07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í C-deild Alþingistíðinda. (2862)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Brynjólfur Bjarnason:

Hv. þm. Str. hefur nú sagt hér, að allir úrskurðir væru í raun og veru matsatriði, og það gilti ekki frekar um þennan úrskurð, sem hann vildi, að forseti einn kvæði upp í þessu máli, heldur en aðra úrskurði. En það er í raun og veru svo, að úrskurðir eru venjulega um það, hvernig skilja beri l., og um ekkert annað. Forseti úrskurðar, hvernig skilja beri ákvæði þingskapa eða þá, hvernig fara skuli með mál samkv. venju, ef ekki eru um það skýr fyrirmæli í þingsköpum. Hér er um mál að ræða, sem er allt annars eðlis, nefnilega, hvort þingið álítur, að mál, sem fyrir liggur, sé þess eðlis, að nauðsynlegt sé, að það fái sömu meðferð sem væri það nýtt mál, — og ekkert annað. D. ber að gera það upp við sig, hvort málinu hefur verið breytt svo, að rétt sé að fara með það sem nýtt mál. Og þar koma í raun og veru engir forsetaúrskurðir til greina. Það væri algerlega rangt, að forseti úrskurðaði í því máll. Það er deildarinnar og einskis annars að úrskurða það. Væri ég forseti, mundi ég neita að gefa úrskurð í slíku máli öðruvísi en d. álítur rétt. Og ég er í einu atriði á annarri skoðun heldur en hæstv. forseti. Hann álítur, að þær breyt., sem á tveim þskj. hafa verið bornar fram, ef samþ. yrðu, mundu verða þess valdandi, að fyrir það mundi þurfa að skoða málið sem nýtt mál. En ég álít, að það sé hægt að láta þessar brtt. sæta bara venjulegri meðferð. Og það er deildarinnar að meta og einskis annars.

Út af því, sem talað hefur ver ið um það hér, að það hefði þurft að koma til greina nýr flm. eða nýir flm. að þessu frv., ef það ætti að teljast nýtt frv., þá er það að segja, að það eru fordæmi fyrir því, að mál hafi verið tekin upp í annarri d. sem ný mál, hliðstætt því, sem hér er að gerast, án þess að sérstakur flm. væri að þeim sem þannig nýjum málum. Þessi fordæmi voru lesin hér upp af hæstv. forseta, þegar málið kom fyrst hér í hv. d., eftir að það var í Nd., sem ég ætla, að hv. þm. minnist. Það skal viðurkennt, að það hefði verið viðkunnanlegra, að það hefði verið sérstakur flm. að málinu nú sem nýju máli. En það eru fordæmi fyrir því að hafa þetta eins og gert var, og er þetta vitanlega formsatriði, sem skiptir ekki verulegu máli.