05.01.1943
Efri deild: 24. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2916)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Flm. (Steingrímur Aðalsteinsson):

Herra forseti. — Frv. það, er hér liggur fyrir, felur í sér breyt. á l. nr. 30 19. júní 1933, um sjúkrahús og fleira. Í grg. er gerð grein fyrir því, í hverju breyt. er fólgin, en mér þykir þó rétt að fara um efni frv. nokkrum orðum til frekari skýringar.

Í fyrsta lagi felur frv. í sér þá breyt, að þátttaka ríkisins í byggingu sjúkrahúsa verður bundin með l., en nú er ekkert ákvæði um þetta til í l. Það hefur að eins skapazt sú venja, að ríkissjóður hefur borgað 1/3 hluta af byggingarkostnaði sjúkrahúsa og bæjar- eða sveitarfélaga. En hér er um að ræða fjárútlát ríkissjóðs, sem óheppilegt er að hafa ekki lagafyrirmæli fyrir, enda eru lagafyrirmæli til staðar um hliðstæð fyrirbrigði, eins og t.d. þátttöku ríkissjóðs í byggingu skólahúsa. Um það atriði, að lögbinda skuli þátttöku ríkissjóðs í byggingu sjúkrahúsa sveitar-, bæjar- eða sýslufélaga, hygg ég, að vart geti verið nokkur ágreiningur, og ætla því ekki að fjölyrða um það.

Í öðru lagi er sú breyt. fyrirhuguð með frv. þessu, að ríkissjóður borgi 1/2 byggingarkostnaðar á móti bæjar- eða sveitarfélagi, en samkv. venju hefur þessi þátttaka ríkissjóðs verið að 1/3 hluta, eins og getið er um í grg. frv. Hér er því um að ræða nokkuð meiri fjárhagslega byrði á herðar ríkissjóðs en verið hefur til þessa varðandi fjárframlög ríkissjóðs til sjúkrahúsa. Hins vegar lít ég svo á, að það sé síður en svo óréttmæt krafa, að ríkið taki þann þátt í byggingu sjúkrahúsa, sem frv. fer fram á. Það er vitað mál, að sum bæjarfélög hafa mjög takmarkaða möguleika til tekjuöflunar og því takmarkaður rekstrarafgangur til þess að geta lagt út í hinar nauðsynlegustu framkvæmdir. Nú er það svo með sjúkrahúsin, að þau eru ekki bæjar- eða sveitarfélögum til tekjuöflunar, enda væri óeðlilegt, ef svo væri, og sjá þá allir, hversu torvelt þeim er að reisa og starfrækja slíkar stofnanir. Það er þess vegna ekki óeðlilegt, að ríkið, sem á margan hátt á auðveldara með að afla tekna, taki verulegan þátt í kostnaði þeim, er af sjúkrahúsunum leiðir fyrir hin einstöku bæjar- og sveitarfélög. Ég vonast því til, að hv. Alþ. og þessi hv. d., sem frv. er flutt í, sjái sér fært, vegna eðli málsins að þessu athuguðu, að fallast á, að stofnkostnaður sjúkrahúsa verði greiddur að hálfu leyti úr ríkissjóði, en ekki að 1/3 eins og venjan hefur verið til þessa.

