08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (2927)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. - Hv. þm. Barð. komst á þá leið að orði; að honum fyndist, að allshn. hefði verið mislagðar hendur við afgreiðslu þessa máls, þar sem ekki lægju fyrir frá hennar hendi þær upplýsingar að öllu leyti í málinu, sem átt hefði að vera. Ég get að nokkru leyti tekið undir þetta og tel það illa farið um jafngott mál sem ég tel þetta mál vera. Ég álít t.d., að það hefði verið skylda n. að birta sem fylgiskjal með sínu nál. umsögn landlæknis, úr því að n. leitaði hans álits, til þess að við alþm. hefðum getað vegið og metið þær ástæður, sem hv. frsm. færir annars vegar fram með þessu máli og landlæknir hins vegar á móti. Hér hefur komið fram, að hv. fjvn. hefði á prjónunum till. viðvíkjandi sjúkrahúsum, sem aðeins snerta þó 4 sjúkrahús á landinu, eða þó öllu heldur 3, því að landsspítalinn var byggður á kostnað ríkisins og er rekinn á kostnað þess. Ég fæ ekki betur séð en jafnvel þó að þessar till. hv. fjvn. yrðu samþ., þá samrímist þær ágætlega því frv., sem hér liggur fyrir.

Ég ætla ekki að fara að endurtaka þau rök, sem bæði hv. flm. þessa frv. og hv. frsm. n. hafa borið hér fram, og skal ekki lengja mál mitt. En einmitt út af þessu, að það er ekki hægt að neita því, að hér við 2. umr. hefur málið ekki verið lagt eins glögglega fyrir eins og æskilegt hefði verið og d. að vissu leyti hefði átt kröfu á, þá vildi ég nú mælast til þess, að hv. þdm. sættust á það að láta málið ganga til 3. umr. og hv. n. vildi svo gefa út framhaldsnál. eða á einhvern hátt vildi birta fyrir okkur alþm. þetta bréf landlæknis, þar sem ég álít, þó að ég sé algerlega fylgjandi þessu máli, að ekki sé nema gott að heyra rök andstæðingsins, sem hann hefur fram að bera. Og það er leitt til þess að vita, að þetta atriði hefur hér orðið til þess að veikja aðstöðu hv. n. Það er yfirleitt venja, þegar nefndir leita umsagnar starfsmanna ríkisins, að þá birta þær álit þeirra, og það þó að þær séu álitinu sammála. En ég tel því meiri skyldu að birta slík álit, ef n. eru ósammála álitum viðkomandi starfsmanna.