14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 123 í B-deild Alþingistíðinda. (297)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Ég sé, að frv. ríkisstj. um innflutning og gjaldeyrismeðferð hefur tekið nokkrum breyt. í Nd., sem ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh.. hafi kynnt sér, en í tilefni að breyt., sem orðið hefur á 4. gr. frv., vil ég leyfa mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. fjmrh., áður en ég tek afstöðu til málsins í heild. Í 4. gr. segir svo:

„Ríkisstjórnin setur nánari fyrirmæli í reglugerð um efni þau, er í lögum þessum greinir, þar á meðal um úthlutun innflutnings og um gjaldeyrisleyfi, um gjaldeyrisverzlun, um eftirlit tollmanna til varnar við útflutningi innlends og erlends gjaldmiðils og til tryggingar því, að íslenzk útflutningsverðmæti verði greidd með erlendum gjaldeyri, er renni til bankanna. Enn fremur ákvæði um það, að allur annar gjaldeyrir, sem menn eiga eða eignast, renni til þeirra“.

Eins og nú stendur, er allmikið ógreitt af frosnum pundum erlendis, og það hefur jafnvel komið til mála, að eitthvað verði fryst meira af erlendum gjaldeyri, bæði pundum og dollurum. Auk þess hefur það komið fyrir, að við höfum misst skip, sem hafa verið vátryggð erlendis, og vátryggingarupphæðirnar hafa ekki fengizt yfirfærðar. Nú vil ég spyrja, hvernig ríkisstj. hefur hugsað sér, að farið yrði með þessi mál. Hvort það sé ætlunin, að féð gangi jafnóðum til bankanna og afreiknist þar með gengi hvers tíma, eða hvort sé ætlazt til þess, að menn eigi það áfram á sínu nafni, þar til bönkunum þóknast að yfirfæra það og þá með því gengi, sem þá verður. Sama er að segja um nýbyggingasjóðina. Er með þessum lögum ætlazt til, að það fé, sem nú er að mestu í erlendum bönkum, verði afhent bönkunum hér til yfirfærslu.

Þeir menn, sem hafa stofnað nýbyggingasjóði með innstæðum erlendis, og ætlazt til, að þetta fé yrði geymt á þeirra nafni erlendis, þar til að stríðinu loknu, vilja nú gjarnan fá vitneskju um, hvort það fé verður þegar flutt yfir í íslenzka mynt og látið bíða í íslenzkum bönkum, þar til það verður notað eða hvort það verður geymt áfram á nafni þessara manna erlendis, svo að þeir geti síðar notað það til skipakaupa án þess að hafa til þess sérstakt leyfi Viðskiptaráðs.

Vildi ég gjarnan fá svör við þessu nú, svo að viðkomandi aðilar víti, hver s þeir megi vænta um þessi mál í framtíðinni.