07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 260 í C-deild Alþingistíðinda. (2879)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Frsm. annars minni hl. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil víkja nokkrum orðum að ummælum hv. 5. þm. Reykv. (BrB) í þingskapaumr. áðan. Hann beindi því að mér, að ég hefði misnotað forsetavald mitt, og minnti mig á, að forseti ætti að hlíta till. meiri hluta í d.

Út af þessum ummælum vil ég segja það, að ég hef jafnan í úrskurðum gert það, sem ég hef álitið réttast, og fellt þá sjálfur, en ekki haft leiðbeininga hv. þm, í þeim málum.

Ég er andvígur því, að þetta frv., eins og það liggur fyrir, verði samþ. Ég tel, að frv. í sinni upphaflegu mynd, eins og það lá fyrir hér í hv. þd., hafi verið þannig, að það væri fullkomlega eðlilegt, að Alþ. sýndi lit á því að veita öðru fólki, sem líkt stendur á um og það, sem nýtur orlofsl., en ekki kemur undir það að njóta þeirra l., — ég tel eðlilegt að veita því fólki fyrirgreiðslu um að taka þátt í kostnaði við kynnisferðir þess, eins og gert er nú ráð fyrir. Hins vegar er ég andvígur því, að verið sé að leggja neyzluskatt á framleiðsluvörur bænda til þess að afla fjár í þessu skyni. Ég vil fullkomlega rengja þau ummæli hv. þm. Dal., að þessi skattur verði á lagður án þess að hann komi niður á útsöluverðinu. Það er ekki fyrirbyggt í frv., að hann komi niður á því. Verðlagsn. ákveður verðið eftir sem áður, og hún ákveður, hvaða verð framleiðendur eigi að fá fyrir landbúnaðarvörur heim til sín. En yrði það nú svo, eins og hv. þm. Dal. segir, að þetta gjald yrði tekið af bændum sjálfum, af því, sem þeir þurfa að fá fyrir afurðir sínar, þá hygg ég það nokkuð vafasamt, að bændum sé nokkur þægð í þessu, heldur vildu þeir þá velja um það, hvort þeir verðu fé til þessa eða ekki.

Ég er því ekki andvígur, að stutt sé að því, að sveitafólk geti létt sér upp á þennan hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. En ég vil leyfa mér að leggja til, að samþ. verði rökst. dagskrá um málið, svo hljóðandi:

„Í trausti þess, að ríkisstjórnin láti hið bráðasta athuga, á hvern hátt hið opinbera geti stutt að því, að fólki, sem lögin um orlof eigi ná til, verði gert fært að njóta kynnisferða, telur deildin rétt að láta afgreiðslu þessa máls bíða frekari athugunar og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“