08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2925)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Frv. þetta leggur í raun og veru tvenns konar byrði á ríkissjóðinn. Í fyrsta lagi er lagt til í frv., að tillag ríkissjóðs til nýbyggingar sjúkrahúsa hækki úr því að vera einn þriðji hluti byggingarkostnaðar, sem er nú venjulegt, og vildi ég ræða fyrst um það atriði. Ég hef út af fyrir sig ekkert um það að segja, hvort það sé til of mikils ætlazt af. ríkissjóði, að hann greiði helming af byggingarkostnaði sjúkrahúsanna. En í sambandi við það vil ég leyfa mér að benda á, að eins og nú er, tekur það oft 3 ár eða lengri tíma að fá ríkissjóð til þess að uppfylla þær skyldur, sem hann á að inna af hendi gagnvart sjúkrahúsbyggingum. Ég veit um sjúkrahús, sem hefur fengið byggingarstyrk úr ríkissjóði. Það var undirbúið og byggt á þremur árum, og varð að bíða önnur þrjú ár þangað til fyrsta greiðsla úr ríkissjóði á þessum styrk fór fram. Mér virðist þetta benda til þess, að löggjafinn áliti, að nóg sé greitt til byggingar sjúkrahúsa og ekki sé ástæða til að hækka þann styrk.

Ég álít, að 1. gr. frv. þurfi að breytast mjög mikið, til þess að hún verði að gagni. Þar er sagt: „enda hafi verið veitt til þess fé í fjárl.“, þ.e., að til þess að ríkissjóður leggi fram helming af stofnkostnaði sjúkrahúsa. Og svo stendur, að það skuli til þess fást samþykki trúnaðarmanns ríkisins, sem hér er landlæknir. Og ef hann stendur á móti því t.d. að samþ. uppdrátt eða þ. u. l., þá er ekki náð tilgangi l. Þess vegna finnst mér, að þessi gr. ætti að vera öðruvísi orðuð, ef l. eiga að ná tilgangi þeim, sem mér virðist vaka fyrir hv. flm.

Um hitt atriðið, sem kemur fram í þessari gr., sem á við 9. gr. l., er það að segja, að þar er lögð ákveðin byrði á ríkissjóðinn, sem ekki hefur þekkzt áður. Og ég verð að taka undir það með hv. 3. landsk. þm. (HG), að mér finnst hv. allshn. hafa kastað ákaflega mikið höndum til þess nál. Það hefði t.d. verið ekki lítill fengur fyrir okkur að vita um það, hvað er tilætlunin, að þessi kostnaður verði mikill á ári hjá ríkissjóði eins og á stendur. Mér virðist því ótækt, þar sem ummæli hafa komið fram frá landlækni um málið, þá skuli þeim vera leynt, nema aðeins skýrt frá því í framsögu, hvað hann segir um þessi mál. Mér virðist, að sú n., sem hefur haft málið til athugunar, eigi í nál. að leggja fram öll gögn, sem fyrir hendi eru, til þess að hv. þm. geti dæmt um málið eftir þeim.

Ég veit ekki, hve mörg tugþús. það kostar fyrir ríkissjóðinn að samþ. þessa gr. En mér virðist, að það þurfi að liggja fyrir upplýsingar um það frá n. eða frsm., ef ætlazt er til þess í alvöru, að hv. d. taki ákvörðun um málið. Ég vil ekki taka ákvörðun um það óathugað. Ég vænti þess, að þær skýringar, sem hér vantar á, verði gefnar, áður en málið kemur til lokaafgreiðslu í hv. d.

Að síðustu vil ég benda á, ef þessi gr. verður samþ. hér, a-liður 1. gr. frv., hlýtur hún óhjákvæmilega að framkalla kröfur frá þeim sveitarfélögum, sem undanfarin ár hafa af mjög mikilli fátækt komið upp sjúkrahúsum með styrk úr ríkissjóði fyrir 1/3 stofnkostnaðar eða minna, um, að það væri ekki sanngjarnt, að þau, þó að byrjað sé á byggingum sjúkrahúsa hjá þeim, séu ekki látin hafa styrk samkv. þessari lagabreyt., þegar búið er að samþ. hana.

Þá hefði ég líka gjarnan viljað, að allshn. gæti skýrt frá því, hvort hún hefði aflað sér skýrslna um það, hve mikil þörf er á sjúkrahúsum í landinu, hvort þarfirnar eru ekki meiri fyrir þau í bæjum heldur en í sveitabyggðinni. Og svo, hvort þau sjúkrahús eru notuð til fulls, sem byggð hafa verið með styrkjum á undanförnum árum. Mér er persónulega kunnugt um það, að stórt sjúkrahús er í Stykkishólmi, en það hefur svo að segja alltaf staðið tómt. Ég held, að þarfirnar fyrir sjúkrahús hafi verið langmestar í bæjunum Rvík, Akureyri og Ísafirði, Og spursmál er, hvort ekki er rétta stefnan að reyna að koma upp hæfilega stórum sjúkrahúsum í sveitum og síðan alveg nauðsynlegum sjúkrahúsum í stærri bæjum og þorpum til þess að taka á móti öllum þeim straum af fólki, sem þangað leitar, ekki af því að of lítil sjúkrahús séu í heimasveitinni, heldur af því, að í kaupstöðunum eru miklu meiri tæki og sérfróðir læknar til að lækna sjúkdóma, sem fólk yfirleitt þjáist af. Þetta er mál, sem vert er að rannsaka. Og mér finnst allshn. hefði átt að taka fullt tillit til þess, hvað landlæknir hefði sagt viðvíkjandi því atriði. Erfiðleikar læknishéraðanna úti á landi liggja ekki í því, að erfitt sé að fá lækna þangað vegna þess að sjúkrahús vanti, heldur af því að læknisstaðan í fámennum héruðum er ekki lengur nein læknisstaða eins og það orð er venjulega notað, heldur varðstaða til þess að gegna, aðallega þegar slys ber að höndum. Og þó að sjúkrahús séu þar góð, er ekki þægilegt að fá þangað fyrir lækna unga menn, því að þeir hafa ekki þar neitt verksvíð, jafnvel þó að þar séu sjúkrahús.