04.03.1943
Neðri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í C-deild Alþingistíðinda. (3053)

21. mál, virkjun Andakílsár

Frsm. meiri hl. (Jón Pálmason):

Eins og kunnugt er öllum hv. þm., var tekin ákvörðun um það í byrjun stríðsins, að ekki skyldi leggja í mikið af stórum framkvæmdum, sem erlent efni þyrfti til, meðan stríðið stæði. Þar með voru rafvirkjanir. Þetta hefur nú breytzt að því leyti, að eftir því, sem lengra hefur liðið og ljósara hefur orðið, hve fjárhagsástæður hafa batnað á stríðsárunum, þá hefur meiri og meiri orðið aðsóknin um það af hálfu hinna einstöku héraða og kaupstaða og þeirra fulltrúa að fá sem víðast aðstöðu til þess að koma rafvirkjunum í framkvæmd. Eins og kunnugt er, hefur það svo gengið á undanförnum árum, að þessi mál hafa nokkuð bundið hvert annað. Því að ef tekin væri stíflan úr um veitingu ábyrgðarheimilda fyrir vissar framkvæmdir á þessu sviði, yrði erfitt að neita sumum um slíkar heimildir, sem öðrum væri veittar, ef yfirleitt eru sæmileg skilyrði fyrir hendi. En með tilliti til þess, að hreppapólitíkin hefur sýnt sig á þessu sviði í flestum myndum á undanförnum þingum, þá var ákveðið á þinginu í sumar að setja mþn. í þetta mál til þess að koma því í eitthvert heildarkerfi fyrir landið allt, þannig að koma mætti rafmagninu sem víðast um landið. Eins og gefur að skilja, hefur þessi mþn. haft tiltölulega lítinn tíma til að starfa enn þá og taka ákvarðanir um þetta víðtæka og stóra mál. Og hún hafði kosið að þurfa ekki að skila neinum ákveðnum till., fyrr en búið væri að ganga frá heildarfrv. í þessu sambandi. Það hefur verið gengið svo hart eftir ákvörðun fjhn. varðandi rafvirkjanir á þeim tveimur stöðum, sem hér um ræðir, sem sé fyrir Siglufjörð og fyrir Akranes og Borgarnes, að við, sem erum samtímis í fjhn. og þessari mþn. í raforkumálum, höfum ekki séð annað fært en að skila áliti, að því er þessar rafvirkjanir snertir. Varðandi það mál, sem var verið að afgreiða hér í dag, þá lögðum við til, eins og kunnugt er, að frestað yrði ákvörðun um það þangað til frekari rannsókn yrði gerð. Þetta hefur nú meiri hl. þessarar hv. d. ekki viljað heyra og hefur knúið málið fram. Um málið, sem nú liggur fyrir, virkjun Andakílsár í Borgarfirði, er nokkuð öðru máli að gegna. Það er ekki ágreiningur um það, að þarna er góð aðstaða til rafvirkjunar, svo að sjálfsagt er að nota hana annaðhvort að öllu leyti eða einhverju leyti. En eigi að síður, þó að um þetta sé enginn ágreiningur, hvorki í fjhn. né annars staðar þar, sem ég þekki, þá er því þannig farið, að við í fjhn. höfum ekki getað orðið sammála um afgreiðslu málsins. Tekur sá ágreiningur sig greinilega út í þeim nál., sem við höfum skilað, annars vegar meiri hl., — á þskj. 461, — hins vegar minni hl., sem er hv. 2. þm. Reykv., á þskj. 468. Við í meiri hl. viljum í sambandi við þessar virkjanir, sem eru flestar stórvirkjanir, sem talað er um að ráðast í, eftir að búið er taka stífluna burt, sem sett var í byrjun stríðsins, láta marka um leið þá stefnu, sem koma skal í rafmagnsmálunum, til þess að hægt sé að hugsa sér að koma rafmagninu almennt út um sveitir landsins. Þess vegna teljum við óráðlegt, um leið og ákveðin er rafvirkjun á þessum stað, að eingöngu sé miðað við þau tvö kauptún, sem þarna eiga hlut að máli, Akranes og Borgarnes, en ekki að neinu leyti við þarfir þeirra sveita, sem í nánd eru og rafmagn frá þessum stað gæti fullnægt. Og álit okkar er það, eins og fram hefur komið í nál., að þegar farið er að koma þessum raforkumálum í fast kerfi, þá verði það naumast á annan hátt en þann, að þær stærri rafvirkjanir, sem gerðar eru, verði byggðar af ríkinu og eign þess, og allar aðallínur milli héraða verði sömuleiðis kostaðar af ríkinu, og rafmagn við hverja háspennistöð, hvort sem þær eru nær eða fjær orkukerfinu, verði selt sama verði. M.ö.o., hugsunin, — sem fyrir okkur vakir, er sú, að það verði í þessum efnum farið alveg þá sömu götu eins og við höfum hér á landi farið í símamálum okkar og vegamálum o.s.frv. Þannig viljum við ákveða í þeirri löggjöf, sem sett verður í raforkumálum, hvað skuli vera ríkisleiðslur og hvaða orkuver ríkið skuli kosta og hver skuli kostuð af héruðum og einstökum sveitum og einstaklingum, sem eiga hlut að máli. Það er nú svo, að ef það hefði verið athugað, þegar fyrst var farið að leggja þjóðvegi hér á landi, hvílíkt ógnar fé það kostaði að koma vegi inn á hvert heimili á landinu, þá hefði mönnum að sjálfsögðu blöskrað. Og eins blöskrar nú ýmsum, að þjóðin þurfi að gera það átak að koma rafmagninu, þessum ákaflega eftirsóttu þægindum, inn á hvert heimili þessa lands. Á sínum tíma olli það líka mjög alvarlegum átökum og deilum hér í landi, þegar byrjað var að leggja síma um landið, og mjög stór flokkur manna taldi, að verið væri að leggja út í ófæru, framkvæmdirnar væru í algeru ósamræmi við fjárhagsgetu þjóðarinnar.

