08.02.1943
Efri deild: 50. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (2931)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að segja eftir því, sem fram hefur komið, að mér finnst sem hvorki hv. flm. eða allshn. hafi lesið l., sem verið er að breyta. Það stendur í 2. gr. l., hvernig eigi að fara í sambandi við uppdrættina og allt, sem að því lýtur, sem nú er sett í 1. gr. Þessi breyt. hér á því ekki heima þar, sem hún er sett í frv. Þess vegna er það alveg rétt, sem ég hélt fram, að þetta á ekki heima í þeirri gr.

Annað er það, að mér finnst, að þessir hv. þm. hafi ekki samræmi í því, að ekki er gert ráð fyrir, að 8. og 9. gr. eigi að vera kyrrar í l.. og ekki heldur, að þær eigi að falla niður. Það er ekkert rætt um það í frv., hvernig eigi að fara með 8. og 9. gr. (GÍG: Jú, „og breytist greinatalan samkvæmt því“ stendur í 1. gr. frv.).

Það er líka misskilningur hjá hv. flm., að ekki sé hægt að setja inn upphæð, sem eigi að veita úr ríkissjóði í þessu skyni. En það stendur í frv., að ríkissjóður sé ekki skuldbundinn til að veita þessa styrki, fyrr en fé sé veitt til þessa í fjárl. Til þess að frv. nái tilgangi sínum, þarf ríkissjóður að vera skyldugur til að veita slíkan styrk, eftir að bæjar- eða sveitarfélag hefur fengið samþykktan uppdrátt.

Viðvíkjandi því að afla upplýsinga um kostnað við það, sem b-liður er um, þ.e. kostnað vegna utansveitarsjúklinga, um það skal ég ekki segja, hvort landlæknir hefði getað veitt þær upplýsingar. En ég álít ekki einskis virði að vita eitthvað um það, hvað hlutirnir kosta, sem verið er að hafna eða samþ. Ég álít, að það sé kannske ekki alltaf aðalatriðið, en ef hægt er að afla þeirra upplýsinga, álít ég það sjálfsagðan hlut, jafnvel þó að um það sé að ræða að styrkja sjúkrahús.

Viðvíkjandi ummælum hv. 9. landsk. þm. (GÍG) um nál. út af frv. um breyt. á l. um fiskveiðasjóð vil ég taka fram, að sjútvn. í Nd. hafði mál þetta til meðferðar, og hún brást alveg skyldum sínum þar um að birta þessar umsagnir. Og sjútvn. þessarar hv. d. hefði aldrei vitað um þessar umsagnir, ef hún hefði ekki gengið eftir því. En hver hefur svo afleiðingin orðið af þessum vinnubrögðum? Hún er sú, að málinu er stefnt í þá hættu, að spursmál er, hvort það kemst í gegnum þingið, af því að hv. sjútvn. Nd. leyndi þingið þeim umsögnum, sem henni bárust um málið. (GÍG: Hvers vegna tók þá ekki hv. þm. Barð. umsagnirnar upp í nál.?). Það var vegna þess, að það þótti meira um vert að bjarga málinu með því að samþ. það í því ástandi, sem það þegar var komið í, heldur en að eyðileggja það. En þó að vitnað sé í það frv. (um fiskveiðasjóð), réttlætir það ekkert aðgerðir hv. allshn. í þessu máli, sem hér er til umr., að leyna hv. d. því, sem hún átti rétt á að fá að vita.

Ég get fallizt á að samþ. frv. til 3. umr. og vænti, að við þá umr. liggi fyrir allar upplýsingar, sem hægt er að fá í málinu og ekki eru þess eðlis, að þær þurfi að tefja fyrir því, að málið fái eðlilega afgreiðslu hér í hv. d.