25.02.1943
Neðri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (2813)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Hv. þm. Mýr. var að tala um það áðan, að verkamenn mundu fá mikla upphæð til orlofs og væri þess vegna hægt að líta svo á, að þeir gætu af því fé veitt konum sínum nokkurt frí og ferðalög. Nú er það svo í kaupstöðum, að til eru fleiri húsmæður en konur verkamanna. Það er fjöldi af húsmæðrum hér, sem hafa jafnvel allra bágasta aðstöðu, sem ekki einu sinni hafa þá aðstöðu að geta þó kallað til manns síns til þess að fara fram á slíkan styrk hjá honum. Og í brtt. okkar er lagt til, að féð, sem á að greiðast til kaupstaðanna í þessu sambandi, greiðist til mæðrastyrksnefndar. Og það er vitað, að sú n. mundi sjá um, að þessu fé yrði úthlutað fyrst og fremst til þeirra kvenna, sem minnsta möguleika hafa til að njóta þeirra réttinda, sem konur, sem eiga menn á lífi, fengju með orlofsfénu. Það er þess vegna ekki bætt úr þeirri nauðsyn, sem fyrir er um að létta undir með konum kaupstaðanna, jafnvel þótt verkamenn hafi fengið orlof. Það kann að vera erfitt fyrir verkamenn á sumum heimilum að koma því svo fyrir, að konur þeirra fari í orlof, a.m.k. á annan hátt en þann, að þeir slepptu því sjálfir og konur þeirra færu í staðinn. Og ég vil minna hv. þm. á það, að það er alveg sérstakt, hve mikið verkamenn hafa haft á síðasta ári í Rvík. Verkamenn hafa yfirleitt ekki geta gengið út frá því að hafa vinnu hvern dag árið um kring. Hitt hefur verið tíðara síðustu áratugina, að þeir hafi kannske ekki fengið að vinna nema annan og þriðja hvern dag, og þeir hafa fengið vinnuna mun verr borgaða en nú og þess vegna átt fullt í fangi með að hafa nægilegt til þess að draga fram lífið í sér og sínum, hvað þá að þeir hafi getað kostað upp á kynnisferðir og frí fyrir sjálfa sig og fjölskyldur sínar.

Í sambandi við þessa brtt. er um það að ræða, hvort samsvarandi styrk eins og þarna á að veitast til sveitanna, m.a. húsmæðra í till. okkar, eigi líka að veita til þeirra, sem bágast eru staddir í kaupstöðum, sem ekki eiga kannske kost á að njóta neins af því, sem verkamenn hafa fengið til orlofs. Og það er sérstaklega vegna þess, sem við leggjum til, að þetta fé verði falið mæðrastyrksnefnd til úthlutunar. Hv. þm. Mýr. vildi leggja nokkuð upp úr því, að það, sem í till. landbn. felst, ætti ekki síður að geta komið húsmæðrum að notum heldur en bændum. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa eina setningu úr brtt. við 6. gr.: „Styrk úr ferðasjóði skal aðallega verja til þess að standast kostnað við hópferðir sveitafólks til að kynnast fjarlægum héruðum, búnaðarháttum þar og búnaðarframkvæmdum.“ Það er auðheyrt á því, hvernig þetta er orðað, að það eru karlmennirnir, sem eru fyrst og fremst bornir fyrir brjósti, þó að ég geti vel trúað því, að landbn. vilji ekki láta líta svo út sem hún hafi gleymt húsmæðrunum. Ég held, að sá tilgangur, sem hv. þm. Mýr. segir, að hafi vakað fyrir n., náist miklu betur með brtt., sem ég og fleiri þm. flytja.

Hv. þm. Mýr. minntist á, að veittar væru 2 þús. kr. í fjárl. til kynnisferða bænda, og væri það að gera gys að bændum. Hefur ekki Framsfl. sett þetta inn í fjárl.2 (BÁ: Ég sagði, að það væri að gera gys, eftir að orlofsfrv. væri orðið að l.). Auðvitað hefur verið tækifæri undanfarið fyrir Framsfl. og aðra, sem þykjast bera hag sveitamanna fyrir brjósti, til að bera fram till. um að hækka þetta tillag. En ég held, að jafnlítill áhugi hafi verið fyrir því eins og að barnaskólar yrðu byggðir í sveitunum. En hv. þm. Mýr. var þó einn af þeim fáu, sem stóðu með því. Ég held, að bezta ráðstöfunin á því fé, sem bændur fá úr ríkissjóði, væri sú, að eitthvað af því færi til kynnisferða bænda, heldur en að greiða 20–30 þús. kr. til eins einasta bónda sem uppbót, en þeir fátæku séu svo settir hjá.

Þetta mál var fyrst flutt í hv. Ed. af nokkrum þm. Alþfl. og Framsfl., var það hugsað sem eins konar mótvægi móti orlofsfrv., sem veitti verkamönnum réttindi til orlofs. Þar kom fram till. um að tryggja bændum a.m.k. 60 þús. kr. án verðlagsuppbótar. Og það var við þá brtt., sem við lögðum fram brtt., og það áður en landbn. kom með sína brtt. um, að í staðinn fyrir 60 þús. kr. sé greitt í hlut sveitafólks a.m.k. 170 þús. kr. Landbn. fór fram á nokkru ríflegra framlag, og ég held það sé ekki fjárhæðin, sem skilur á milli þarna, heldur hitt spursmálið, til hvers eigi að nota féð. Ég sé ekki .betur en allt mæli með því, að þetta fé sé notað handa húsmæðrum í sveit, og síðar sé hægt að styðja að aukinni kynningu meðal bænda, svo að þeir kynntust búnaðarháttum hver hjá öðrum, með því að auka fjárframlagið, sem til þess er ætlað nú í fjárl. ríkisins.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Mýr. var að reyna að verja, að allt, sem lagt er á kjöt og mjólk í þessu skyni, auki dýrtíðina, vil ég segja, að það ætti varla að þurfa um það að deila, að allt, sem lagt er á þessar vörur, er nefskattur, sem kemur þyngst niður á þá, sem sízt mega við því, í staðinn fyrir, að fé væri varið úr ríkissjóði, en aflað mest með beinum sköttum, sem hlutfallslega þyngra koma niður á þeim ríku. Það er rétt aðferð. En eftir till. landbn. er lagður skattur á þá fátæku til að hjálpa öðrum. Það hefur staðið í stefnuskrá Framsfl., að hann væri á móti óbeinum sköttum, og ætti ekki að þurfa að rökfæra slíkt mál við þá menn, þó að hér komi fram till. um óbeina skatta. Hitt málið, hækkun launa verkamanna í landinu, er spursmál út af fyrir sig, sem tekur til atvinnurekenda í landinu.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta efni, en ég fæ ekki betur séð en að þarna sé landbn. að flytja nýtt frv., um tolla, sem ætti að athugast af fjvn. En þær till., sem ég hef lagt til, eru brtt. við hverja gr. frv.