23.02.1943
Efri deild: 61. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 325 í C-deild Alþingistíðinda. (3001)

141. mál, rannsókn skattamála

Magnús Jónsson:

Herra forseti. — Það er auðvitað, að eftir því, sem skattskrúfan er hert og gengið nær eignum manna með beinum sköttum, eftir því verður ríkari tilhneiging manna til þess að nota ýmiss konar undanbrögð. Það er einn megingalli beinna skatta.

Almennt borgaralegt siðferði er í veði, þegar gengið er svo nærri mönnum, sem ekki mega vamm sitt vita, að þeir eru reknir út í það að lita framtöl sín. Hins vegar er eðlilegt, að ríkisvaldið reki á eftir með að hert sé á eftirliti um, að lögum og reglum sé hlýtt, sérstaklega á þeim stöðum, þar sem mikils skatts er að vænta, og eins að það vilji setja á stofn mikið skrifstofubákn til að framfylgja þessum lögum.

Mikið mun skorta á fullkominn grundvöll til þess að byggja skattaálagninguna á, eða svo mun hafa verið til skamms tíma. En þar sem þessi lög eru nú á annað borð, er eðlilegt, að þau séu látin ná fram að ganga og sýnt sé með harðri framkvæmd, hve hörð þessi lög eru.

Sú aðferð hefur verið viðhöfð til skamms tíma, að gera allar reglur um þessi efni sem greinilegastar og hagkvæmastar til að starfa eftir, og hefur mannafli skattstofunnar verið aukinn.

Þegar skattalögunum var breytt síðast, var það sérstaklega á þá leið, að skipaður var skattdómari ofan við skattakerfið.

Ég held, að Sjálfstfl. sé yfirleitt á móti þessu frv. Bæði er sá siður, að fjölga æ ofan í æ embættum í landinu, athugaverður og svo má, ef auka þarf eftirlit á þessu sviði, bæta við mannafla þeirra stofnana, sem annast skattheimtu ríkisins. Annars sýnist það vera, að yfir-, undir- og ríkisskattan. sé nægileg trygging fyrir því, að hægt sé að ná inn sköttunum. En ef brögð eru að því, að framtöl séu ekki sem réttust, er þörf að líta í aðra átt til úrbóta.

Ég ætla ekki að ræða um nýja tekjuskattinn, sem verið er að fara fram á. Það er auðséð, að herða á skrúfuna fastar en að undanförnu. En eins og eðlilegt er, eykst tilhneiging manna til að koma tekjunum undan, þegar hert er á skattskrúfunni. Get ég ekki fylgt frv. á þessu stigi málsins.

Annars skil ég ekki, að hverju leyti þarf betri aðstöðu en við eigum við að búa í þessu efni nú þegar, þar sem eru fjórir eða jafnvel sex rannsóknardómarar í Rvík.

Þá vil ég aðeins víkja að því atriði, að of langt má ganga í skattheimtunni, og er það í rauninni glæpsamlegt, þegar svo langt er gengið, að ekki er gætt að þeirri meginnauðsyn að tryggja rekstur fyrirtækjanna, þótt hins vegar sé skylt að fá framtalið rétt.

Ég vil, áður en málið fer í n., láta í ljós álit mitt almennt í þessu efni, og það er á þá leið, að ég get ekki fylgt málinu, ef flm. koma ekki fram með brtt., sem ég get aðhyllzt.