01.04.1943
Efri deild: 86. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (2747)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Hann hefur um nokkurt skeið verið uppgenginn hérna fyrir Trítilinn, og óveðrið skall yfir mig í gær, þegar hv. 1. landsk. þm. stóð upp og með titrandi höndum og tannagnístran sendi mér tóninn um það, að ég hefði illt unnið með því að andæfa því, að fleiri Íslendingasögur yrðu gefnar út eins og Laxdæla og Hrafnkatla, sem þegar hafa verið gefnar út á þann hátt sem nú hefur verið frá skýrt. Ég andæfi því, að Íslendingasögurnar verði gefnar þannig út, eins og valdir menn og vitrir, er hafa þekkingu á, hafa lýst Laxnessútgáfunum, að þær séu mjög brenglaðar að málsmeðferð og skrumskældar að efni til. Út af þessu voru bornar á mig ýmsar sakir.

Fyrsta sökin og stærsta, sem þessi hv. þm. bar á mig, var, að ég fylgdi hv. þm. S.-Þ. í skoðunum og atkvgr. hér í hv. þd. Því er nú þar til að svara, að hv. þm. S.-Þ. hefur í fjölda mála hér í hv. d. verið á öndverðum meið við Sósíalistafl. Og þó að hv. þm. S.-Þ. hafi ekki alltaf verið borið það á brýn, að hann veldi beztu málin til málfærslu, þá hefur það jafnan verið þannig í þessum viðskiptum, að hann hefur valið sér skárri málstaðinn. Og auðvitað fylgir maður því jafnan, sem betra er, og verður ekki komizt hjá því, þó að hv. 7. landsk. þm. sárni þetta.

Önnur höfuðsökin, sem hv. 7. landsk. þm. bar á mig, var, að ég hefði svikið félagsskap, sem ég væri í og hefði verið í samningagerðum fyrir. Skildist mér það vera Fornritafélagið, sem ég hefði átt að eyðileggja og koma fyrir kattarnef með einhverjum samningum um bókaútgáfu. Ég verð að segja hv. 7. landsk. þm. það, að ég er alls ekki í stjórn þess félags og hef ekki gert neina samninga fyrir þess hönd um neina bókaútgáfu. En ég er á þeirri skoðun, að sjálfsagt sé að styrkja það sem mest má vera til þess að gefa út fornritin, til þess að óafbakaðar útgáfur af fornritum vorum komist inn á sem allra flest heimili hér á landi, og þannig, að ekki sé hnekkt félagsskap, sem fornritafélagið stendur saman af. Bæði væri þetta gagnlegt fyrir þá, sem lesa fornsögurnar, og svo væri þetta vörn fyrir heimilin, eins og nokkurs konar vörn gegn þeim Svartagaldri, — sem nú hefur verið að teygja sig út og hv. 7. landsk. þm. ver af kappi, — svo að hann fái ekki aðgang að heimilunum. Því að ef prýðilegar útgáfur, óafbakaðar, af Íslendingasögunum koma, þá fá þessar skrumskældu sögur Kiljans og félaga hans ekki að komast að.

Þá bar hv. 7. landsk. þm. á mig það í þriðja lagi, að ég væri fávís í bókmenntum. Um það skal ég ekki þrátta við hann. Og enn hélt hann því fram, að ég væri í þeim málum fjandsamlegur, þannig að ég yfirbyði þar meistara, sem hann minntist á í ræðu sinni. Ég ætla ekki heldur að bera af mér sakir í því. Hver verður að dæma um það eins og honum sýnist réttast, hversu fjandsamlegur ég er þjóðlegum fræðum vorum.

há vil ég minnast ofurlítið á hina pólitísku bókmenntastarfsemi hv. 7. landsk. þm. Mér virðist hún tvíþætt. Þegar eftir próf var starfað að honum hálfvolgum og hann sendur áleiðis til höfuðs hv. þm. S.-Þ., og hann verður honum mjög fylgisamur þar nyrðra, eins og ættarvofa eða nokkurs konar Húsavíkur-Lalli (JJ: Ég þakka fyrir orðið.), veldur honum óværðum miklum með sífelldu þrefi og þrugli, svo að ég býst ekki við því, að hann, líti glaður fram á lífsbrautina, ef því á svo að halda áfram og hann getur ekki rekið þennan „fjanda“ af höndum sér.

En hinn þátturinn er það, að einhvern veginn að ófyrirsynju hefur hann komizt að því að verða ritstjóranefna að tímaritskorni, sem er kunnugt að þeim endemum, að það hefur birt árásargreinar og níðgreinar um fjölmennustu og bezt mönnuðu stétt alþýðumanna á voru landi, bændastéttina. Og einhvern veginn hefur það orðið þannig, að hann hefur fengið mann, sem hefur öðlazt þá ónáttúru að skrifa níð um þessa stétt, til að skrifa í þetta tímarit, jafnvel þó að þeim manni hafi verið klakið út af bændastéttinni, komið upp og hann kostaður til mennta af fé bænda, fé foreldra hans, sem höfðu sparað sér saman fé með iðjusemi við þau störf.

En ég vil ekki láta það liggja í láginni, sem ég tel þessum hv. þm. til kosta í bókmenntastarfsemi. Mér virðist, að hann sé mjög sæmilegur prófarkalesari, og mér virðist hann vera smekkvís í að velja pappír í bækur handa Máli og menningu. Það getur verið, að ég gleymi einhverju í þessu tilliti, en það má þá bæta því við seinna. (JJ: Málið á bókum hans er afleitt). Það var ég ekki að tala um.

Ég hef hér sent frá mér ásamt hv. 1. þm. N.-M. brtt. við dagskrártill. þá, sem fyrir liggur um þetta mál. Mér fannst satt að segja nauðsynlegt að stemma stigu fyrir þeim ófagnaði, sem er á leiðinni frá Víkingsprentsmiðju, því að þaðan koma þessar bækur og undan verndarhendi hv. 7. landsk. þm. Ég hef áður drepið á þessar bækur, hvernig meðferðin er á þeim í útgáfunni að málfæri og efni til. En þar að auki er í þessari útgáfu Laxdælu alls ekki getið um við titil bókarinnar, að úr henni sé sleppt eða henni breytt, og eru slíkt blekkingar og ósvífni. Formálinn fyrir Hrafnkötlu er aðeins svívirðing á einn þm. og skætingur til Alþ. í heild, og þetta er leiðsögnin fyrir lesendurna. Og þeir, sem lesa Laxness útgáfu af t.d. Laxdælu og halda, að þetta sé Laxdæla með öllu óbreytt, rekast þá kannske í samtali við aðra sína meðbræður á það, að þessir kunnu kaflar úr Laxdælu, sem þeir hafa aldrei þar séð og vita ekki um, því að þeir eru ekki í þessari skrumskældu útgáfu af henni, og þeir hinir sömu, sem þá bjöguðu útgáfu hafa lesið og verða þessa varir, sem aðrir halda fram, að í Laxdælu séu fleiri kaflar en þar eru í útgáfu Laxness, verða þess vegna að hálfgerðum bjánum fyrir það að hafa flekazt út í að taka hina villandi útgáfu sem góða og gilda.

Þetta efni er svo þaulrætt, að ég þarf ekki að fara frekar út í það að sinni. En ég tel sjálfsagt, að brtt. sú, sem við flytjum við dagskrána, verði samþ.