Nú er það nokkurn veginn augljóst mál, að ef á að halda áfram á þeirri leið að virkja aðeins fyrir kaupstaðina og kauptúnin, þar sem margt manna er saman safnað á litlum bletti, án þess að hugsa nokkuð um hinar dreifðu byggðir í sveitum þessa lands, þá verða alltaf minni og minni líkur fyrir því, að þessum málum sé komið í fast kerfi, þannig að um hvorn tveggja aðilann sé hugsað jöfnum höndum. Við þetta sjónarmið eru þær brtt. sniðnar, sem við leggjum fram á þskj: 461 við þetta frv.

Það er talið af þeim verkfræðingum, sem hafa rannsakað það fallvatn, sem hér um ræðir, að þar megi virkja nálægt 12 þúsund hestöfl. Og þó að ætlað sé töluvert meira rafmagn á mann en nú er notað í þeim kaupstöðum, sem rafmagn hafa, þá ætti þessi orkuforði að nægja fullkomlega fyrir þau héruð, sem við nefnum hér til að njóta raforku frá þessum stað. Við þetta er till. meiri hl. miðuð, sem við leggjum til, að sé umorðun á 1. gr. frv.

Varðandi 2. gr., sem segir, að undirbúning og framkvæmd verksins skuli miða við, að vatnsaflið allt sé virkjað, en megi þó framkvæma verkið í áföngum, eftir því sem henta þykir, þá er hugsunin sú, að gert sé ráð fyrir því nú þegar, að það eigi að virkja allt aflið, en taka verkið í áföngum. Og að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu, að byrjað verði á þeirri virkjun, sem gerð hefur verið áætlun um, sem er ekki nema 2400 hestöfl, ef það þykir ekki fært í bili að ráðast í meira. Sá verkfræðingur, sem um þetta hefur gert áætlun, telur, að þessi aðferð þurfi ekki að valda neinum baga fyrir framhald virkjunarinnar, enda þótt líklegt megi telja, að það sé heppilegt að taka þarna fyrir stærri virkjun, ef það gerir ekki röskun á þeim undirbúningi, sem þegar er hafinn.

