10.02.1943
Neðri deild: 54. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í C-deild Alþingistíðinda. (2904)

17. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. — Það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta mál var til 1. umr. hér í hv. d. Það er 17. mál þingsins og var lagt fram á fyrstu dögum þess í haust. Og loksins, þegar það kemur til 2. umr., er afgreiðsla þess nokkuð á annan veg en búast mætti við um þetta mál, þar sem hv. fjhn. hefur ekki getað orðið sammála um það.

Við athugun þessa máls hafa þó komið í ljós tvö meginatriði. Annað er það, að það er skjallega staðfest af vegamálastjóra, sem ég leyfði mér að halda fram við 1. umr., að á þessa styrki sem hér er um að ræða, hafi ekki verið greidd nein verðlagsuppbót á undanförnum árum. Og í öðru lagi er viðurkennt af vegamálastjóra, sem hefur haft á hendi úthlutun þessara styrkja, að það sé þó sanngjarnt að greiða nokkra uppbót á þessa styrki, eins og yfirleitt er gert um styrki til einstakra manna, þar sem hann hefur lagt til, að þeir verði hækkaðir um 50%, samkv. því, sem hér stendur í fylgiskjali með nál. hv. meiri hl. fjhn. Þetta kemur að vísu fram á fjórða stríðsárinu, þegar allt verðlag er stöðvað, þá leggur vegamálastjóri það til, að vegna hækkandi verðlags sé farið að hækka þessa styrki ofurlítið, sem er þó virðingarverð framför frá því, sem verið hefur.

Það er alveg rétt, sem fram kom hjá hv. frsm. meiri hl. fjhn., að það skiptir í raun og veru ekki höfuðmáli, hvort peningarnir, sem greiddir eru, kallast grunnlaun eða verðlagsuppbót, og það væri hægt að fullnægja réttlæti í þessu efni á þann hátt að hækka styrkina beinlinis. En þessa reglu hefði þá mátt hafa um fleiri styrki, sem veittir eru, t.d. styrki, sem veittir eru sem eftirlaun og lífeyrir, og styrki til skálda og listamanna, sem veittir eru í fjárl., og jafnvel almennt kaupgjald í landinu. En hæstv. Alþ. hefur nú ekki þótt hagkvæmt að fylgja þessari reglu, heldur reiknað út grunnkaup og grunnverð styrkja og reiknað svo aftur á þá uppbót eftir vísitölu. Stefna frv. er því í samræmi við stefnu Alþ. um þessi mái. Og þetta frv. er fram komið til þess að færa til samræmis við þessa stefnu Alþ. veitingu þeirra styrkja, sem hér er um að ræða og fylla í eyður á eldri. löggjöf, sem Alþ. hefur samþ. um svipað efni.

Það er þó virðingarverð viðurkenning hjá hv. meiri hl. fjhn. að vilja þó fallast á það, sem vegamálastjóri leggur til, að þessir styrkir verði hækkaðir. En mér virðist kenna ofurlítils ósamræmis í framsögu þessa nefndarmeirihluta og nál. sjálfs, Því að vilji þessi nefndarhluti leggja áherzlu á, að þingið léti í ljós, að till. vegamálastjóra skyldi hlítt í þessu máli, þá hefði mér fundizt eðlilegt, að hann hefði lagt til, að málið yrði afgr. með rökst. dagskrá fremur en að það væri fellt, þar sem þá væri fram tekið, hver vilji þingsins væri.

Það eru tveir liðir í 13. gr. fjárl., yfirleitt mjög lágir liðir, sem samþykkt þessa frv. kæmi til með að hafa áhrif á. Það er styrkur til 7 bænda á landinu til að halda uppi byggð og gistingu, og hins vegar styrkir til ferjuhalds, sem greiddir munu vera til 15 manna á landinu samkv. upplýsingum vegamálastjóra. Ég geri ráð fyrir, að á þessum 7 stöðum sé um nokkuð sérstakar ástæður að ræða, hverjum fyrir sig, enda eru þessir bæir sinn í hverri sýslu. Ég er þó ekki sérstaklega kunnugur staðháttum á þessum bæjum nema einum þeirra, Kvískerjum á Breiðamerkursandi. Sá bær er á sandinum fulla 15 km frá öðrum bæjum. Það er ákaflega erfitt að stunda þar búskap, einkum vegna þess, að heyskap verður að sækja að mestu leyti um 20 km leið og flytja heim um mjög hrjóstruga leið.

Sauðbeit er þarna góð, en stórgripahagar ekki góðir. Þessir staðhættir valda bóndanum mjög miklum erfiðleikum. Hann verður t.d. að hafa mann til heyflutninga á sumrin. En nauðsynin er ótvíræð og brýn að hafa þarna byggð. Yfir sandinn mætti að vísu komast án þess, en það greiðir mjög samgöngurnar og veitir ótrúlegt öryggi, að byggð er á þessum stað.

