01.03.1943
Efri deild: 66. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 248 í C-deild Alþingistíðinda. (2837)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég tók það ekki fram áðan, að þegar frv. var samið, þá var það byggt á því að tryggja bændafólki einnig tækifæri til þess að taka sér orlof eins og annað fólk. Það var meginhugsun þessa máls. Og um leið og öðru fólki var veittur styrkur til þess að taka sér orlof, þá þótti rétt að gefa þessu fólki einnig færi á, að fá styrk til þess að taka sín orlof.

Þetta er það, sem kom þessu frv. af stað, og það stendur enn í frv., eins og það er nú. Það eru enn þá sömu mennirnir, sem eiga að fá styrkinn, og honum verður úthlutað á sama hátt og upphaflega var gert ráð fyrir. Breytingin er aðeins sú, hvernig eigi að afla fjárins til þessara framlaga, þannig að upphaflega var gert ráð fyrir, að það yrði greitt beint úr ríkissjóði, en nú er það lagt á vissar landbúnaðarafurðir. Ég skal játa, að það er mikið form utan um þetta í frv., en ef umbúðirnar um þetta hefðu verið fyrirferðarminni, þá er ég viss um, að enginn hefði hreyft því, að hér væri nýtt frv. á ferðinni. Það er í raun og veru ekkert annað nýtt í þessu frv. nú heldur en sú tekjuöflunarleið, sem hefur verið valin. Meginatriði málsins, þ.e. hugmyndin um að styrkja sveitafólkið til kynnisferða, er hið sama, en það hefur aðeins verið breytt um tekjuöflunarleið, og get ég því ekki séð, að hér sé raunverulega um nýtt mál að ræða.