29.03.1943
Neðri deild: 85. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2967)

60. mál, sjúkrahús o.fl.

Stefán Jóh. Stefánsson:

Eins og hv. frsm. meiri hl. allshn. tók fram, erum við tveir nm., hv. 1. þm. Árn. og ég, þeirrar skoðunar, að þessu máli eigi á þessu stigi að vísa til ríkisstj. til nánari athugunar og undirbúnings. Styðjum við okkur þar aðallega við þá umsögn, sem n. hafði fengið hjá landlækni um málið, og hins vegar einnig við það, að við athugun á frv. má gjörla sjá, að það munu geta orðið á því allverulegir vankantar, sem gætu leitt út í nokkrar ógöngur. Og skiptir þá ekki máli, þótt það dragist um nokkurt skeið að setja löggjöf um eitthvað svipað efni, heldur en að sett væri um þetta löggjöf nú þegar, sem væri mjög ábótavant og kynni að geta dregið slæman dilk á eftir sér. Við, sem í minni hl. n. erum, sjáum enga brýna nauðsyn til þess, að á þessu þingi verði slíkt frv. afgr. eins og það, sem hér liggur fyrir, ekki sízt fyrir þá sök, eins og hv. frsm. meir í hl. hefur þegar tekið fram, að í fjárl. yfirstandandi árs er búið að gera ráðstafanir til ákveðinna sjúkrastyrkja úr ríkissjóði til aðstoðar við rekstur vissra sjúkrahúsa, vegna legu utanhéraðssjúklinga þar. Og það eru einmitt þau sjúkrahús, sem eru þannig sett, að þangað hljóta að sækja margir utanhéraðssjúklingar. En mörg önnur sjúkrahús á landinu eru þannig sett, að það eru litlar líkur til þess, að nauðsyn sé á, að þau taki á móti utanhéraðssjúklingum. Aftur á móti væri nokkur freisting fyrir þau sjúkrahús til að slægjast frekar eftir þeim sjúklingum, sem utan héraðs eiga heima, en láta innanhéraðssjúklinga fremur sitja á hakanum, þar sem þau fengju ákveðna upphæð úr ríkissjóði fyrir legu þeirra manna á sjúkrahúsunum, sem ekki ættu heima í sjálfu héraðinu.

Fyrir þessar sakir teljum við í minni hl. n., að þetta mál sé ekki nægilega athugað, og leggjum til, að því verði vísað til ríkisstj. og teljum, að með fjárl. yfirstandandi árs sé séð svo fyrir þessum málum, hvað snertir þau sjúkrahús, sem utan Rvíkur eru og eiga nokkuð örðugt uppdráttar, en hafa miklum skyldum að gegna, að við þær ráðstafanir megi una um hríð.

Svo má og nefna, að landlæknir og heilbrigðisstj. telur ekki rétt, að þessi l. verði sett eins og frv. þetta liggur nú fyrir. Og þar sem vænta má þess, að það verði hægt á Alþ., er væntanlega kemur saman næsta haust, að láta fara fram gaumgæfilega athugun á þessu máli af hálfu heilbrigðisstj. og afgr. þá frv., sem betur væri undirbúið og minni vandkvæðum háð, telur minni hl. n. það miklu heppilegri lausn þessa máls. Við leggjum því til, að frv. þessu verði vísað til ríkisstj.