Þótt ég sé ekki gamall, man ég dæmi, sem ég gæti nefnt, um það, að það hafi beinlínis bjargað lífi manna, að bær er á þessum stað. Ég get ekki stillt mig um að nefna eitt dæmi. Það mun hafa verið haustið 1926, að íslenzk flutningaskúta strandaði á sandinum vestan Jökulsár. Tveir þeir, sem veikbyggðastir voru af skipshöfninni, létu þar lífið af vosbúð, en hinir björguðust að Kvískerjum og náðu sér, af því að þar var skjól og hjúkrun að fá, ella er ólíklegt, að nokkur hefði bjargazt. Ég ætla ekki að meta þau mannslíf til verðs. En ég lít þannig á, að lífsbjörgun þessarar einu skipshafnar hafi verið hinu íslenzka þjóðfélagi meira virði en margar 500 kr., þótt ekkert væri annað talið.

Það hefur verið rætt hér, hversu brýnt það væri að fá brú á Iðu, þar sem héraðslæknir þarf ákaflega oft að fara yfir Hvítá illfæra. Frá nálega 80 bændum liggur fyrir þinginu áskorun um að koma upp brúnni, en þingið sér ekki möguleika til þess í næstu framtíð. En hvernig er ferjuhaldið þá launað á þessum mikilvæga stað? 150 kr. á ári af opinberu fé. Engin verðlagsuppbót hingað til.

Ég hef nokkuð upplýst málið um þessa 7 bændur, sem njóta styrks til að halda uppi byggð og gistingu handa ferðamönnum. Ferjustyrkurinn er veittur vegna sérstaks tilkostnaðar, og enn fremur er hann þóknun fyrir bein störf í þágu hins opinbera. Hvers vegna á að meta störf þeirra svo lágt, og hví eiga þeir ekki verðlagsuppbót eins og aðrir? Raddir hafa komið fram um það, m.a. við 2. umr. fjárl., að sumir menn muni hafa í huga að lækka verðlagsuppbót á öll laun, þannig, að hún nemi aðeins 80% af því, sem vísitalan segir til um á hverjum tíma. Mér er alls ókunnugt, hvort slíkar hugrenningar kunna að bærast í brjóstum einhverra manna, og vil engan dóm um það fella, en glöggt mátti heyra á hv. 2. þm. Reykv., að honum þóttu slíkar hugsanir varhugaverðar og ófagrar. En samtímis er hann með því nál. fjhn., að fella beri þetta frv. og ráði vegamálastjóri því þá, hvert brot af eðlilegri verðlagsuppbót skuli greitt þessum aðilum. Hvers vegna á að dæma þessa menn frá þeim kjarabótum, sem nálega allir aðrir hafa fengið? Hvaða samræmi er t.d. í því og kaupi vegavinnumanna? Hefur ekki þetta þing fylgt þeirri reglu s.l. ár að miða við fulla dýrtíðaruppbót? Vissulega, og mætti benda á dæmi þess. Auk þess er ekki lengra síðan en í gær, að til umræðu var 20–30% uppbót til skálda og listamanna í samræmi við uppbótina til embættismanna. Í þessu frv. er ekki um neitt slíkt að ræða. En ef á að taka þessa örfáu ferjumenn svona út úr, þá held ég yrði að taka nokkuð marga fleiri út úr, hvernig sem það mæltist fyrir, og satt er það, að uppbótafyrirkomulagið er orðið ærið flókið í framkvæmd. Nú hefur vegamálastjóri lagt til, að úthluta eftir á 50% uppbót á styrkina fyrir 1942 og meiri hl. fjhn. talið það hæfilegt. En hvað verður framvegis? Ég legg til, að framvegis fylgi uppbótin alveg vísitölu, og í því felst meginmunur þessa máls. Ég geri ekki ráð fyrir, að meiri hl. hafi lagt til að fella frv. af öfund við þessa menn, heldur af umhyggju fyrir hag ríkissjóðs. Munurinn á 50% uppbót og 150% uppbót nemur einum 6 þús. kr., og kemur nú til kasta hins háa Alþ. að dæma á milli. Það er ekki að ófyrirsynju, þótt hv. þm. beri umhyggju fyrir hag ríkissjóðs, það er öllum þm. skylt að gera, og ekki sízt fjhn. En ef það sýnir sig, að þetta frv. verður fellt, þá held ég, að það sé tímabært fyrir þá, er fyrir því gangast að taka að íhuga sin fornu orð: Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en gætir eigi bjálkans í þínu eigin auga.