01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 246 í C-deild Alþingistíðinda. (2832)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Magnús Jónsson:

Mér þykir undarleg þessi tilraun hv. þm. Str. að snúa málinu inn á þá braut, að þessi þingskapalega afstaða til málsins sé efnisleg afstaða, og skrýtið þykir mér að heyra það af munni lögfræðings og fyrrverandi dómara, að ekki beri að líta á málið sjálft, heldur eigi persónuleg afstaða þm. að ráða. Fór hann eftir slíku í dómarastarfi sínu? Mér er sem ég heyri gegnum orð hv. þm. hótun um, að nú skuli koma í Tímanum grein, þar sem okkur er úthúðað fyrir fjandskap við málið og borið á brýn að vilja eyða því. Þetta er einhver mesti siðspillingarvottur, sem ég hef orðið var við á Alþ. og það af fyrrv. verði laga og réttar í landinu. Hér er kallað á okkur að skera úr um vandasamt atriði og láta ekki persónulega afstöðu til málsins ráða. En það vill nú svo vel til, að fyrir liggur sönnun um, að hér er ekki um að ræða neinn fjandskap við málið af okkar hálfu, því að sá hv. þm., sem leggur til, að málið sé upp tekið sem nýtt mál, hefur áður sýnt það með atkv. sínu, að hann er með málinu. Hér er ekki heldur um að ræða mikilsvert atriði fyrir málið, því að engar líkur eru til, að ekki verði hægt að ljúka því á þessu þingi. Það er því smáatriði að þessu leyti, en getur verið mikilsvert atriði að hinu leytinu, að hér getur orðið um að ræða fordæmi fyrir síðari tíma, og mér kæmi ekki á óvart, þó að þessi hv. þm. kynni að verða fyrir því síðar meir, að andstæðingar hans notuðu sér það fordæmi.