04.12.1942
Neðri deild: 9. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í C-deild Alþingistíðinda. (3041)

21. mál, virkjun Andakílsár

Flm. (Pétur Ottesen):

Það munu nú vera liðnir nærri því fjórir áratugir, síðan fyrst var hafizt handa hér á landi um notkun vatnsafls til framleiðslu rafmagns. Ég ætla, að það hafi verið Hafnarfjarðarkaupstaður, sem fyrstur reið á vaðið með virkjun lítils lækjar, sem rennur í gegnum kaupstaðinn. Þar næst kom sú virkjun, sem hér er um að ræða, á dagskrá. Í sambandi við Andakílsá hefur verið gerð fyrsta athugun, sem miðast að virkjun stærri fallvatna. Árið 1907 var Halldór Guðmundsson rafmagnsfræðingur fenginn til að athuga möguleika á virkjun fossanna í Andakílsá. Síðan lá málið nokkuð lengi í þagnargildi. Næsta skrefið var svo stigið árið 1920, þegar Steingrími Jónssyni rafmagnsfræðingi var falið að gera athugun um virkjun fossanna, en Guðmundur Hlíðdal, núverandi landssímastjóri, vann að þessu með honum. Var áætlun þeirra miðuð við það, að þarna yrðu framleidd 2J00 hestöfl. Áætlunin sýndi, að hér var um sérstaklega hagkvæma aðstöðu til virkjunar að ræða. Þegar áætlun þessi var borin saman við reynslu þá, sem fengizt hefur á öðrum stöðum, þar sem virkjun hefur verið framkvæmd, t.d. við Sogsfossa og Laxá fyrir norðan, þá sést, að virkjun Andakílsár verður langódýrust, og er þá miðað við áætlun Árna Pálssonar verkfræðings. Það, hve ódýrt getur orðið að virkja Andakílsárfossa, stafar af því, hve fallhæð er þar mikil, og hinu, hversu kostnaður við stíflugerð getur orðið tiltölulega lítill, en þar felst venjulega stærsti kostnaðarliðurinn í virkjun fallvatna. — Ekki varð þó úr framkvæmdum samkv. áætlun Steingríms Jónssonar, því að þess var þá enginn kostur að afla þess fjár, sem þurfti til þess að koma upp svo miklu mannvirki. En síðan hefur orðið mikilsverð þróun á þessu sviði og ný tækni komið til sögunnar. Hefur því þótt nauðsynlegt að gera nýja áætlun um þessar framkvæmdir. Árið 1937–38 er aftur farið að vinna að málinu fyrir atbeina Mýra- og Borgarfjarðarsýslna. Árni Pálsson, sem gert hafði áætlunina um virkjun Laxár, var fenginn til að gera nýja áætlun um virkjun Andakílsár, og skyldi hún miðuð við það, að nóg r afmagn fengist handa Akranesi, Borgarnesi, Hvanneyri og nokkrum sveitabýlum, þar sem leiðslurnar liggja um. Sporið var ekki stigið stærra en þetta vegna þess, að athugun hafði sýnt, að virkjun þarna getur ekki borið sig fjárhagslega með núverandi tækni, ef rafmagnið er leitt út um dreifbýlið.

Áætlun þessi var fullgerð árið 1939. Í grg. frv. er tilgreindur áætlaður kostnaður við virkjunina og lagningu háspennulína til þeirra staða, sem ég nefndi áðan. En eftir að áætlunin var samin, gerðist sú mikla breyting, að styrjöldin skall á, og varð það til að hækka allar slíkar framkvæmdir í verði. Til þess að fá áætlun, sem líkur væru til, að fengi staðizt á þessum tímum, varð að umreikna upphaflegu áætlunina í samræmi við núverandi verðlag og kaupgjald, og er vikið að þessu í grg.

Þessar áætlanir, sem nú eru orðnar mjög háar að krónutölu, sýna þó, að kleift er að standa undir virkjunarkostnaðinum. Nú er og hægra að afla lánsfjár og kostur ódýrari lána en áður og til lengri tíma. Vegur þetta nokkuð upp á móti auknum kostnaði við allar framkvæmdir.

Nú er það að vísu svo, eftir því sem fram hefur komið síðustu daga um öflun véla og annars til virkjunarinnar, að líkur eru til, að nokkur dráttur geti orðið á því að fá þessa hluti keypta og flutta til landsins. Þó eru þær fregnir. sem borizt hafa viðvíkjandi þessu, ekki þannig, að ástæða sé til að örvænta um, að úr kunni að rætast. Að vísu hafa brugðizt vonir manna um að fá þetta til landsins á árinu 1943, en líkur eru til, að það fáist 1944. En þó að dráttur sé fyrirsjáanlegur á þessu, má það ekki verða til að aftra því, að allur undirbúningur sé framkvæmdur og hafizt handa um það sem allra fyrst.

