14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Út af því, sem hv. þm. Barð. minntist á í sambandi við yfirfærslu bundnu pundanna, vil ég segja þetta: Þetta mál hefur verið til umr., en það er ekki útrætt, svo að ég get ekki gefið hv. þm. svar við þeirri spurningu, sem hann bar fram. Ég hygg, að þetta verði tekið til endanlegrar athugunar, áður en langt um líður, og kemur það þá fram, hvað úr þessu verður, en að svo komnu get ég ekki gefið svar við spurningunni.

Út af því, sem hv. 3. landsk. minntist á síðast í ræðu sinni, um tilnefningu sérstakra aðila í ráðið, skal ég taka þetta fram: Stjórnin mun ekki leita neinnar tilnefningar aðila utan þings um val manna í Viðskiptaráð. Hún ætlar sjálf að skipa mennina, með það eina sjónarmið í huga, að starfið verði leyst vel af hendi.