05.04.1943
Efri deild: 88. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (2763)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki vera að lengja þessar umr. mikið. Mér finnst satt að segja þ. vera búið að gera sér nógan sóma með þessu máli. Það er einkennilegt, sem kemur fram hjá þeim, sem ég hef heyrt tala um það, að hér sé um að ræða, hvort afbaka megi Íslendingasögur eða ekki. Hv. þm. S.-Þ. kom með það, ef ég væri á móti l. um þetta, þá væri ég með afbökunum sagnanna. Ég er honum alveg sammála um það, að það á að koma í veg fyrir óvirðulega meðferð Íslendingasagna eða þannig meðferð, að til skemmda horfi. En ég tel óþarfa að ætla að gera það með löggjöf. Eins og menn hneyksluðust á því, þegar þeir héldu, að það ætti að fara að skemma Laxdælu, eins veit ég, að almenningur mundi rísa upp í hvert skipti, sem farið væri illa með Íslendingasögurnar. Ég er sannfærður um það, að bezta verndin er almenningsálitið.

Það var athyglisvert hjá hv. þm. S.-Þ., að hann var að tala um grein, sem Árni frá Múla hefði skrifað, þegar hann frétti, að ætti að þýða Íslendingasögurnar á nútímamál. Hann vildi álíta, að þeir Árni væru samherjar. Það er það, sem okkur skilur á um. Ég vil hafa aðferð Árna, en ekki aðferð hv. þm. S.-Þ. Árni skrifaði á móti útgáfunni. Þetta er rétt. Það á að skrifa um svona hluti og kveða þá niður, en ekki rjúka strax í Alþ. og fá það bannað með l. Þeir eru einmitt sinn úr hvorum flokki, Árni frá Múla og Jónas Jónsson, í þessu máli.

Ég veit ekki, hvað hv. þm. S.-Þ. átti við, er hann talaði um heilagan Sebastian. Ég veit ekki, hvað hann er kunnugur sögunni um þann heilaga mann og hvort honum er það ljóst, að það voru óþokkar og illmenni, sem réðust á hann, og hvort hann er að líkja sér og öðrum við þá, sem réðust á Sebastian. Ef hv. 7. landsk. er eins og heilagur Sebastian, þá hljóta þeir, sem á hann ráðast, að vera líkir hinum. Ég veit ekki, hvort hann hefur átt við þetta. (JJ: Það stóðu á honum allra örvar). Já, en heilagur Sebastian dó ekki af þessum örvum. Hann fékk ráðningu að vísu, en hann lifði og hefur lifað síðan á því. Hann hefur verið málaður oftar og meistaralegar en nokkur annar dýrlingur. Og ég gæti trúað, að þrátt fyrir allar þessar örvar, sem hér hefur verið skotið, þá yrði það málstaður þessa nýja heilaga Sebastians, sem lifði.

Mér fyndist hv. þm. S.-.Þ. ætti að beina skeytum sínum í aðra átt en hann gerir, því að ýmsar meiri hættur eru fyrir íslenzkt mál en þær útgáfur Íslendingasagna, er gefnar hafa verið út. Ég þekkti mann hér í bænum, sem var svo mikið á móti gamaldagsguðfræði, að hann þorði ekki að láta börn sín ganga til spurninga hjá séra Jóhanni. Ég spurði þennan mann, hvort hann teldi ekki ýmsar meiri hættur geta orðið á vegi barnanna á götum bæjarins heldur en þótt þau hlustuðu á séra Jóhann.

Enda þótt felldir séu úr Íslendingasögunum einstaka kaflar og breytt um orðalag, þá er það lítil hætta fyrir íslenzka tungu á móts við margt annað. Hitt er annað mál, að þjóðin verður að standa vörð um, að sómasamlega sé frá útgáfum Íslendingasagna gengið.

Mér fannst einkennileg samlíking hjá hv. þm. S.-Þ., er hann sagði, að menn yrðu að vera á varðbergi með fornbókmenntirnar eins og gegn fölsuðu smjörlíki. Að vísu er þörf að setja l. gegn fölsuðum vörum, en ég sé ekki líkingu milli fornbókmennta okkar Íslendinga og smjörlíkis, líklega vegna þess, að mér dettur aldrei í hug smjörlíki í sambandi við Íslendingasögur. Sennilega orsakast þetta hugsanasamband hv. þm. S.-Þ. af því, að Ragnar í Smára er smjörlíkisframleiðandi, og hann gaf einnig út Laxdælu og Hrafnkötlu. Ég held, að líkt sé með þessa löggjöf og mannanafnalöggjöfina, sem sett var af Alþ. fyrir allmörgum árum. Börn foreldra, sem höfðu ættarnöfn, máttu halda ættarnöfnunum fram að tíma þessara l., en eftir það urðu þau að hætta því. En ég álít, að lítið hafi verið eftir þessum lögum farið. Það voru ágætir menn, sem stóðu að íslenzku ættarnöfnunum, frábærir íslenzkumenn, eins og t.d. Guðmundur Finnbogason og Einar Kvaran. Tilgangur þeirra var, að Íslendingar tækju upp falleg ættarnöfn, sem væru rétt mynduð, en þeir vildu ekki, að allt yrði yfirfullt af Jónssonum og Björnssonum.

