05.04.1943
Efri deild: 88. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í C-deild Alþingistíðinda. (2767)

86. mál, rithöfundaréttur og prentréttur

Frsm. 2. minni hl. (Eiríkur Einarsson):

Það er svona, þegar mönnum rennur í skap og hafa talað af sér, að þá er um tvennt að gera, að þegja eða þá að tala aftur og láta síðari villuna verða verri hinni fyrri. Það síðar nefnda hefur skeð hjá hv. þm. Barð. Hann segir, að það sé engin afsökun, þó að þskj. hafi verið prentað upp og slíkt sé ófyrirgefanlegt af form. og frsm. n. Það hefur oft komið fyrir, að þurft hafi að prenta þskj. upp, og auk þess vil ég benda á, að samkv. þskj. 499 er ég ekki frsm. Hann segir, að ég hafi áskilið mér rétt til alls konar breyt., og það er rétt um það mál, sem þar er um að ræða og það skjal lýtur að. Hv. þm. Barð. rís hér upp með heilagri vandlætingu og fer að vanda um, hvernig n. hafi hlaupið á sig, það sé óforsvaranlegt að halda málinu svo lengi og réttast sé fyrir n. að segja af sér og aðrir hæfir menn séu valdir til þess að fjalla um þessi mál. Ég get vel hugsað mér, að annar eins atorkumaður og hv. þm. Barð. mundi ekki þurfa langan frest til að afgr. þetta mál úr n., en það hefði þá bara orðið einhver bölvuð lokleysa, og tel ég þá betra að taka sér meiri tíma til afgreiðslu málsins og láta þá vera eitthvert vit í, hvernig það er afgr.

Annars er nú svo komið, að ég tel, að lengri umr. verði ekki til að skýra málið frekar, og ég fer ekki heldur að skemmta d. með því að lengja umr. enn, ég hef ekki orðkynngi til þess, töfin vegna þessa máls er þegar orðið nóg.