10.02.1943
Neðri deild: 54. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í C-deild Alþingistíðinda. (2910)

17. mál, verðlagsuppbót á laun embættismanna og annarra starfsmanna ríkisins

Páll Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál úr því, sem komið er. Ég er mjög ánægður yfir því, að margir þm. líta á málið með fullri sanngirni, og mér er það ekkert höfuð. atriði, hvern veg þetta mál er leyst, ef það kemst að mestu fram, sem ég vildi.

Þegar frv. var lagt fram fyrstu daga þingsins í haust og síðan sent til vegamálastjóra, var engin till. komin frá honum um verðlagsuppbætur á þessa styrki. Nú er gert ráð fyrir 50% uppbót fyrir 1942 eftir á. Ég held sumum launþegum þætti það seint og yrðu ekki hrifnir af uppbótinni að lokum, þessum þriðjungi fullrar verðlagsuppbótar. Þetta vildi ég benda hv. 2. þm. Rang. á. Hann talaði einnig um, að ferjutollar væru aðaltekjurnar, sem ættu að borga ferjuhaldið. Það er nú svo. Ég minntist áðan á eina ferju af 15, Iðuferjuna á Hvítá. Í sumar þurfti ég að fara þar yfir með tvo hesta. Ég átti í erfiðleikum að koma þeim yfir. Iðubóndinn kom heim af engjum frá heyþurrki til að gegna ferjuskyldunni. Það þurfti að senda eftir honum, og það tók sinn tíma, allt að því tvær klukkustundir. Ég spurði hann svo um, hvað ég ætti að borga, er hann hafði ferjað mig yfir. „Ein króna. Það er taxtinn,“ sagði maðurinn. Ég roðnaði við, því að svo smánarlega lítið fannst mér þetta gjald vera, en greiddi þó aðeins þetta gjald, þar sem hann sagði, að þetta væri taxtinn.

Ef þessu er þannig háttað meðal ferjumanna yfirleitt, þá held ég tæpast, að hægt sé að segja, að hér sé um einhverja stríðsgróðamenn að ræða. (EOl: Þið verðið að skipuleggja þá í samtökum og fá þá til að hækka taxtann). Ég ætla ekki að fara út í neinar tölur eða útreikninga, en ég get ekki séð annað en að öll sanngirni mæli með því, að á þessar lágu tekjur hinna einstöku bænda, hvort sem um er að ræða ferjuhald eða að halda uppi gistingu á afskekktum stöðum, sé greidd full verðlagsuppbót, eins og frv. á þskj. 23 fer fram á.