25.02.1943
Neðri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2809)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og ég gat um við 2. umr., var frv. þannig, þegar það kom frá hv. Ed., að ég taldi ekki við unandi, og sama skoðun kom fram hjá flestum, ef ekki öllum, í landbn. Ég tók það fram þá, að í staðinn fyrir ákveðið framlag úr ríkissjóði, sem miðaðist að vísu við greiddan jarðabótastyrk, hefðum við fremur kosið, að þetta væri framkvæmt svo, að ákveðinn hundraðshluti væri lagður á seldar landbúnaðarvörur, svo sem kjöt, mjólk o.fl., og það fé lagt í þennan ferðasjóð. Þetta taldi ég rökréttara framhald af orlofsfrv., því að þeir, sem orlofs njóta samkv. því, fá orlofið ofan á laun sín fyrir störf í þjóðfélaginu. Mér virðist því rökréttara, að sveitafólk fái einnig orlof sitt greitt ofan á greiðslu fyrir störf sín, sem eru fólgin í framleiðslu þessara afurða. Hins vegar hné landbn. ekki að því ráði við 1. umr. málsins á fundi sínum að breyta málinu þannig, því að hún taldi, að þetta væri ákveðið samkv. beinu samkomulagi flokkanna í hv. Ed., og hún vildi ekki raska því samkomulagi, ef um slíkt hefði verið að ræða. En við umr. hér í hv. d. hefur komið í ljós, að þm. telja, að ekki hafi verið um neitt slíkt samkomulag að ræða, og eftir að landbn. var orðið þetta ljóst, tók hún málið upp á nýjum grundvelli og ákvað að bera fram brtt. til þess að færa frv. í það form, sem henni þótti rökréttast og mest í samræmi við hitt málið. Þessar brtt. n. eru prentaðar á þskj. 446. Ég mun ekki lýsa hverri einstakri brtt., tel þess ekki þörf. En heildartilgangur þeirra er sá að færa málið í þann farveg, að í stað greiðslna úr ríkissjóði verði fjárins aflað með því að leggja á

gjald, sem nemur 1/2% af heildsöluverði á kjöti og mjólk. Ég veit, að mörgum mun þykja gjaldið. of lágt, og vafalaust verður á það bent, að gjaldið, sem lagt er á samkv. orlofsfrv., nemur 4% af greiddum verkalaunum. En við vildum ekki fara lengra að sinni, vildum fyrst fá nokkra reynslu fyrir þessu fyrirkomulagi og því, hvernig því yrði tekið af fólkinu í sveitunum. Ég skal geta þess, að við lauslega áætlun um það, hve mikils fjár megi vænta í ferðasjóðinn með þessu fyrirkomulagi, hefur komið í ljós, að með núverandi verðlagi má búast við, að það verði um 200 þús. kr., og fer þetta þá að nálgast það að geta orðið að liði. Vitanlega verður þó ekki komið á almennum ferðum sveitafólks um landið fyrir þetta fé og ekki nema fólkið leggi nokkuð af mörkum sjálft, en þessi upphæð gæti orðið mikil hjálp til að koma þessari starfsemi á rekspöl og hjálpa til þess, að fátækir einyrkjar, sem eiga ekki heimangengt vegna annríkis og fólkseklu, gætu keypt sér aðstoð á heimilinu, á meðan þeir brygðu sér frá, og þeim gert kleift að - komast út af heimilunum.

N. fór ekkert út í það að taka fé af fleiri gjaldskyldum vörum landbúnaðarins til þessa gjalds. Það hefði þá orðið torvelt um innheimtuna, þó að það hefði ekki verið óréttlátt.

Ég fer ekki nánar út í einstakar gr. brtt. n. Þær eru allar um þetta aðalatriði, sem ég hef minnzt á, og eru nauðsynlegar til að kveða á um framkvæmd meginmálsins.

Ég þarf svo ekki að orðlengja þetta meira, en get þess aðeins, að landbn. stendur óskipt að þessum brtt.