Í þriðja lagi felur frv. í sér þá breyt., að ríkið taki nokkurn þátt í rekstrarkostnaði viðkomandi sjúkrahúsa, þannig að það greiði fyrir hvern legudag þeirra sjúklinga, sem ekki eiga lögheimili í sveitar-, bæjar- eða sýslufélagi því, er sjúkrahúsið rekur, sem svarar 1/3 hluta daggjalds viðkomandi sjúkrahúss, enda séu daggjöld utansveitarsjúklinga ekki hærri en innansveitar. Í sambandi við þetta vil ég taka fram, að eins og ég gat um áðan, er rekstur sjúkrahúsa byrði á bæjar- og sveitarfélögum, og þó að það megi telja eðlilegt, að viðkomandi bæjar- eða sveitarfélag borgi þann rekstrarhalla, er verður af völdum innanhéraðssjúklinga, þá er hitt mjög óeðlilegt og litt viðunandi, að það sama bæjar- eða sveitarfélag sé að standa straum af rekstrarhalla viðkomandi sjúkrahúss, sem verður af völdum utansveitarsjúklinga, er greiða gjöld sín til sinna eigin bæjar- eða sveitarfélaga. Og mér virðist varla tiltækilegt að fara að gera bæjar- eða sveitarfélag utansveitarsjúklings ábyrgt fyrir þeim rekstrarhalla, er af hans völdum verður á sjúkrahúsinu, með því líka, að það yrði allt of flókið mál, en hef í stað þess hins vegar talið sanngjarnt, að ríkissjóður tæki á sig þennan rekstrarhalla og leyft mér að set ja ákvæði um það í frv., þannig að ríkissjóður greiði 1/3 hluta daggjalds utansveitarsjúklinga á sjúkrahúsi, eins og ég gat um. Nú er ekki hægt að segja um það með nákvæmni að svo komnu máli, hvort þessi 1/3 hluti af daggjaldinu verður til þess nákvæmlega að „dekka“ þann rekstrarhalla, sem koma mundi niður á viðkomandi bæjar- eða sveitarfélagi, en þó má telja sennilegt, að það mundi verða nærri lagi, gæti e.t.v. orðið heldur ríflegt, sem sízt yrði að lasta, þar sem það, sem fram yfir yrði, mundi þá verða til þess að lækka daggjöldin eitthvað. En það er mjög óheppilegt að setja daggjöldin mjög hátt, því að fjöldi þess fólks, er leggst á sjúkrahús, er fólk, sem ekki hefur af öðru að taka en atvinnutekjum sínum, og það gerir því þess vegna torveldara sem á líður að standa fjárhagslegan straum af legukostnaðinum. Ef svo færi, að 1/3 hluti daggjaldsins, sem ríkissjóður greiddi eftir frv. þessu, yrði ríflegur, þá væri ekki illa farið, að með því, sem afgangs væri, væri hægt að lækka daggjöldin almennt á sjúkrahúsum. Því að ég tel það ekki annað en spor í rétta átt að auka framlög ríkissjóðs til sjúkrahúsa frá því, sem verið hefur, og vildi jafnvel ganga lengra í þá átt en ég hef nú gert með frv. þessu.

En ég get búizt við, að þær mótbárur mundu helzt koma fram gegn frv. þessu, að hér væri um að ræða aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. En því í gegn vil ég mæla það, að í raun og veru ætti ríkið í heild að greiða allan kostnað, sem verður hjá einstaklingnum í þjóðfélaginu fyrir sjúkrahúsvist, fyrir lyf og fyrir læknishjálp. Það verður að athugast fyrst af öllu í þessu sambandi, að sjúkdómar eru félagslegs eðlis, koma og þróast af sambúð mannanna, og þá á ég ekki einungis við þá sjúkdóma, sem smitandi eru, heldur eru sambúðarhættir okkar og kjör fólksins á þann veg sums staðar, að þar er að finna beina orsök sjúkdóma. Á ýmsan hátt annan er hægt að rekja sjúkdómana sem orsök vegna samfélags manna í þjóðfélaginu. Bæri því þjóðfélaginu sem heild að sjá fyrir fjárhagslegum afleiðingum sjúkdóma að öllu leyti. Ekki er þó hér farið inn á þá braut. En af því, að ekki er hér gengið eins langt og ég persónulega vildi, þá vil ég vona, að þessi hv. d. og hv. Alþ. sjái sér fært að ljá þessu máli stuðning sinn, til þess að það geti orðið að l. Skal ég svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar að sinni, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn.