08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2921)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég kemst ekki hjá að segja það, að mér kemur nál. á þskj. 347 á annan veg fyrir sjónir en ég hefði búizt við, að það hefði verið. Það er sem sé ekki hægt að sjá neinn minnsta vott þess af nál., að landlæknirinn hefur eindregið lagzt á móti því, að frv. væri samþ.

Og þm. hefði ekki haft hugmynd um þessa skoðun landlæknis á frv., ef hv. frsm. allshn. hefði ekki getið þess í ræðu sinni, að landlæknir hefði andmælt því.

Ég benti á það við 1. umr. þessa máls, að ástæða væri til að athuga þetta frv. vel sérstaklega með tilliti til þess, að gerðar væru viðtækar breyt. á l. um sjúkrahús, vegna þess að þörf væri allsherjar löggjafar um það efni.

Ég er ekki viss um, að ástæða sé til að ákveða með lögum, hve há skuli vera framlög ríkissjóðs til sjúkrahúsabygginga úti á landi. Þau hljóta að verða mismunandi eftir legu staðanna, þar sem byggja á.

Ég skal fallast á það, sem hv. frsm. tók fram, að engin hætta geti verið á því, að farið verði að reisa sjúkrahús að óþörfu. En sú röð, sem bygging sjúkrahúsa er ákveðin í, gæti raskazt og yrði þar að fara eftir því, hver þeirra teldust nauðsynlegust frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar. Það er rétt og eðlilegt, eins og hv. frsm. tók fram, að ríkissjóður hlaupi undir bagga með sveitarfélögum með rekstrarkostnað. Ég álít, að eðlilegt væri að bæta því við frv., að veitt verði ákveðin fjárupphæð í hlutfalli við þann kostnað, sem sjúkrahús bera vegna dvalar aðkomufólks.

Þar sem ég sé ekki, að þetta frv. feli í sér þær breytingar, sem æskilegar hefðu verið í þessum málum, get ég ekki greitt því atkv. eins og það liggur nú fyrir.