07.04.1943
Efri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 261 í C-deild Alþingistíðinda. (2881)

120. mál, kynnisferð sveitafólks

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég stóð upp út af ummælum hv. 3. landsk. þm. (HG), sem kom hér í fundarsalinn eins og kría, hreytti svolitlu úr sér og skauzt svo burt, svo að ekki er hægt að mæla við hann máli. Ég kynni betur við, að hann sæi sér fært að vera hér inni í salnum. Það var ekki meiningin að fara að atyrða hann. En ég vildi minnast á það, sem hann gat um í ræðu sinni, þar sem hann hélt því fram, að hér væri verið að leggja skatt á neytendur með þessu frv. og brtt. Þetta er mjög fjarri því að ná nokkurri átt. Og þessi hv. þm. var að tala um, að verðlagsn. muni fara eftir því, þegar hún færi að ákveða verðið á afurðunum. Fara þá sambönd verkamanna eftir því, þegar þau heimta kaup sitt, að þau leggja nokkuð af því í sjóð og heimta þess vegna hærra kaup? Ég býst ekki við því. Þetta eru alveg hliðstæð atriði. Alltaf heyrast harmakvein um það, að bændur heimti og heimti styrki til sín. En ef þeir vilja safna í sjóð af verði framleiðslu sinnar, þá hlaupa þessir sömu menn í kapp við það hér í d. og vilja, að þetta sé lagt fram úr ríkissjóði að bændunum nauðugum viljugum, þannig að slíkum styrk sé troðið upp á bændur, án þess að þeim sé nokkur þægð í því. Fjöldi bænda og forsvarsmanna þeirra hefur látið í ljós, að þeir óskuðu ekki eftir styrkjum í þessa átt frá ríkinu, ef þeir mættu koma málinu fyrir á þann hátt eins og í frv. er gert ráð fyrir með þeirri breyt., sem felst í brtt. frá okkur í minni hl. landbn. Ég sé ekki nokkra ástæðu til þess, að hv. þd. varni mönnum þess, sem þar er gert ráð fyrir. Ég held, að mönnum geti ekki dottið í hug t.d. að banna fiskútflytjendum að leggja eitthvert gjald í sjóð, sem miðast við útflutningsverðið, þó að þeir sömu menn, sem það gerðu, vildu verja því fé sér til einhverrar upplyftingar og ánægju. Nú er í þessari rökst. dagskrá, sem hér liggur fyrir, komið fram sú till. að taka málið upp aftur á nýjum grundvelli, en ég held satt að segja, að það sé nóg búið að velta þessu máli fyrir sér, og sé því ástæðulaust að vera að taka þetta mál aftur upp í þeirri mynd, sem dagskrártill. fer fram á. Mun ég því ákveðið vera á móti rökst. dagskrá hv. 3. landsk., en held mig við brtt. hv. landbn.