14.01.1943
Efri deild: 31. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

89. mál, innflutningur og gjaldeyrismeðferð

Gísli Jónsson:

Út af svar í hæstv. fjmrh. við fyrirspurn minni, vil ég segja það, að ég vil beina því til hv. fjhn., að þegar hún gerir þessa athugun, þá sjái hún svo um, að nýbyggingasjóði verði ekki íþyngt með þessum nýju 1., þannig að það verði ekki undir nokkrum kringumstæðum eftir að útbúa flotann, þegar þess þarf með, fremur undir þessum lögum en þeim, sem nú gilda.

Ég hef ekki skipt mér af því, sem hæstv. ráðh. sagði um vald þ. annars vegar og ríkisstj. hins vegar, en ekki get ég látið svo, að mér finnist ekki ræða hæstv. ráðh. nokkuð einræðiskennd, og það meira en tilefni er hér til. Aðalinnihaldið í ræðu hans virtist mér vera þetta: „Samkomulag getur því aðeins verið hér gott, að stj. ráði ein öllu“, en mér finnst slíkt ekki vera neinn samvinnugrundvöllur. Þessi stjórn er orðin til án afskipta þ., eins og hv. 3. landsk. minntist á, ef hún hefði verið skipuð af meiri hl. þ., var ekki nema eðlilegt, að hún hefði þetta vald. En það er eðlilegt, að þeir, sem ekki hafa viljað framselja þetta vald, og ef til vill hafa verið kúgaðir til þess af öðrum — það er eðlilegt að þeir vilji ekki framselja þetta vald, ef um slíka einræðiskennd er að ræða í hverju máli eins og kom fram í ræðu hæstv. forsætisráðh. Þess hefur verið óskað af hæstv. fjármrh., að þetta mál verði afgreitt fyrir annað kvöld, og ég geri ráð fyrir, að d. taki þá ósk til greina eftir því, sem unnt er, en það mun ekki verða, ef sú hugsun á að komast hér inn, sem bar á í ræðu hæstv. forsætisrh. um vald þeirrar stj., sem ekki er skipuð af þ., og þarf að athuga að slíkir ásteitingarsteinar séu ekki settir milli þ. og stj., meðan þetta ástand er ríkjandi í landinu.