12.03.1943
Efri deild: 72. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (3028)

152. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Herra forseti. — Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um tilgang þessa frv. og geta um leið þeirra breyt., sem frv. gerir ráð fyrir, að gerðar verði frá núgildandi l. um þetta efni.

Nafni sjóðsins er breytt úr „Lífeyrissjóður embættismanna og ekkna þeirra“ í „Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.“ Þessi nafnbreyting stendur í sambandi við það, að starfssvið sjóðsins er vikkað. Sjóðfélagar í Lífeyrissjóði embættismanna eru allir embættismenn, sem laun taka samkv. hinum almennu launalögum. Ætlazt er til, að þeir verði sjóðfélagar, eins og verið hefur, en auk þess gerir frv. ráð fyrir, að allir aðrir starfsmenn, sem taka laun úr ríkissjóði og eru ráðnir til ekki skemmri tíma en eins árs eða með þriggja mánaða uppsagnarfresti, verði sjóðfélagar, þó því aðeins, að starf þeirra í þjónustu ríkisins sé aðalstarf þeirra. Undanteknir eru þó þeir starfsmenn ríkisins, sem eiga rétt á lífeyri úr öðrum sjóðum, sem stofnaðir eru með l. fyrir tilteknar starfsgreinar sérstaklega, svo sem barnakennarar og ljósmæður. Enda er lagt fram í d. sér stakt frv. um Lífeyrissjóð barnakennara, sem í flestum atriðum gerir ráð fyrir sams konar breyt. á honum og þetta frv. gerir á Lífeyrissjóði embættismanna.

Víkkun sú, sem 2. tölul. 3. gr. frv. gerir ráð fyrir á starfssviði sjóðsins, er ekki ýkja mikil, þar sem flest af því fólki, sem þar kemur til greina, mundi koma inn í sjóðinn við væntanlega endurskoðun á hinum almennu launal.

Hins vegar eru ákvæðin í 4. gr. algert nýmæli. Þar er heimild til að taka í tölu sjóðfélaga: 1) Starfsmenn við ríkisstofnanir, sem hafa sérstakan fjárhag. 2) Starfsmenn bæjar-, sýslu- eða sveitarfélaga. 3) Starfsmenn við sjálfseignarstofnanir, er starfa í almenningsþarfir.

Frá mörgum af þessum aðilum hafa komið fram mjög sterkar raddir um að fá sérstaka eftirlaunasjóði. En hóparnir eru flestir svo fámennir, að þeir munu ekki gefa nægilega áhættujöfnun án þess að sameina þá tvo eða fleiri. En úr því að þess þarf á annað borð, virðist heppilegast að sameina þá í lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Heimild 5. gr. frv. til að kaupa sjóðfélögum réttindi fyrir starfstíma, sem þeir hafa unnið, áður en þeir urðu sjóðfélagar, er nýmæli. Heimild þessi skapar möguleika á því, að menn með langan starfstíma, sem verða sjóðfélagar skömmu fyrir aldursmörk, geti fengið fullan ellilífeyri, eins og þeir hefðu verið í sjóðnum allan sinn starfstíma.

Lífeyrissjóður embættismanna er undir umsjón ríkisstj., en Tryggingarstofnun ríkisins annast reikningshald hans og daglega afgreiðslu. Frv. gerir ráð fyrir óbreyttu ástandi um daglega afgreiðslu og reikningshald. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir, að umsjón með sjóðnum sem mundi verða talsvert umfangsmeiri en nú er, eftir breytinguna — verði létt af ríkisstj. og falin þriggja manna sjóðstjórn, sbr. 6. gr.

Ákvæði 8. gr. frv. um ávöxtun á fé sjóðsins og ákvæði 9. gr. um tryggingarfræðilega endurskoðun á fjárhag sjóðsins eru bæði ný. Þau miða bæði að því að tryggja fjárhag sjóðsins. Ákvæði 9. gr. eiga þó jafnframt að tryggja það, að ekki verði tekið hærra iðgjald í sjóðinn en nauðsynlegt er, til þess að hann geti veitt þau réttindi, sem honum er ætlað. Ákvæðin um iðgjaldagreiðslurnar eru í 10. gr. frv. Þar er um verulega breyt. að ræða frá því, sem nú gildir.

Iðgjöldin eru nú 7% af grunnlaunum, og greiða launþegar þau öll. Frv. gerir ráð fyrir, að þau verði framvegis miðuð við heildarlaun. að bæði launþegi og laungreiðandi borgi iðgjöld og að þau verði fyrst um sinn 10% af heildarárslaununum, þ.e. 4% frá launþega og 6% frá laungreiðanda. Af þessum 6% frá laungreiðanda er gert ráð fyrir, að 1/3 fari til þess að koma sjóðnum í jafnvægi eftir breytinguna. Þegar jafnvægi verður komið á, getur hluti laungreiðanda lækkað um 1/3, og mundi hann greiða jafnt og launþegi eftir það. Nánari útskýringar á þessu eru í grg. frv., bls. 6–7.

Frv. gerir ráð fyrir talsverðum breytingum á réttindum sjóðfélaga.

