02.04.1943
Efri deild: 87. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (2759)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. 3. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég held mér hafi dottið í hug oftar en einu sinni áðan mynd af einum dýrlingi heilagrar kirkju, sankti Sebastian, þá er hann lét líf sitt gegnstunginn ótal örvum, sem hittu hann kviknakinn. Ég mæltist til þess við hv. 1. þm. Reykv. (MJ), sem er kunnur píslarvottafræðum og málari allgóður, að hann gerði mynd af þessum píslarvotti deildarinnar, 7. landsk., eins og hann leit út, er spjótin stóðu þannig hvaðanæva á honum og örvarnar. Í ræðu hv. þm. Dal. (ÞÞ) kom annars fram sú samlíking um þennan fylgihnött minn, sem er að vísu ekki kominn á þ. á atkv. úr Þingeyjarsýslu og hefur þar helzt fáein atkv. á Húsavík, að hann væri eins konar Húsavíkurlalli, og gefur það ekki ranga hugmynd um þessa persónu.

Hv. 1. þm. Reykv. kvaðst ekki hafa á móti, að gefnar væru út sem sóðalegastar útgáfur af sögunum, svo að almenningi blöskraði og fengi maklega óbeit á slíkri útgáfustarfsemi. Þetta byggist á misskilningi, sem mig furðar á hjá manni, sem að uppeldi menntamanna hefur starfað. Það sagði mér maður, sem kenndi íslenzku á Akureyri, að í auglýsingu, sem nemendur hans gengu daglega hjá, var villa, og eftir nokkurn tíma fóru sumir þeirra að stafa þetta orð rangt. Við að horfa á það gleymdu þeir, hvernig orðið átti að vera. Kennarinn fór þess á leit við þann, sem verzluninni réð, að hann stafsetti orðið rétt, því að það væri farið að sýkja nemendur. Allir, sem fást við uppeldi, vita, hve skakka myndin getur setzt föst í unglingunum.

Ég ætla að minna 7. landsk. á, að hann mun nýlega hafa fengið í flokk sinn nokkuð nafnkunnan mann, sem heitir Arthúr Alexander. Hann hefur haft það starf fyrir ríkið að líta eftir, að smjörlíki hér í bænum væri ósvikið. Hann hefur farið með sýnishorn af því suður í rannsóknarstofu háskólans og fengið um þau sínar niðurstöður. (KA: Er komið nýtt mál á dagskrá, herra forseti?). Ef þörf er að líta eftir, að smjörlíki, sem Ragnar í Smára framleiðir, sé ætt, er full þörf að líta eftir, að bækur, sem hann gefur út, séu ekki tiltölulega skaðlegri andleg fæða. Hvert blað, sem út kemur, á að hafa legið á borði lögreglustjóra, svo að hann aðgæti, hvort það sé holl fæða handa almenningi, og geti bannað það, áður en það er borið út meðal kaupenda. Þó að vanrækt sé að framfylgja lögum, í þessum efnum, eru þetta lög og þau nauðsynleg.

Það er meira en ég verðskulda, þegar 7. landsk. heldur, að ég sé frumkvöðull að verndarlöggjöf fornritanna. Það mun hafa verið Árni Jónsson frá Múla, sem fyrstur vaknaði til viðnáms með grein í Vísi, en ég varð þar lærisveinn Árna. Mér virðist raunar hvorki einn né annar hafa skapað þá sannfæring, sem kom fram almennt með þm., þegar þeir samþ. þessa löggjöf, og mun nú koma fram við samþykkt dagskrár, sem heimtar, að á henni sé hert, ef með þarf.

Fyrir rúmum tveim tugum ára var uppi mikil viðleitni að breyta nöfnum manna, taka upp ættarnöfn. Bjarni frá Vogi og nokkrir menn aðrir risu þá gegn straumnum og komu á verndarlögum, sem bönnuðu að taka upp ný ættarnöfn, og þau verndarlög hafa haldið. Þorgerður Egilsdóttir fengi ekki að heita fröken Borg, ef hún væri til okkar komin, heldur yrði að kenna sig við föður sinn. Þetta var sama undanhaldið og nú frá þjóðlegri stefnu, og tókst að stöðva það. Nú veit ég, að tekst að stöðva einnig þetta undanhald í meðferð fornsagnanna. Það fæst ekki framar að gefa þær út afbakaðar.

