01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2824)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti: Ég vil ekki blanda mér mikið inn í þessar umr., en drepa á nokkur atriði. — Það er rétt hjá hv. þm. Str., að svo virðist sem ekki sé eins strangt tekið á þessu nú á síðari árum sem áður fyrr. Þó var á þingi 1935 eitt mál, sem hv. þm. vitnaði í, einmitt talið svo breytt, að það var úrskurðað sem nýtt mál og um það ákveðnar 3 umr. frá byrjun. Það var talið, að forseti hefði gengið of langt að leyfa breyt., en samt var það svo, að forseti Nd. fékk felld burt viss ákvæði frv., sem sett höfðu verið inn í Ed., vegna þess að hann taldi, að þau gætu ekki staðizt í frv. Rök hans eru að vísu nokkuð óljós, en þó kemur greinilega fram, að hann taldi, að málið mætti samkv. þingsköpum ekki fram ganga eins og Ed. hafði frá því gengið, svo að það er ljóst, að fram á síðustu ár hefur verið nauðsynlegt að hafa aðgerðir í frammi, ef of mikil breyt. á málum hefur átt sér stað, og án þess að ég vilji blanda mér inn í þetta mál, þá er ljóst, að ákvæði þingskapa og ekki síður stjskr. eru þverbrotin, ef máli er gersamlega umbylt frá því, sem það var upphaflega, og þar með er farið í kringum fyrirmæli um umræðufjölda, sem er sú trygging, sem á að vera sett fyrir rækilegri athugun þingmála. Þess vegna álít ég, hvað sem öðru líður, fyrst hæstv. forseti hefur vakið athygli á því, að gott sé, að þingið slái föstu, að hér eigi að vera vel á verði, og ég hygg, að „praksis“ fyrri ára sé að þessu leyti heilbrigðari fyrir þingræðið en sú óvenja, sem komizt hefur inn á síðari árum, enda þótt hæstv. forseti Nd. áliti breyt. ekki svo mikla, að ástæða væri til að telja málið nýtt mál. Hitt er annað mál, að það er ekki einfalt, hvað hæstv. forseti á að gera, þegar slík tilfelli koma fyrir. Í þessu tilfelli hefði verið réttast, að hæstv. forseti Nd. hefði vísað brtt. frá, ef þær hefðu talizt svo miklar, að þær gerbreyttu frv., en úr því að hann hefur ekki gert það, verður þessi d. að gera sjálfstætt upp með sér, hvort hér er um sama mál að ræða, því að ef það er allt annað mál, þá er það þessi d., Sem fyrst og fremst á að gera það upp, hvort svo er, þar sem málið er flutt í þessari hv. d. En þá kynni að vera vafamál, hvenær mál ætti að ganga í Sþ., ef d. greindi á um, hvort um sama mál væri að ræða eða ekki. Þar kynni að vera hugsanlegur ágreiningur, en öðruvísi verður ekki fram hjá því komizt, fyrst vitleysa hefur verið gerð í málinu á annað borð. En þó að slíkur ágreiningur kynni að vera, sem er meira í kenningu en framkvæmd, þá getur það ekki breytt því, og á það vil ég leggja áherzlu, að þessi d. verður að gera sér sjálfstætt grein fyrir, hvort um sama mál er að r æða og það, er áður lá hér fyrir, eða ekki. Ég vil leggja áherzlu á það, sem hv. þm. Barð. sagði, að það er bæði form og efni, sem hér kemur til greina. Og samkv. þeim brtt., sem samþ. voru í Nd., eru gr. þess frv., sem áður var, felldar burt, en allt að þrisvar sinnum fleiri gr. koma í staðinn, og efnisbreyt. er sú, eins og hæstv. forseti sagði, að þar er lagður á nýr skattur og stofnaður þar af sérstakur sjóður, málið tekið af stj. og lagt með lögum undir Búnaðarfélag Íslands og sumpart horfið frá kynnisferðunum, því að ætlazt er til, að mönnum sé borgað kaup, sem fara ekki í kynnisferðir, og málinu yfirleitt gerbreytt frá því sem það var. Hitt er alveg rétt, að að grundvelli til er um sama efni að ræða og upphaflega var í frv. Ég vil undirstrika það, sem hv. þm. Str. sagði, að þess eru dæmi, sérstaklega eftir 1933, að átt hafi sér stað ákaflega miklar breyt. á frv., sem þó eru ekki undantekningarlaus, sbr. meðferð bandormsins 1935, og eiga frekar að vera til varnar en eftirbreytni, ef við viljum halda stjórnarskráratriðum um þetta efni í heiðri.