Við flm. og aðrir, sem að þessu máli standa, vildum ekki láta fara á flot með það á Alþ., fyrr en fullkomin áætlun væri fyrir hendi. Við teljum, að Alþ. eigi heimtingu á því, þegar farið er fram á slíka ábyrgð, að þá liggi ekki aðeins fyrir fullkomin kostnaðaráætlun um framkvæmdir þær, sem um ræðir, heldur og tilboð um það, sem til framkvæmdanna þarf, svo að tryggt sé, að áætlunin sé raunhæf. Þessu skilyrði hefur hér verið fullnægt. Hefur verið svo vel og örugglega frá öllu gengið sem frekast er unnt. Áætlunin er gerð af þeim manni, sem mesta reynslu hefur um slíka hluti allra Íslendinga, og tilboð hefur auk þess fengizt í vélar, svo að því leyti liggur allt ljóst fyrir.

Hér er nú farið fram á, að Alþ. ábyrgist nokkru hærra lán en ráðgert er, að til virkjunarinnar þurfi, samkv. áætluninni um verkið og tilboði því í vélar, sem fengizt hefur. Við flm. teljum þetta nauðsynlega öryggisráðstöfun, til þess að fjárhagsgrundvellinum verði ekki kippt undan fyrirtækinu, þó að breytingar kunni að verða á verðlagi til frekari hækkunar. Samkv. áætlun Árna Pálssonar þolir verkið, að kostnaður hækki nokkuð frá því, sem gert hefur verið ráð fyrir.

Ég get tekið það fram, að áætlunin er miðuð við það, að fyrirtækið geti borið sig fjárhagslega, og er þá ætlazt til, að lán verði tekið til 25 ára og fáist með 41/2% ársvöxtum. Nú er raunar ekki örvænt um það, ef ekki verður skyndileg breyting til hins verra, að lán til svo langs tíma megi fá með lægri vöxtum eða allt niður í 4%. Ég ætla, að dæmi séu til þess, að lán hafa fengizt nú að undanförnu með þeim kjörum. Það mundi þá verða til að bæta afkomu fyrirtækisins. En allir reikningar eru miðaðir við 41/2% lán, eins og ég tók fram áðan.

Mér þykir ástæða til að minnast á eitt atriði enn í sambandi við þetta mál. Þegar ráðizt var í Sogsvirkjunina, sem er miðuð við 12500 hestöfl, var talið, að sú virkjun mundi geta falið í sér leiðslu rafmagns víða út um byggðir landsins. En reynslan hefur nú sýnt, að það mundi hafa verið hið mesta glapræði að leggja háspennulínur til dæmis upp í Borgarf jörð og til annarra jafnfjarlægra héraða, því að það hefur komið í ljós, að mikið skortir á, að Sogsstöðin fullnægi þörfum Rvíkur og Hafnarfjarðar.

Það skortir svo mikið á í þessu efni, að verkfræðingarnir, sem við flm. höfum talað við um þessi mál, þeir Árni Pálsson og fleiri menn, sem þekkingu hafa á þessum málum, líta svo á, að þó að Sogsvirkjunin verði stækkuð um þessi 9000 hestöfl, líði ekki á löngu, þangað til Hafnarfjörður og Rvík þurfi á að halda meginhlutanum af þeirri orku, ef ekki henni allri, svo að það er ekkert á því að byggja, að þessi virkjun, sem nú framleiðir rafmagn handa Rvík og Hafnarfirði, verði til að bæta úr rafmagnsþörf annarra staða, jafnvel þó að þessi 9000 hestafla viðbót fáist. Það er því svo, að þegar þetta e r allt athugað í sambandi við þessa þörf Borgarfjarðar, þá virðist liggja langnæst að hverfa að því að hefja virkjun við Andakílsfossa. Það er ekki gert ráð fyrir, að þessi virkjun þurfi að vera nema 6–7 þús. hestöfl til þess að fullnægja þörf Borgarf jarðarhéraðs, þ.e.a.s. Mýra- og Borgarfjarðarsýslu, að meðtöldu Borgarnesi og Akranesi, en nú er mjög auðvelt að fá 12000 hestafla orku frá Andakílsárfossum með tiltölulega litlum kostnaði eftir því . sem kostar að framleiða rafmagn, svo að þarna mundi verða allmikið afl fram yfir þarfir héraðsins, eða 6–7 þús. hestöfl, sem áreiðanlega er hagkvæmt að taka til virkjunar og afnota fyrir nærliggjandi héruð, sem sennilega yrði þá Dalasýsla og Hnappadalssýsla og Snæfellsnessýsla að einhverju leyti.