Það hefur vakið eftirtekt, að prófessor sá, sem stendur að Arfi Íslendinga, skyldi ekki gefa bók sína út t.d. á vegum háskólans, ef hún mætti verða þar til sóma, líkt og aðrir prófessorar hafa gert, heldur lætur hann þetta verða fylgirit með nærri því ómerkilegasta tímariti, sem til er í landinu. Það þykir óviðkunnanlegt, að prófessor, sem er nokkurn veginn hlutlaus maður, skuli hafa gert aðalbók ævi sinnar að útbreiðsluriti fyrir tímarit, sem er níðrit um bændur og allan landbúnað og hefur hlotið fyrir það almennt hatur og fyrirlitningu. Það kemur að vísu Sigurði Nordal einum við, hvað hann verðsetur sig hátt. En það hefur vakið undrun, að hann skuli leggja lag sitt við annan eins lýð og H. K. L. og hans sálufélagar eru, en greinar þess skálds eru hreinasta náma fyrir alla þá, sem vilja svívirða kommúnista með því að bregða upp fyrir almenningi sýnishornum þeirra, - svo saurugt og andstyggilegt er t.d. það, sem hann ritar um landbúnaðinn. 7. landsk. hefur gert meistara sínum, Sigurði Nordal, lítinn greiða með því að ljósta því upp, að hann hafi sagt, að það væri sama og að drepa Fornritaútgáfuna, ef það skipulag á dreifingu ritanna kemst á, sem Jón Ásbjörnsson, forseti Fornritafél., hefur sagt, að verða mundi hið þjóðnýtasta og gagnlegasta. Fornritaútgáfunni hefur ekki tekizt að koma sinni útgáfu inn á heimilin til muna utan Reykjavíkur, í mörgum héruðum er nær ekkert til af henni, hún hefur þess vegna ekki haft æskilega þýðingu fyrir þróun menntalífs í landinu. Boð Menningarsjóðs að borga helming hinnar andlegu vinnu við útgáfuna og sjá svo um dreifingu var að dómi Jóns Ásbjörnssonar gott boð og skipulagið heilbrigt, og ekki er hægt að sjá, hverju það spillti, þótt t.d. Egla, sem gefin var út fyrir 10 árum og er uppseld, væri send í endurnýjaðri útgáfu á heimilin, sem hafa hana ekki. Það nær engri átt að hindra, að góðar útgáfur komist inn á heimilín. Eftir því, sem H. K. L. segir, hefur Sigurður Nordal verið hlynntur Laxdæluútgáfu hans og ætti að hafa óskað, að sú útgáfa kæmist inn á heimilin. Hér er það hróplega ósamræmi á milli, að ég, sem hef þekkt Sigurð Nordal, hygg, að 7. landsk. segi ósatt frá ummælum hans. En komi það í ljós, að hann hermi þau rétt og þar sé afstaða Fornritafélagsins, erum við lausir allra mála við félagið. Samtímis því sem flokkur kommúnista virðist leggja á það mikið kapp að koma sögunum inn á heimilin í spilltum útgáfum, verða þá sett mikil öfl í hreyfingu til að veita alþjóð sögurnar í sambærilegum búningi við hina vinsælu Heimskringluútgáfu Norðmanna. Sigurður Nordal getur setið á sínum stað við að skrifa Arf Íslendinga, og getuleysi Fornritafélagsins við að koma útgáfunni á heimilin er þá hreinn ósigur, eins og þegar menn tapa leik.

Eins og ég hef þegar tekið fram, má eitt af þessum umr. læra, og það hefur bezt kennt okkur hv. 7. landsk. með sínu dæmalausa tali, og það er að búa enn tryggilegar að þessu máli en verið hefur, svo að ekki þurfi að endurtaka sig önnur eins smán og átt hefur sér stað með þessari seinustu útgáfu á Laxdælasögu og Hrafnkelssögu, þar sem um afbökun þessara gullbókmennta vorra er að ræða.