Varðandi brtt. við 3. gr. er það að segja, að við ætlumst til, að þessi virkjun og línur, sem út af henni liggja, komi inn í heildarrafmagnskerfi landsins, þegar það verður ákveðið. Hins vegar er að sjálfsögðu eðlilegt, að þetta fyrirtæki, hvort sem það er byrjað í smáum eða stórum stíl, verði rekið sem sjálfstæð stofnun, meðan ekki er komið fast skipulag á þessa hluti á sama hátt og vegamál, símamál og vitamál o.s.frv., þannig að yfir þessi rafmagnsmál verði settur fróður maður, eins og á sér stað um þau mál, sem ég nú taldi upp.

4. gr. er um það, að það félag, sem þarna hefur hafið undirbúning með áætlun og ráðagerð um framkvæmdir, fái að sjálfsögðu endurgreiddan þann kostnað, sem það hefur lagt út í, og að hann verði talinn með stofnkostnaði verksins. Og enn fremur sú borgun, sem ríkið yrði að greiða fyrir þau vatnsréttindi, sem þarna er um að ræða, hvort sem það semdi um greiðslu fyrir þau eða það yrði að fara eftir ákvæðum vatnalaganna, sem gera ráð fyrir því, að ríkið taki undir sig eftir mati þau vatnsréttindi, sem ekki semst um.

5. brtt. fer fram á, að sett sé inn gr., sem verði 5. gr., þar sem ákveðið verði, að settar verði upp háspennustöðvar í öllum þeim héruðum landsins, sem við ætlumst til, að orka verði leidd til frá þessu veri, og að ákveðið verði að fengnum till. viðkomandi sýslunefnda, hvar þær háspennustöðvar verði settar. Og svo hitt, að raforkan verði á öllum stöðum seld með sama verði, án tillits til þess, hvort meira kostar eða minna að leiða hana á þá staði, sem háspennustöðvarnar eru reistar á.

Það gefur auga leið, að þar með er málið ekki leyst. Því að það kostar náttúrlega gífurlegt fé að leiða raforkuna út frá þessum háspennustöðvum í hverju héraði og til hinna einstöku heimila og byggðarlaga. En það er mál, sem ekki er neitt tekið til athugunar í þessu frv., sem hér liggur fyrir, en að sjálfsögðu verður að koma löggjöf um. Og þá kemur það ekki sízt til greina, hvernig framkvæmd verður hagað um styrk eða lán úr hinum nýstofnaða raforkuveitusjóði.

Þá er 6. og síðasta brtt. um það, að 6. gr. frv. verði á þá leið, að ríkisstj. sé heimilað að taka lán, sem hér er stungið upp á, að sé allt að 10 millj. kr., til byrjunar á þessum framkvæmdum. Það er að sjálfsögðu ekki hægt fram hjá því að komast, og ekki óheppilegra, að ríkið taki lán en einstakar sveitir og héruð, en ríkið ber svo ábyrgð á að fullu, eins og rétt áðan var verið að samþykkja hér í hv. deild.

Ég geri nú ráð fyrir, að það sé um þau nýmæli að ræða í þessum brtt., sem þegar hafa valdið ágreiningi, og að hann komi fram í ýmsum myndum. En ég vil biðja menn að athuga það, áður en þeir slá föstu að fella þessar brtt. frá okkur í meiri hl. fjhn., á hvern hátt þeir ætla sér að koma rafmagninu út um sveitir landsins. Eða er það virkilega, að þeir ætli að láta sér það eitt lynda, að komið sé raforkunni i þéttbýlið, til kaupstaða og kauptúna, án þess að hugsa neitt um þarfir þeirra manna, sem eru í hinum strjálu byggðum landsins?

Ég held það sé ekki að sinni ástæða fyrir mig að fara um þetta mál fleiri orðum. Ég ætla ekki að þessu sinni að ganga neitt inn á þær aths. í einstökum atriðum, sem minni hl. fjhn., hv. 2. þm. Reykv., hefur lagt fram í nál. sínu. Hann talar að sjálfsögðu fyrir skoðun sinni, og þá gefst mér og öðrum í meiri hl. tækifæri til gagnrýni.