29.03.1943
Neðri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (2966)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Frsm. (Áki Jakobsson):

Frv. það, sem fyrir liggur, tók mörgum breyt. í meðferð Ed., og við gátum ekki séð ástæðu til að flytja frekari brtt. Við höfum rætt um málið við Vilmund Jónsson landlækni. Hann gerði að vísu talsverðar aths., en meiri hl. taldi þær þó ekki það mikilvægar, að ástæða væri til þess að gera breyt. þeirra vegna, en taldi rétt að mæla með því, að frv. yrði samþ. óbreytt. N. er sammála um, að frv. horfi til mikilla bóta. Felur það í sér tvær höfuðbreyt. frá því, sem nú er, gefur ákveðnar reglur um það, hvernig bæjar- og sveitarfélög geti reiknað með styrk úr ríkissjóði til sjúkrahúsa, sem sé helmingi. Í öðru lagi, að ríkissjóður taki þátt með ákveðnum greiðslum í þeim kostnaði, sem hvert sjúkrahús hefur af því að hafa sjúklinga utan héraðs. Flest sjúkrahús eru rekin með meiri og minni halla, og er þess vegna talið óeðlilegt, að þau borgi fyrir sjúklinga úr öðrum héruðum og bæjum. Og væri þess vegna rétt, að ríkið borgaði það, sem þar vantaði upp á, eftir ákveðnum reglum, sem teknar yrðu fram nánar í reglugerð.

Það er að vísu búið að ganga inn á þessa tilhögun þessara mála að nokkru leyti í núgildandi fjárl. Þar er komið á þeirri reglu, að ríkið borgi vegna legu utanhéraðssjúklinga til sjúkrahúsanna á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. En hér er stefnt að því að gera þessa reglu almenna, þannig að hvert sjúkrahús á landinu, sem hefur utanhéraðssjúkling í sínum rúmum, eigi rétt á að fá greiddan styrk vegna legu utanhéraðssjúklinga á sjúkrahúsinu, eftir því sem nánar yrði til tekið í reglugerð. Það var sérstaklega eitt, sem landlæknir kvartaði yfir í sambandi við þetta, að þetta yrði þungt í vöfum og erfitt. En meiri hl. n. sér ekki, að það sé á fullum rökum byggt, og mælir því með því, að frv. gangi fram. Hins vegar hefur minni hl. allshn., hv. 4. þm. Reykv. (StJSt) og hv. 1. þm. Árn. (JörB), lagt til, að frv. verði vísað til ríkisstj. Meiri hl. leggur sem sagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.