14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Haraldur Guðmundsson:

Ég er alveg sammála því, sem hv. þm. Str. sagði og sömuleiðis því, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., að hér sé ekki um að ræða ráðstöfun til þess að lækka dýrtíðina í landinu, því að eins og hæstv. fjmrh. sagði, þá er þessi heimild, sem hér er um að ræða, til í l. Breyt. er sú, að því er störfin snertir, að störf fleiri n. og stofnana eru sameinuð og falin víðskiptaráði. Og ég tel, að þessi skipun geri framkvæmdina auðveldari heldur en verið hefur með þessum mörgu mismunandi n. Það má því segja líkt um þetta frv. eins og það, sem stj. hefur áður fengið samþ. í þ., að þetta er eins konar forspjall fyrir þeim víðtæku ráðstöfunum, sem stj. hugsar sér að gera til þess að koma fram lækkun á dýrtíðinni. Og út frá því sjónarmiði finnst mér verða að meta frv. Eins og ég áðan sagði, tel ég það horfa til góðs að sameina þessi störf, og einnig að taka inn þá heimild, sem hér er gert í 5. lið 2. gr., til þess að sjá um innkaup til landsins, ef nauðsyn krefur. Ég er fullkomlega sammála því, sem kom fram í umr., að í rauninni velti langmest á því, hvernig framkvæmdin fer úr hendi, og það, hvernig framkvæmdin fer úr hendi, sé aftur mest undir því komið, hvernig tekst um val manna í viðskiptaráð. því hef ég talið það mjög æskilegt, að um skipun í þetta ráð hefði tekizt fullt samkomulag milli Alþ. og ríkisstj.

Ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að ég skil það ákaflega vel, að stj. vill ráða um skipun mannanna í ráðið. En ég veit ekki með vissu, hvort reynt hefur verið til þrautar að ná því, sem kalla mætti samkomulag þingfl. og stj. um skipun í ráðið. En það kom fram í hv. Nd. brtt. við 1. gr. um það, að í stað þess, að stj. skipaði 5 menn í ráðið, væru 4 skipaðir af stj. eftir tilnefningu þingfl., en 5. maðurinn skyldi vera skipaður án tilnefningar og vera form. n. Þessi till. var felld. Nú hefur einn hv. þm. í þessari d. lýst því yfir, að hans flokkur mundi ekki gera neina till. um breyt. á frv., ef hægt væri að fá samkomulag milli þ. og stj. um skipun ráðsins. Það sýnir sig kannske áður en málinu lýkur hér, hvort hægt er að tryggja eitthvað slíkt. En ég vil sérstaklega taka það fram, að við skipun þessa ráðs þarf að hafa það í huga, að enginn í ráðinu telji sig þangað kominn til þess að gæta hagsmuna eða aðstöðu sérstakrar stéttar eða félagsskapar, og þetta álít ég frumskilyrði þess, að störf ráðsins geti orðið að gagni.

Ég vil því beina því til hæstv. stj., ef hún skipar ráðið án tilnefningar frá þingfl., þá verði það gert fullkomlega án tilnefningar eða úthlutunar nokkurra stétta eða félagssamtaka.

Ég tók eftir því, að hv. 5. þm. Reykv. beindi þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvort það væri ætlun stj. að skipa tvo af ráðsmönnunum eftir tilnefningu S.Í.S. og Verzlunarráðs. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. fjmrh. svari þessari fyrirspurn, og þá upplýsist væntanlega um afstöðu stj. til þessa atriðis.