02.04.1943
Efri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 199 í C-deild Alþingistíðinda. (2752)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. 2. minni hl. (Eiríkur Einarsson):

Þetta frv. var til umr. á þingfundi í gær, en ég fatlaðist frá og veit því ekki, hvernig þær umr. féllu. Það gerir kannske ekki mikið til, því að ef þær hafa verið í sömu tóntegund og fyrr, þá getur maður getið þar í eyðurnar.

Þegar ég var hér síðast við umr., þá var hér í undirbúningi brtt. við hina rökst. dagskrá, sem ég hef lagt -til í nál. mínu, að réði hér niðurstöðu. Sem sagt, brtt. á þskj. 639 við þá rökst. dagskrá mína gefur bendingu í ákveðna átt, þ.e.a.s., að við endurskoðun skuli þess sérstaklega vera gætt, að komið verði í veg fyrir afbakaðar útgáfur af fornritunum. Þetta tóku þeir tveir hv. þm., sem fluttu þessa brtt., á sérstakan hátt fram, að þeir vildu, að stæði í dagskránni til sérstakrar hliðsjónar og ábendingar. Ég verð nú að segja, að svo langt sem þetta nær, þá get ég fyllilega verið því samþykkur, því að eitt af því, sem þörf er á í þessari endurskoðun, sem verður að fara fram með alvöru, til þess að öruggt verði, er þetta málsatriði, að ekki hvað sízt þar sé vel og fast; en hófsamlega þó að öllu farið hvað snertir útgáfu fornritanna, og sumir mundu vilja, og ekki svo fáir, segja að gefnu tilefni. En þegar maður lítur til þessa bréfs, sem menntmn. þessarar d. hefur borizt frá norrænufræðingum háskólans og prentað er hér á þskj. 59, þá þarf ekki meira en að lesa það álit þeirra lærðu manna lauslega yfir til þess að komast að niðurstöðu um það, að þeir telja, að hér sé ýmsum blöðum að fletta og það sé sem sé margs að gæta. Þar fara þeir orðum um báðar hliðar málsins, það, sem hefur þá reynslu, sem komin er á um lausbeizlaðar útgáfur fornritanna annars vegar og um lagasetningu þessu til hindrunar hins vegar, l. frá árinu 1941. Þeir líta á þetta hvort tveggja og segja, óbeinum orðum að vísu, en mér virðist þó, að þau verði ekki misskilin, að hvort tveggja þessi málsatriði þurfi gaumgæfilegrar endurskoðunar við. Frá þessu sjónarmiði og til þess að þurfa ekki að vitna til staða í bréfi háskólakennaranna, heldur treysta athugun þeirra og telja, að hún sé rétt, þá orð aði ég dagskrá mína vísvitandi eins og ég gerði, og annars vegar lét ég prenta í heild bréf háskólakennaranna, til þess að Alþ. gæti séð það og það væri á ótvíræðan hátt dokumenterað nú og til frambúðar og til nauðsynlegrar upplýsingar um, hvað þeim sýndist, enn fremur og ekki hvað sízt til þess, að þessi skráning á bréfi þeirra væri hæfilegur hemill, hæfileg binding gagnvart þeim lærðu mönnum sjálfum umframbúðaríhlutun þeirra um þetta mál, ef þeir yrðu til kvaddir. Mér þótti það rétt og hentugt, hæfilegt og maklegt.

Ég sagði í upphafi máls míns nú um brtt. þeirra hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. N.-M., að mér þætti ekki nema réttlátt í alla staði, að eitt af þeim niðurstöðuatriðum, sem þar kæmu til greina með fullkominni gaumgæfni, væri einmitt það atriði, sem þeir á sérstakan hátt taka fram. Að því leyti hef ég sízt nokkurn skapaðan hlut við þá brtt. að athuga út af fyrir sig. En ég álít hins vegar vafasamt, hvort hún sé nauðsynleg eða verulega heppileg.

