10.02.1943
Neðri deild: 54. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2907)

17. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Sigurður Bjarnason:

Ég skal ekki tefja umr., en mig furðar á þessum undirtektum hjá fjhn. og þeim riddurum, sem ganga brynjaðir að því að fella frv. Ég sé ekki betur en þetta sé sanngirnismál og þeir menn ekki ofhaldnir af launum sínum, þótt frv. yrði samþ., eins og ljóst má verða af plaggi því, sem vegamálastjóri lætur fylgja umsögn sinni og prentað er á þskj. 304. Upphæðin í heild var aðeins 3650 kr. til ferjuhalds árið 1941, hin upphæðin lítið eitt hærri, og finnst mér þær tölur hefðu ekki átt að skjóta fjhn. skelk í bringu að 2. umr. fjár l. nýafstaðinni.

Hv. 2. þm. Reykv. var hissa á, að flm. skyldi ekki heldur flytja brtt. við fjárl. og spara sér að flytja frv. Benda má honum á, að þetta frv., 17. mál, var með fyrstu þmfrv., sem fyrir þingið voru lögð og fjhn. fékk til athugunar, svo að hún hefði átt að skila áliti löngu fyrr, og hefðu þá aðfinnslur þm. um málsmeðferð flm. haft við lítið að styðjast, og vitanlega hefur flm. farið þá leið, sem réttast var.

Óþarft er að ræða hér um einstaka menn, er styrkja þessara njóta. Allir vita, að ekki hafa þeir hagnað af þessu starfi.