02.04.1943
Efri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2750)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég tók fram við 1. umr., að ég teldi heppilegra að breyta ákvæðum l. en að fella þau með öllu úr gildi.

Þegar þau l., sem hér um ræðir, voru samþ., var ég því andvígur, að þar væru sett þau ákvæði um stafsetningarskipun, sem í l. eru, og er ég sömu skoðunar enn. Hins vegar taldi ég fulla ástæðu til, að þess verði gætt, að fornritin verði ekki afbökuð, sem alltaf væri hætt við, ef hver og einn, sem það vill og hefur fjárráð til, gæti gefið þau út meira og minna breytt, eftir því sem honum sýndist. Ég taldi rétt að veita ríkinu einkarétt á að gefa þessi rit út, þar sem eigandi þeirra er auðvitað ekki til, þó að því tilskildu, að Fornritafélagið hefði leyfi til að halda sinni útgáfu áfram. Gerði ég þá auðvitað ráð fyrir, að stj. veitti ekki öðrum leyfi til að gefa þessi rit út en þeim, sem trúandi væri til að gera það með þeirri vandvirkni, sem þessum ritum er samboðin. Ég er sömu skoðunar enn, og ég tel, að það, sem gert hefur verið að þessari útgáfu upp á síðkastið, hafi sýnt, að full þörf sé á, að slík ákvæði séu sett í l., eða önnur hliðstæð. Nægir þar að benda á þá álitsgerð frá mætum og fróðum mönnum um þetta efni, sem fyrir liggur á þskj. 590 með nál. frá 2. minni hl. menntmn., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„A. Meðferð máls. Við samanburð á þessari útgáfu og útgáfu þeirri, er hún byggist á, kemur í ljós, að fjölmörgu því í máli, sem á engan hátt verður talið til stafsetningar, er breytt: a. Ýmiss konar breytingar eru gerðar á orðmyndum. b. Orðum er sleppt. c. Orðum er bætt inn. d. Skipt er um orð. e. Orðaröð er breytt. f. Bætt er inn heilum setningum eftir útgefandann.

Á fundi menntmn. hinn 22. þ. m. voru færð mörg dæmi þessu til sönnunar, og teljum við þarflaust að endurtaka þau hér, enda auðvelt hverjum þeim, er nennir, að ganga úr skugga um þau. Hins vegar viljum við taka fram, að við teljum allar þessar breytingar til skemmda á máli og stíl sögunnar.

B. Meðferð efnis. Meðferð sögunnar er á þá leið, að stórfelldar efnisbreytingar hafa verið gerðar á henni: a. Einstökum setningum er sleppt. b. Heilum köflum er sleppt, t.d. á einum stað 5 kapítulum. c. Einstakar setningar eru færðar til. d. Kaflar eru færðir til. e. Samdar eru setningar inn í textann, þar sem útgefanda hefur þótt nauðsyn til bera.

Allar þessar breytingar rýra stórlega efni sögunnar og breyta svip hennar, svo sem gerð var grein fyrir á fyrrnefndum fundi.“

Hins vegar hafa þessir ágætu menn, Árni Pálsson, Sigurður Nordal og Björn Guðfinnsson, ýmislegt við l. sjálf að athuga.

Nú hef ég heyrt haldið fram, að það mundi brjóta í bág við stjskr. að banna einstökum mönnum útgáfu slíkra rita. Ég skal ekkert fullyrða um slíkt, það tilheyrir dómstólunum og kemur sennilega fyrir hæstarétt, og tel ég rétt að bíða með að bera fram frv. um að fella l. úr gildi, meðan það er eigi útkljáð. Auk þess er, eins og fram er tekið í nál. 2. minni hl., ákveðið að láta fram fara undirbúning nýrrar löggjafar um rithöfundarétt og listvernd. Mér þykir sjálfsagt, að um leið og þau l. eru sett, verði tekin upp í þá löggjöf ákvæði, sem lúta að vernd fornrita og rétti manna til að gefa þau út og tryggja það, sem allir eru sammála um, að tryggja beri, að menn geti ekki eftir vilja og geðþótta afbakað þessi rit.