Ekki held ég, að þjóðin hafi haft tjón af þessum ættarnöfnum, — og var ekki alveg sama, hvort Einar Hjörleifsson hét bara Hjörleifsson eða Kvaran?

Þessi ættarnafnavitleysa gekk svo langt, að fjvn. eyddi heilmiklum tíma í að taka þá menn út af fjárlögunum, sem höfðu ættarnöfn. Þeim tókst það að mestu leyti, en ein embættismannsekkja fékk þó að halda sínu nafni, af því að ómögulegt var að finna, hvers dóttir hún var. Hún var nefnilega dönsk.

Svona langt gekk vitleysan. Sama máli gegndi með áætlun „Esju“. Það voru tekin upp eldri nöfn á viðkomuStöðum skipsins, og enginn botnaði neitt í neinu, svo að það þurfti að gefa út vísindalegar skýringar við áætlunina, til þess að fólk gæti áttað sig. Ég hygg, að þessi löggjöf, sem hér um ræðir, sýni bezt minnimáttarkennd okkar Íslendinga, sem er því miður allt of áberandi hjá okkur, og þessi löggjöf er því til lítilsvirðingar fyrir íslenzku þjóðina. Þótt þjóðin sé lítil, þá er hrín samt ekki svo litil, að hún þurfi sérstök l. til þess að vernda fornritin. Hv. 7. landsk. minntist á, hvernig færi, þegar þessum l. yrði beitt, og er ég honum þar alveg sammála. Það verði líkt og Þorsteinn Erlingsson kvað. Ef farið verður að refsa mönnum fyrir að brjóta þessi l., þá verðum við til athlægis út á við, og ég vona, að það komi ekki til, að l. þessum verði nokkurn tíma beitt.

Ég veit ekki vel, hvað hv. þm. S.- Þ. átti við, er honum fannst óviðkunnanlegt, að Sigurður Nordal skyldi gefa út menningarsögu sína í einkafyrirtækinu „Máli og menningu“, en ekki á vegum háskólans. Ég veit ekki, hvar þessir „vegir háskólans“ eru, en erlendis er það siður, að rit háskólakennara séu gefin út af einkafyrirtækjum, og hin og þessi bókaforlög fást við þess konar. Að vísu eru sumir enskir háskólar svo vel settir fjárhagslega, að þeir hafa sínar eigin prentsmiðjur, og það væri æskilegt, að svo væri einnig hér.

Ég tel einmitt mjög heppilegt, að menningarsaga Sigurðar Nordals skuli vera gefin út af „Máli og menningu“, því að það félag dreifir mjög út sínum bókum. Eins væri ágætt, ef bókaútgáfa Menningarsjóðs dreifði út verkum eftir lærða menn.

Ég veit ekki, hvort ég á að svara hv. þm. Barð. Hann er nýkominn á Alþ. og ber virðingu þ. mjög fyrir brjósti, en ég álít, að í ræðu minni hafi ekkert komið fram, sem réttlættu ádeilur hans á mig. Mér finnst óviðkunnanlegt, að Alþ. skuli eyða tíma sínum í jafnómerkileg mál og þetta, á meðan því gengur illa að ráða fram úr málinu, sem snertir mjög mikið heill allrar þjóðarinnar. Mér finnst Alþ. standa nógu höllum fótum, þó að það fari ekki að taka fyrir jafnómerkileg mál og þetta.

Ég mun ekki að sinni halda varnarræðu fyrir Alþ., en má vera, að ég geri það síðar, en vil aðeins segja það, að ýmsar afsakanir eru fyrir því, hve þ. gengur illa að ráða fram úr vandamálunum. Alþ. er meginstöð íslenzks þjóðernis og menningar, ef það bregzt, þá veit ég ekki, til hvaða staðar er hægt að grípa.

Hv. þm. Dal. sagði, að ég bæri fullmikið traust til hv 7. landsk. Ég veit, að hann er eini maður í þessari hv. d., sem er verulega fær í norrænum fræðum, og þess vegna álít ég, að hann hafi bezt vit á þeim. Ef svo væri, að hv. þm. Dal. væri eini löglærði maðurinn hér í hv. d., þá mundi ég taka meira tillit til hans orða, ef um lögfræðileg atriði væri að ræða, heldur en annarra hv. þm. Á sama hátt býst ég við, ef um væri að ræða guðfræðileg efni, að ég hefði meira vit á þeim en aðrir hv. þm. Hv. 7. landsk. hefur leyst af hendi próf í þessum fræðum og er því færari í þeim en aðrir hv. dm.

Ég tel ekki þörf að fjölyrða um þetta frekar, nema ef að mér verður veitzt. Ég mun greiða atkv. með þessu frv., því að ég álít, að l. um þetta eigi ekki að vera til.