28.01.1943
Neðri deild: 44. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2987)

125. mál, verndun barna og ungmenna

Dómsmrh. (Einar Arnórsson):

Herra forseti.

— Þetta frv. er samið að tilhlutun fyrrv. dómsmrh. af þrem mönnum, þeim Gissuri Bergsteinssyni, Símoni Jóh. Ágústssyni og Vilmundi Jónssyni, og horfir það til sameiningar l. nr. 43 frá 1932 og l. nr. 62 frá 1942. Þessi l. eru svo skyld, að vel sýnist fara á, að úr þeim sé gerður einn lagabálkur. Þetta frv. gerir nokkuð ríkari kröfur en eldri ákvæði, bæði um uppeldisvenjur, um verndun ungmenna, er varðar heilsu þeirra og vinnu, og um vernd gagnvart nautnum. Sömuleiðis eru þar aukin ákvæði um kennslu og uppeldi barna. sem eitthvað er áfátt um, hvort sem er vegna líkamlegs eða andlegs heilsubrests.

Ég hef átt tal um frv. við hina 3 höfunda þess, og við urðum ásáttir um, að þörf sé á því nokkurra breytinga, sem ég vil ræða um við hv. allshn., sem ég vænti að fái málið til meðferðar að lokinni umr.