Nú er vitað, að sú skoðun er uppi, að heppilegra sé að haga rafvirkjunarmálum í framtíðinni þannig, að tekin séu til virkjunar stór fallvötn og dreifa orkunni þaðan, heldur en að taka smærri fallvötn, sem hafa mjög takmarkaða vatnsorku. Við flm. getum vel fallizt á, að mjög sterkar stoðir renni undir þessa stefnu, því að það er vafalaust, að miðað við hestaflafjölda er ódýrara að hafa stöðvarnar færri og stærri. Kemur þar ákaflega mikið til greina, hversu stöðugt er vatnsrennslið, en skilyrðið fyrir því er, að það regnsvæði sé stórt, sem liggur að fallvatninu, sem tekið er til virkjunar, og það eru þau fallvötn auðvitað öruggust, sem renna úr stórum og djúpum stöðuvötnum. Þetta er meginástæða þess, hversu heppilegt Sogið er til virkjunar. Það er ekki fyrir það út af fyrir sig, að þar sé svo mikið fallhæð, heldur rennur það úr stærsta og dýpsta stöðuvatni landsins, Þingvallavatni. Um Andakílsárfossana er það að segja, að þeir hafa að því leyti yfirburði yfir Sogsfossana, að fallhæð er þar miklu meiri, og um vatnsaflið er það að segja, að þar er það líka fyrir hendi, sem skapar Soginu þessa sérstöðu, því að áin rennur úr einu dýpsta stöðuvatni þessa lands, sem auk þess er allstórt, sem sé Skorradalsvatn. Þetta veldur því, að tiltölulega mjög mikill rennslisjöfnuður er í Andakílsá, auk þess sem tiltölulega mjög stórt regnsvæði liggur að upptökum árinnar. Að þessu leyti virðast því Andakílsá og Sogið vera mjög sambærileg til virkjunar í stórum stíl.

Þá er annað, sem kemur til greina, en það er lega þessara fallvatna hvors fyrir sig. Virkjun á báðum þessum stöðum getur fallið inn í sama kerfi, og það er vitanlega ákaflega mikill kostur, því, að eftir þeim viðtölum, sem við flm. höfum átt við sérfræðinga í þessum efnum, þá lita þeir svo á, að það sé eðlilegur gangur þessara mála, að Andakílsá sé virkjuð samtímis því, sem stækkuð er virkjunin við Sogið, og það sé eðlileg þróun þessara mála, að í framtiðinni verði þetta sama kerfið. Þeir telja því, eins og ég hef áður tekið fram, að þessar tvær virkjanir þurfi engan veginn að rekast hvor á aðra, heldur verði þær tveir liðir í sameiginlegu kerfi. Ég vil aðeins láta þetta koma fram í sambandi við þá stefnu, sem nú er uppi um að beina átaki þjóðarinnar að þessu mikla máli, að virkja stærri árnar, að þessi virkjun brýtur ekki á neinn hátt í bága við þá stefnu, heldur er hún eðlilegur liður í framkvæmd hennar.

Ég held, að það sé svo ekki fleira, sem ástæða er til að taka fram fyrir hönd okkar flm. nú við 1. umr. Við munum að sjálfsögðu senda n., sem fær þetta mál, síðustu áætlun, sem gerð hefur verið yfir virkjunarkostnaðinn og fjárhagshlið þessa máls, til nánari athugunar í n. í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Við leggjum vitanlega höfuðáherzlu á, að þetta mál geti fengið afgreiðslu á þessu þingi, því að það er þegar hafinn undirbúningur á því af hálfu þeirra manna, sem hefur verið falin framkvæmd þessa máls heima í héraði, að afla láns til fyrirtækisins, og það er eins með þetta fyrirtæki og Laxárvirkjunina, Sogsvirkjunina og aðrar stórar virkjanir, að því verður ekki hrundið í framkvæmd, nema ábyrgð ríkisins fáist til fyrirtækisins. Þess vegna leggjum við höfuðáherzlu á, að málið geti fengið afgreiðslu á þessu þingi, svo að það verði ekki fjötur um fót þeim mönnum, sem nú eru að brjótast í að fá komið á þeirri skipan, að hægt verði að taka til við virkjunina, undir eins og rætist úr þeim erfiðleikum, sem nú eru á öflun efnis til virkjunarinnar, en vonir standa til um, að það geti breytzt til batnaðar, þó að ekki verði á næsta ári, þá á árinu 1944, og þá er vitanlega sjálfsagt að nota þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi um útvegun láns með góðum kjörum og afla þess láns nú, og er ekki i það horfandi, þó að borga þyrfti vexti af því láni í eitt ár eða svo, áður en beinlínis er ráðizt í fyrirtækið, en við Borgfirðingar höfum reynslu af því eins og aðrir landsmenn, að allan þann tíma, sem þetta mál hefur verið í undirbúningi heima í héraði, hefur strandað á því, að ekki hefur verið hægt að afla nægilega mikils fjár til fyrirtækisins, en þeir möguleikar virðast nú vera fyrir hendi. En til þess að hægt sé að ganga frá þeim hluta málsins, er nauðsynlegt, að Alþ. verði við þeim óskum, sem í þessu frv. felast, og ábyrgist nauðsynlega lántöku fyrir héraðið til framkvæmdar þessa máls.

Ég vil svo að lokum gera það að tillögu minni, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og fjhn. Við flm. munum svo afhenda n. þessar áætlanir, sem ég hef getið um, og vitanlega erum við reiðubúnir til að gefa allar upplýsingar, sem þörf er á í þessu máli, og auk þess sá verkfræðingur, sem mest hefur unnið að þessu máli, sem er Árni Pálsson.