18.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. minni hl. 1. kjördeildar (Skúli Guðmundsson):

Gunnar Thoroddsen hefur fengið „staðfest“ skeyti frá konu í Ólafsvík. Þetta skeyti á að hans dómi að vera full staðfesting á því, að bréf það, sem ég hef birt þingheimi, styðjist ekki við rök. Hvernig lízt mönnum á, að sá er prófessor í lögum, sem heldur slíkri firru fram?

Hann var með árásir á kaupfélögin, en þorði þó sýnilega ekki að bera þau neinum ákveðnum sökum. Þá ásakaði hann Framsfl. um að hafa fellt till. um aukin fjárframlög á Alþ. 1934. Þá hafði Framsfl. samtök við Alþfl. um að afgreiða tekjuhallalaus fjárlög. Það hefði orðið 5 millj. kr. tekjuhalli á árinu 1935, ef samþ. hefðu verið till., sem sjálfstæðismenn báru fram í fullu ábyrgðarleysi. Síðasta atriði ræðu hans, að ekki mætti spilla fyrir stjórnarsamvinnu flokka með því að fletta ofan af ósómanum, sýnir hvers konar friður það er, sem hann og e.t.v. fleiri úr flokki hans vilja skapa á Alþingi Íslendinga.

Út af ræðu hv. 3. landsk. (HG) skal ég taka fram, að ég var raunar ekki á þingi 1928, þegar rætt var um kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu, en ef ég man rétt, stóðu um hana nokkuð langar umræður. Hann spyr, hver munur sé á því, hvort kjörbréfið sé tekið gilt nú eða seinna. Eins og tekið hefur verið fram, getur það orðið mikill munur, og sé einu sinni búið að taka kjörbréf gilt, er ekki hlaupið að því að ógilda það.