Setjum svo, að ríkisstj. fari eftir því, sem ætlazt er til af henni með þessari rökst. dagskrá, ef hún verður samþ. hér, þá tel ég nú, þegar maður lítur á bréf háskólakennaranna, að þar liggi alveg ákveðin bending fyrir um, hvað helzt þurfi að gera og framkvæma í þessari endurskoðun, þó að ekkert sérstakt misfelluatriði sé tekið út úr. Ég ætlast til þess, að þegar til þessarar endurskoðunar kemur, þá hljóti svo að fara, að ríkisstj. hver sem þar á hlut að máli sem ráðh., kveðji til þess hina allra fróðustu menn í norrænu, og þá verða fyrir okkur einmitt þau sömu nöfn og standa undir þessu margáminnzta og að ýmsu leyti merkilega bréfi, nöfn þessara háskólakennara í norrænum fræðum. Þeir eru búnir að segja skoðun sína, sem að ýmsu leyti er ótvíræð, og ég hef minnzt á, að eigi ekki að misþyrma fornritunum með handahófsútgáfum. Það verður ekki véfengt, að það er látið í ljós hér með þeim dæmum, sem þeir taka, að þeir telja, að lagasetningunni frá 1941 sé að ýmsu leyti ábótavant, og ég vil segja, að á þessu stigi málsins, áður en til þessa undirbúnings kemur, þurfi ekki framar vitnanna við. Ég verð því að segja það, að mér finnst, að málið sé á óbundnari og hentugri hátt afhent í hendur stj. með því að gefa engar sérbendingar aðrar en þessa rökst. dagskrá, en ef nokkuð væri, þá væri nokkru frekar en gert er í dagskrártill. minni bent í þá átt, að stj. tæki sér til ráðuneytis í þessum málum öllum hina fróðustu menn í þessum greinum. Ef hún ber nokkurt traust til þess, að þeir séu bæði lærðir, smekkvísir, hafi þekkingu á, hvað gera skuli í þessum efnum, varkárir og hafi ekki bundið sig á mjög hlutdrægan hátt, til þess að tilfinningarnar hlaupi þar ekki fram fyrir lærdóm og hyggjuvit, þá álít ég, að málið sé hvergi betur komið. Og með sérstakri hliðsjón til þess, sem einnig öllum er kunnugt, að þetta er talsvert hitamál og kappsmál í d., þar sem öndverð öfl eru að verki, hvorir með sinn málstað og sína þekkingu, en hér er hins vegar um að ræða bót til öryggis og velfarnaðar fyrir fornritaútgáfur okkar af hálfu þ. eftir þennan undirbúning, og þá álít ég, að sá undirbúningur allur nyti sín bezt með því, að málið væri lagt í hendur ríkisstj og fræðimannanna alveg hlutlaust og litlaust, en með þeim bendingum, sem reynslan er þegar búin að leggja á það, reynslan á útgáfu, sem hefur verið margumrædd, og þær ábendingar, sem eru gerðar hér af hendi háskólakennaranna.

Þegar ég las þessa nýju brtt., sem ég þarf ekki að endurtaka oftar, að ég tel hafa fullan rétt á sér, svo langt sem hún nær, en tekur aðeins eitt atriði út úr, þá hefði mér verið næst skapi, ef hefði átt að breyta dagskrártill. á annað borð, að það hefði verið gert á þann hátt, sem ég vil leyfa mér, með samþykki hæstv. forseta, að skýra hér. Breyt. yrði þá á þá leið, að á eftir orðunum „frá 9. des. 1941“ í dagskrártill. minni komi inn í till. orðin: „þar sem kennarar við Háskóla Íslands í norrænum fræðum séu kvaddir til ráðuneytis“. Þetta er í samræmi við það, sem hefur verið talað um, að ef þessi dagskrá yrði samþ., þá skuli stj. við undirbúning þessara mála hafa kennarana við háskólann í norrænum fræðum sér til ráðuneytis. Með þessu tel ég, að því atriði, sem fram kemur í brtt. þeirra tveggja hv. þm. á þskj. 639, sé fullnægt, því að eins og kennaralið er nú við háskólann í norrænum fræðum, þá er þegar upplýst og skjalfest, að þessir kennarar telji nauðsynlegt að stemma stigu fyrir handahófsútgáfum af fornritunum, því að þeir hafa látið það ótvírætt í ljós í bréfi því, sem prentað er með nál. mínu á þskj. 590. Sem sagt, norrænuháskólakennarar eru búnir að gera grein fyrir því af ráðnum hug, að þessa þurfi að gæta með varúð og einnig annarra atriða. Ég vil, að þeir séu teknir á orðinu um þetta atriði og önnur, sem nefnd eru í bréfinu, og efast ég ekki um, að þeir, svo lærðir borgarar, muni þar kannast við sína handskrift og gerðir.

Ég þarf svo ekki að fara lengra út í þetta Ég tel, að d. sé hentugt að afgr. málið á þennan hátt, að hún gefi fulla bendingu um í krafti bréfs háskólakennaranna, hvers hún telji þörf, en segi það að öðru leyti hlutlaust, heimti niðurstöðu, en segi um leið, að ekki þurfi langt að leita eftir fræðimönnum, þeir séu þarna, og þar liggi ljóst fyrir, í hverju vilji þeirra sé fólginn.

Með þessum formála leyfi ég mér þá að leggja fram þessa brtt. við mína eigin dagskrá, sem eðlilega áréttingu um að herða nokkru betur á og búa betur um hnútana, bæði um það atriði, sem minnzt er á í sambandi við till. þeirra tveggja hv. þm., sem ég hef minnzt á, og einnig aðrar misfellur viðvíkjandi málefninu alhliða í samráði við háskólakennarana í íslenzkum fræðum og í samræmi við hið margumtalaða bréf þeirra.