01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í C-deild Alþingistíðinda. (2834)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Bjarni Benediktsson:

Aðeins fá orð út af þeim getsökum hv. þm. Str., að fyrir okkur vaki að eyða málinu með því að látast vera því fylgjandi. Ef einhverjir vilja eyða málinu, eru það þá ekki þeir, sem vilja halda því fram, að málið hljóti að stranda samkv. þingsköpum, ef það er tekið upp sem nýtt mál. Ef hv. þm. vill vera með getsakir um óheilindi, ætti hann fyrst og fremst að beina ásökunum sínum til þeirrar n. í Nd., sem valdið hefur þessari skyssu. Það hefði ekki þurft að tefja málið að flytja nýtt frv. á formlegan hátt. Ef einhverjir eiga ásakanir skilið, þá eru það þeir menn, sem skyssuna gerðu, en ekki hinir, sem vilja reyna að gera gott úr þessu, eins og hæstv. for seti o.fl. Ég verð líka að undrast þá staðhæfingu hv. þm. Str., að 10–20 ára þingvenja sé fyrir því, að gerbreyta megi frv. Hæstv. forseti nefndi dæmi frá árinu 1931, þegar till. var vísað frá af þessum ástæðum, þar sem hún rúmaðist ekki innan ramma þingskapanna, og ég hef sjálfur nefnt dæmi frá árinu 1935, er forseti Nd. felldi niður ákvæði frv., sem Ed. hafði sett inn í það, af því að hann taldi þau ekki rúmast innan ramma frv. Það er því hægt að benda á skýr dæmi um það, að ekki hefur verið talið hæfa að gerbreyta málum á þennan hátt, og það frá síðasta 10 ára tímabili, þegar lengra hefur þó verið gengið en áður í því að virða að vettugi ákvæði stjskr. og þingskapa. En samt heldur hv. þm. Str. því fram, að hér sé verið að ganga í gegn venju, sem skapazt hafi á undanförnum 10–20 árum. Ég veit ekki, hvað eru blekkingar, ef ekki þetta.