16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (2947)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Gísli Jónsson:

Forseti. — Það hefur ýmislegt upplýstst við þessa umræðu, og get ég ekki verið sammála hv. frsm. allshn., að gagnrýni sú, sem hún hefur orðið fyrir, hafi verið að ósekju. Það hefur komið fram í því, sem sagt hefur verið, að hún hefur alls ekki hugsað málið. Og svo komst hún að þeirri niðurstöðu, að hún yrði að koma með brtt. til að bjarga því. Þetta finnst mér nóg til þess, að allshn. hefði óskað, að málið yrði tekið út af dagskrá, svo að hún gæti athugað það nánar.

Hv. deild virðist vera sammála um, að í frv. sé ýmislegt, sem er gott, en á því séu agnúar, sem þurfi að laga, og að ekki sé hægt að samþ. það eins og það er. Ég held, að allir geti verið sammála um, ef b-liður er felldur, þá sé a-liður ekki þess virði, að nokkra þýðingu hafi að samþ. hann einan. Breyt., sem hann veldur, er lítil, aðeins sú, að framlag sé helmingur í stað þriðjungs ef stofnkostnaði, án þess þó, að viðurkennt sé af heilbrigðisstj. og landlækni, að eðlilegt sé að gera það á öllum stöðum.

Út af því, sem hér hefur verið sagt, að ákvæðið í b-lið mundi ekki verða notað til að senda sjúklinga á milli héraða, þá sé ég ekki ástæðu til að ræða mikið um það, en ég vil benda á, að við þurfum ekki að fara langt aftur í tímann til að sjá, hvernig ýmsar sveitarstj. notuðu sér breyt. á sveitfestul. fyrir nokkrum árum. Margar eyddu talsverðu fé til að koma sveitarómögum á Rvíkurbæ og kosta þá, þar til þeir voru orðnir sveitfastir þar. (BSt: Eru til sannanir fyrir þessu?). Blessaður, svo þúsundum saman. Og ég er hræddur um, að það væri ekki heldur spurt um samþykki aðila í þessu tilfelli.

Viðvíkjandi ræðu hv. 4. landsk., vil ég benda á, að ég held það sé misskilningur, að ekki sé stórágreiningur milli landlæknis og allshn., — stórágreiningur bæði um efni og framkvæmdir. Ég sé ekki, að það sé sæmandi fyrir hv. þd. á þessu stigi málsins að ganga á móti till. landlæknis, ekki sízt, þegar málið er þá ekki svo aðkallandi, að ekki megi gefa sér tíma til að koma því í það horf, að það skapist samúð með því, að menn finni, að hér er um réttlætismál að ræða, og því skipað svo vel sem hægt er. En það er alveg fjarstæða, að landlæknir sé að setja fótinn fyrir frv. af því verið sé að draga valdið úr hans höndum. En ég veit annars ekki, hver ætti fremur en hann að hafa yfirumsjón með þessum málum. Ég ímynda mér, að hvorki útgerðarmaður né verkamenn hafi meira vit á þeim en sá, sem hefur þjálfazt í þeim og lært til þeirra og helgar þeim alla krafta sína. Ef á að ganga fram hjá slíkum mönnum, þá veit ég ekki, hvers vegna ríkið er að hafa þá menn í þjónustu sinni.

Þá hefur verið bent á það af hv. 3. landsk., að það sé ekkert vit í, að ríkissjóður taki þátt í greiðslu daggjalda fyrir útlendinga. Þetta er eitt af því, sem sýnir, að allshn. hefur ekki hugsað málið. Þegar henni var falið málið, var hún beðin að athuga allar hliðar þess, en það hefur hún ekki gert.

Hv. 4. landsk. sagði, að ekki hefðu verið færð svo veigamikil rök gegn frv., að ástæða væri til að fella það. Ég hef ekki talað um að fella það, en það er full ástæða til að fresta atkvgr. um það og athuga það betur. Mér þykir merkilegt, ef frv., sem hefur verið tekið með jafnmiklum velvilja og hér er um að ræða, á að falla, ef því er ekki tekið sem vera ber, að færa það í það horf, að það geti orðið að sem mestu gagni.

Ég get ekki lýst fylgi mínu við frv. eins og það er nú. B-lið get ég ekki samþ. eins og hann hefur komið fram frá n.