, sem standa til hægri eða vinstri handar mér um málið, heldur af hinu, að mér finnst, 'eftir þeim glöggu rökum, sem fyrir liggja, þá sé þessi dagskrármeðferð málsins sú eina rétta eins og ástæður liggja fyrir. Það er í raun og veru búið óbeinlínis að ákveða, að þetta frv. skuli sæta þessari meðferð hér á hæstv. Alþ. Ég á hér við það, að með þeirri þáltill., sem samþ. var í sameinuðu Alþ. nú fyrir nokkru, var ákveðið, að fram færi endurskoðun á lagasetningunni um höfundarétt og listvernd. Og það, sem hér ræðir sérstaklega um með þessu frv., sé ég ekki betur en að heyri undir þá ályktun Alþ. Mér þætti gaman að heyra því mótmælt með rökum, að svo væri. Og þá ætti, þegar þess er gætt, að vera hægt að þreyja þorrann og góuna, því að hæstv. ríkisstj., hverjir sem hana skipa, þegar á að taka þetta til meðferðar, þykist ég vita, að muni sinna þessari þál., svo sem henni ber skylda til, og hefjast handa um þessa endurskoðun. Og mér finnst, satt að segja, að þær umr., sem fram hafa farið hér í hv. d. um þetta mál, bendi til þess, að hv. þdm. gefist af þeim kostur til athugunar á þessu máli, þar sem ágreiningur um það er svo rammur. Það eru settar fram málsástæður frá báðum hliðum, sem hvorar um sig eiga máske við einhver rök að styðjast, en meira eru fluttar í líkingu við það, sem á sér stað í rétti af sóknar- og varnaraðilum mála, heldur en ætti að vera um mál í Alþ. á bókmenntavettvangi.

En um þetta mál þarf að leita ráðuneytis þeirra manna, sem — að öðrum mönnum ólöstuðum, sem hér hafa látið þetta mál til sín taka — ætla má, að hafi öðrum fremur hleypidómalausa þekkingu um það, hvað þetta snertir. Og þar sem maður á ekki í önnur hús að venda heldur en til þeirra norrænu-fræðimanna, sem beztir þykja og eru þá ekki of mikið bendlaðir við heitar deilur, sem hér koma til greina, þá var það líka, að þegar við, sem skipum menntmn. þessarar d., sáum fram á það, að við bárum ekki gæfu til að koma okkur saman um till. í þessu máli til úrslita, þá varð okkur það fyrir að kveðja slíka menn til ráðuneytis, eins og okkar mál. bera með sér. Það var ekki ágreiningur okkar á milli um þá aðferð, og þeir komu og þeir töluðu. Og það, sem þeir létu í ljós við okkur, staðfestu þeir sem álitsgerð, sem er birt sem fylgiskjal með nál. mínu. Af þessari álitsgerð háskólakennaranna þriggja, sem hér var um að ræða. Árna Pálssonar, Sigurðar Nordals og Björns Guðfinnssonar, getur maður byggt nokkrar ályktanir, eins og ég hef lauslega drepið á í nál. mínu. Það er að vísu svo, og er ekki því að leyna, að þessa hálærðu menn greinir á um sitt hvað, sem til greina getur komið, þegar um þetta ræðir. En hins vegar hafa þeir athugasemdalaust skrifað sameiginlega undir þetta bréf sitt, svo að af því getur maður dregið þá ályktun, að svo langt sem það nær, þá sé það sameiginleg skoðun þeirra, og er þar mikið á að byggja innan takmarka bréfsefnisins. Og þegar maður les bréf þeirra yfir, má draga af því þá ályktun, að hvoru tveggja sé ábótavant, lagasetningunni frá 1941, sem í þessu frv. er farið fram á að afnema, eins og þeir ræða um hana hér í bréfinu, þó að þeir segi það ekki berum orðum, þá verður ekki ályktað öðruvísi en að þeir haldi því fram, að hún þurfi breyt. við, en sé ekki hentug eða réttlætanleg eins og hún er, og eins ræða þeir, með jafn tvíræðum eða ótvíræðum orðum, um ónothæfar útgáfur af fornritunum, að þær sæmi ekki þeim bókmenntum. Þeir eru nokkuð þungorðir um það líka. Í þessu felst játning, úr því að þessir lærðu menn segja, að þær útgáfur geti átt sér stað, sem séu ekki frambærilegar, og hins vegar, að gæta verði þess frjálsræðis, að þessi réttur allur sé ekki skorðaður um of einstrengingslega — í þessu felst játning um það, hvað er þá það eðlilega, þegar málið er komið fram eins og nú er. Það er það, að öll þessi rök verði hvert um sig og öll sameiginlega tekin til athugunar og hv. Alþ.- og ríkisstj. getist kostur á að lesa það niður í kjölinn, sem fram hefur komið um málið í þessum álitsgerðum og síðan verið samið frv. til lagasetningar um þetta, eins og ætla má, að geti staðið til frambúðar.

Það er nú svo um l. um þetta frá 1941, að mér finnst þau vera of einskorðuð og þröngskorðuð, alveg á sama hátt sem mér finnst, að ræktarsemi okkar við fornbókmenntir okkar, sem hafa svalað á svo góðan hátt menningarþorsta Íslendinga í margar aldir, eigi að vera svo mikil, að við viljum eftir veikri getu halda vörð um fornritin, svo að ekkert keyri úr hófi í meðferð okkar á þeim. Og þetta hefur nú beðið lengur en svo, að þó að nú líði hálft eða heilt ár meðan setið væri á sökstólum til að athugðu heilsteypta lagasetningu um þetta allt, þá álít ég, að ekki sé neitt um það að segja.

Út af því, sem tekið hefur verið hér fram, að dómur hafi gengið út af máli eftir þessum l., þá vil ég taka fram, að ég, geri út af fyrir sig ekkert úr því, vegna þess að dómstólarnir hafa ekkert haft eftir öðru að fara heldur en lagabókstafnum og hafa dæmt. eftir því, sem þeir hafa álitið réttast honum samkvæmt. En það er alls ekki víst, að það sé í samræmi við skoðanir og smekkvísi Íslendinga yfirleitt um það, hvernig eigi að gæta og geyma fornbókmenntirnar, Það þarf ekki endilega að fara saman.

Ég vil því segja þetta: Við skulum bíða og sjá hvað setur, og taka þessa endurskoðun l. alvarlega og reka eftir því, að hún verði framkvæmd að beztu manna yfirsjá.

Ég vil að síðustu mælast eindregið til þess, að hv. þd. sjái sér fært að samþ. þá rökst. dagskrá, sem ég hef nú borið fram, ekki af því, að hún sé miðlunarleið milli þeirra tveggja stefna, sem annars er um að ræða, heldur af hinu, að það er réttasta meðferðin, sem horfir til úrlausnar á málinu.