14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Hermann Jónasson:

Herra forseti. — Um þetta frv., sem nú liggur fyrir til umr., er ekki hægt að segja mikið nýtt frá því, sem sagt hefur verið nú þegar hér og í háttv. Nd. Það er áreiðanlega rétt byrjun hjá stj. að stöðva verðlagið, eins og gert var fyrir áramótin, og ég álít, að það sé einnig alveg rétt, að það geti verið til bóta að færa saman verkefni þeirra n., sem farið hafa með þau mál, er nú á að sameina undir verksvið Viðskiptaráðs. Það verður einfaldara í framkvæmdinni, og það er að ýmsu leyti eðlilegra, að þannig sé að málunum unnið, og þess vegna er það, að mér virðist, að þm. hér séu yfirleitt sammála stj. um þessa hugsun í málinu. Ég býst við, að stj. þyki þetta orðið of margbrotið eins og það er nú, og ef til vill gerir stj. sér meiri vonir um árangur, ef þetta verður fært saman. En hvað sem þessu líður, þá er þetta að mínu áliti, og eins og komið hefur fram hjá flestum þm., rétt stefna, eins og stöðvunin á sínum tíma. En það veltur vitanlega allt á því, eins og búið er að segja svo oft, hvernig þetta verður í framkvæmdinni, og þó fyrst og fremst, hvaða menn verða skipaðir til þess að takast á hendur það starf, sem viðskiptaráð hefur með höndum, og eins og hæstv. fjmrh. taldi hér upp, er það vald, sem Viðskiptaráð fær, meir a heldur en nokkur n. hefur fengið í hendur hingað til, að ég hygg. Þess vegna veltur mest á því, hvernig mennirnir verða, sem ráðið verður skipað, og þar af leiðandi má segja, eins og líka hefur verið sagt hér áður, að það sé eðlilegt, að stj. vilji gjarna ráða því, hverjir verða skipaðir í Viðskiptaráð. En það ber að taka fleira til greina í því máli að mínu áliti. Fyrst og fremst ber að gæta þess, að þær ráðstafanir, sem gerðar eru, stöðvunin og stofnun Viðskiptaráðs, eru, eins og hæstv. fjmrh. tók fram, fremur formbreyting heldur en efnis.

Með þessum tveim breyt. höfum við enn þá stigið ákaflega stutt spor í dýrtíðarmálunum, Við höfum raunverulega með þessum tveim atriðum aðeins byrjað, en ekki gert neitt af því, sem þarf að gera til þess að koma hlutunum réttan kjöl í þessu landi til frambúðar. En einmitt vegna þess, að þessi skref, sem nú hafa verið stigin, eru byrjunarskref, þá álít ég það vera þýðingarmeira heldur en kannske þ. og stj. gera sér ljóst, að haft verði samstarf um það, hvernig þetta ráð er skipað, því að það verðum við að gera okkur ljóst, bæði Alþ. og stj., að það eru ekki til nema tvær leiðir til að stjórna. Önnur er stj. án þ., hin stj. með þ. Þriðja leiðin er ekki til, hefur aldrei verið til og verður aldrei til. Ef þ. er þannig hugsandi, að það getur ekki skipað þessa n. þannig, að það séu líkindi til þess, að hún geti unnið verk sín vel, þá er ekki. mikil von til þess, að þ. hafi það hugarfar, sem þarf til þess að vinna saman að hinum stóru málum.

Ég held, að það þurfi að vera samstarf og tiltrú milli þ. og stj. nú þegar um skipun þessarar n., því að víssulega þarf slíkt samstarf að vera fyrir hendi, þegar átökin byrja um hin stóru málin. Þetta er það, sem ég vildi segja um þetta mál. Eins og ég sagði í upphafi, þá hafa þessi aðalatriði verið sögð áður, og mér skilst, að eftir þessu hafi verið leitað, en það hafi ekki verið hægt að koma á þessu samkomulagi, og verður það svo að vera. En ég tel hins vegar nauðsynlegt að láta þessa aths. fylgja vegna þess, að ég hef talið, að það færi miklu betur úr hendi og mundi gefa betri vonir um þau erfiðu mál, sem við eigum að fást við og eru rétt fyrir framan okkur, ef þetta samstarf hefði getað hafizt um það atriði, sem vissulega er vandaminna, þó að þar geti fylgt ærinn vandi.