Ellilífeyrir. Samkv. gildandi reglum þarf embættismaður að hafa náð 70 ára aldri og þjónustualdri, er séu til samans 95 ár eða meira, til þess að fá ellilífeyri. Frv. gerir ráð fyrir, að þessu verði breytt til samræmis við lögin um aldurshámark embættismanna, þannig að aldurinn þurfi ekki að vera nema 65 ár. Ellilífeyrir er nú 27°/oo af launasummu þeirri, sem menn hafa greitt iðgjald af, þó ekki yfir 75% af hámarkslaununum. Frv. gerir ráð fyrir nýjum eftirlaunaskala, er miðast við meðallaun síðustu 10 starfsára. Byrjar skalinn á 12,5% af meðallaunum þessum eftir 10 ára starfstíma, en smáhækkar með starfstímanum upp í 60% eftir 30 ára starfstíma eða lengri. Hvað hundraðshlutann snertir er því um nokkra lækkun að ræða frá því, sem áður var. Eins og sakir standa, mun breytingin þó frekar verða til hækkunar, þar sem frumvarpið miðar við heildarlaun í stað grunnlauna.

Örorkutrygging. Gert er ráð fyrir nokkrum endurbótum á örorkutryggingunni. Þær liggja í því, að þegar rekja má aðalorsök örorkunnar til starfs í þágu þeirrar stöðu, sem öryrkinn gegndi, er örorkulífeyririnn ekki háður starfstímanum, en er jafn fullum ellilífeyri fyrir viðkomandi stöðu, ef um fulla örorku er að ræða, sjá 2. mgr. 13. gr. í frv.

Lífeyrir maka. Frv. gerir ráð fyrir talsverðri breyt. á lífeyri maka. Samkv. gildandi reglum er þessi lífeyrir 1/5 af byrjunarlaunum þess embættis, er makinn gegndi, án tillits til starfsaldurs. Í frv. er lífeyririnn hins vegar ákveðinn sem viss hundraðshluti af meðalárslaunum síðustu 10 starfsára hins látna sjóðfélaga. Hundraðshlutinn fer eftir starfsaldri sjóðfélagans. Fyrir skemmri starfstíma en 10 ár gerir frv. ekki ráð fyrir, að hinn eftirlifandi maki fái neinn lífeyri, en aðeins endurgreidd þau iðgjöld, sem sjóðfélaginn hefur sjálfur greitt. Sé starfstíminn orðinn 10 ár, á eftirlifandi maki rétt á lífeyri, er nemur 20% af fyrrnefndum meðalárslaunum. Lífeyririnn er svo því hærri, því lengri sem starfstíminn er, þó aldrei yfir 40% af meðalárslaununum, og er gert ráð fyrir þeirri upphæð fyrir 30 ára starfstíma eða lengri.

Barnalífeyrir. Ákvæði 15. gr. frv. um barnalífeyri er algert nýmæli. Þessi lífeyrir er hvorki háður starfstíma né launum viðkomandi sjóðfélaga (foreldris). Þótti eigi ástæða til að gera hér neinn mannamun, þar sem útgjöldin til þessa lífeyrir verða ekki stórvægileg, en þörfin fyrir hann hvað mest hjá börnum þeirra sjóðfélaga, sem hafa haft lægstar tekjur. Í gildandi l. er heimilað að endurgreiða embættismönnum iðgjöld, ef embætti þeirra er lagt niður. Einnig er heimilt að endurgreiða starfsstúlkum landssímans iðgjöld þeirra, er þær fara úr þjónustu símans, án þess að þeim sé vikið úr þjónustunni, enda láti þær ekki af starfinu með rétti til lífeyris. Í öðrum tilfellum er ekki heimilt að endurgreiða iðgjöld. Það hefur þó þráfaldlega verið heimilað í fjárl. og endurgreiðsla síðan farið fram úr sjóðnum. Í 16. gr. frv: eru settar fastar reglur um iðgjaldsendurgreiðslur á þá leið, að sjóðfélagi, sem í lifanda lífi og af öðrum ástæðum en elli eða örorku lætur af þeirri stöðu, er veitti honum aðgang að sjóðnum, á rétt á að fá endurgreidd vaxtalaus iðgjöld þau, er hann hefur greitt í sjóðinn.

Að lokum má nefna, að tilsvarandi ákvæði við þau, sem eru í 20. gr. frv., eru ekki í l. um Lífeyrissjóð embættismanna. Þeim er ætlað að tryggja, að lífeyrir, sem sjóðurinn greiðir, geti ævinlega orðið persónulegur framfærslulífeyrir þess manns, sem hann á að hljóta.

Meginbreytingar liggja í eftirtöldum atriðum:

1) Frv. gerir ráð fyrir, að iðgjöld og lífeyrir miðist við heildarlaun í stað grunnlauna. Við það hækka iðgjöld og lífeyrir eins og sakir standa.

2) Frv. gerir ráð fyrir, að iðgjaldsgreiðslunni verði skipt á milli launþega og laungreiðanda, í stað þess, að launþeginn greiði þau öll eins og nú er.

3) Frv. miðar lífeyrisgreiðslurnar meira við þarfir lífeyrisþeganna heldur en nú er gert. Þess vegna er lögð sérstök áherzla á að endurbæta örorku- og ekknatrygginguna og bætt við barnalífeyri.

Allar hinar efnislegu breytingartillögur eru í samræmi við þál., er samþ. var um þessi mál á Alþ. 22. maí 1942.

Læt ég svo þessi orð nægja til þess að fylgja þessu frv. úr hlaði, svo læt ég þau og nægja sem framsögu fyrir næsta máli á dagskrá, frv. til I. um lífeyrissjóð barnakennará og ekkna þeirra.