16.02.1943
Efri deild: 57. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í C-deild Alþingistíðinda. (2951)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Ég skal ekki vera langorður um þetta frv., en vil aðeins benda á það, að mér virðist frv. nú, eftir að n. hefur gert á því þessar breyt., vera þannig, að það megi heita óvenjulegt, ef hv. d. getur ekki fallizt á það. Ég sé enn fremur ekkert að athuga við brtt. hv. 1. þm. Reykv. Hún er alveg meinlaus, því að sú hætta, sem hv. þm. hyggst að fyrirbyggja með henni, mun eigi vera til staðar.

Þeir, sem senda sjúklinga í annað umdæmi, t.d. ef sjúklingur úr Hafnarfirði færi til Rvíkur, þá mundi Rvík ekki tapa á því, en Hafnarfjörður gæti grætt á því, vegna þess að hans sjúkrahúsrekstur hefur dregizt saman.

Ríkið rekur landsspítalann að öllu leyti og lagði fram allan stofnkostnað, og mun ekki vera reiknað með vöxtum af þeirri upphæð. Áætlaður kostnaður, þ.e. rekstrarhalli, þessa árs mun vera um 373 þús. kr. Samkv. fjárlögum munu legudagar áætlaðir 51 þúsund. Ef deilt er með legudagafjöldanum í kostaðinn, þá mun það vera um kr. 7,30, sem ríkið greiðir á dag með sjúklingi, á móti 12–15 kr. daggjöldum sjúklinganna sjálfra. Þar er því fyllilega um að ræða 1/3 af kostnaði, sem ríkið greiðir sjálft. Ég sé því ekki, að þetta frv. íþyngi ríkissjóði hið minnsta, þó að það yrði að l., og mér virðist hér vera um sanngjarnt mál að ræða, þegar miðað er við rekstur landsspítalans.

Alltaf er svo, að betur sjá augu en auga, og þessar brtt., sem hér hafa komið fram, munu fremur vera til bóta, og í fleiri málum en svo, að við umr. og nána athugun liggur allt ljósar fyrir og skýrist, svo að lagfæringar geta orðið nauðsynlegar.